5.1.2020 11:02

Thomas K. Friedman um morðið á Suleimani

Thomas K. Friedman, dálkahöfundur The New York Times, er í hópi bandarískra blaðamanna sem hafa mesta þekkingu á málefnum Mið-Austurlanda.

3q5awcdv2zy1ahk8k98l_400x400Thomas K. Friedman

Thomas K. Friedman, dálkahöfundur The New York Times, er í hópi bandarískra blaðamanna sem hafa mesta þekkingu á málefnum Mið-Austurlanda. Vegna morðsins á írsanska hershöfðingjanum Suleimani skrifaði hann grein sem birtist 4. janúar og hófst hún á þessum orðum:

„Til þess kann að koma einn góðan veðurdag að gata í Teheran verði nefnd í höfuðið á Trump forseta. Hvers vegna? Vegna þess að Trump gaf fyrirmæli um að myrða manninn sem er líklega heimskastur í Íran og nýtur mesta ofmats sem herstjórnandi í Mið-Austurlöndum: Qassim Suleimani hershöfðingja.“

Í greininni tíundar Friedman mistök Suleimanis.

1. Eftir að samið var 2015 um að aflétta refsingum á Írani vegna kjarnorkuáætlunar þeirra gegn því að þeir hyrfu frá áformum um kjarnorkuvopn í 15 ár hratt Suleimani í framkvæmd yfirráðastefnu gagnvart nágrönnum Írana. Gróf undan stjórnvöldum í Líbanon, Sýrlandi, Írak og Jemen til að þjóna valdafíkn klerkanna sem stjórna Íran.

2. Þetta ögraði Bandaríkjastjórn og bandamönnum hennar meðal súnníta í Arabalöndunum og Ísrael. Auðveldaði Trump að segja sig frá 2015-samningnum og grípa til refsiaðgerða að nýju. Í Íran hefur hagkerfið minnkað um 10% og atvinnuleysi er meira en 16%.

3. Klerkarnir hafa neyðst til að hækka olíuverð í Íran sem leitt hefur til fjöldamótmæla í landinu og aukinnar harðstjórnar.

4. Eftir að hafa búið um sig í Sýrlandi í skjóli Bashars al-Assads forseta og aðstoðað hann við að drepa 500.000 Sýrlendinga taldi „hersnillingurinn“ sér fært að beita Ísraela þrýstingi með því að láta strengjabrúðum sínum í Líbanon og Sýrlandi í té háþróaðar skotflaugar. Ísraelar eyddu þeim hins vegar öllum samstundis. Þeir höfðu svo nákvæmar upplýsingar um allt sem Suleiman og menn hans gerðu að settu þeir upp skotpalla klukkan 17.00 höfðu Ísraelar eytt þeim klukkan 17.30. „Væru frjálsir fjölmiðlar og raunverulegt þing í Íran hefði hann verið rekinn fyrir hrikalega óstjórn,“ segir Friedman.

5. Sagt er að Suleimani hafi haft forystu gegn Ríki íslams í Írak með þegjandi samþykki Bandaríkjanna. Þarna er því sleppt að með því að ganga alloft langt í ofríki gagnvart Írökum stuðlaði Suleimani að uppgangi Ríkis íslams. Það varð til sem svar við nauðung sem súnnítar voru beittir af Suleimani og handlöngurum hans.

6. Tilraunir Suleimanis til að gera Íran að herraríki í Mið-Austurlöndum hafa orðið til þess að margir ungir lýðræðissinnar – bæði súnnítar og shítar – í Líbanon, Sýrlandi og Írak hata Íran meira en nokkurt annað ríki í Mið-Austurlöndum. Strengjabrúður Íran-klerkanna eins og hezbollah í Líbanon og houthar í Jemen verða ríki í ríkinu og standa að spillingu og gegn öllum framförum sem kallar fram almenn mótmæli og örbirgð.

7. Ofríki Suleimanis sætti mikilli og vaxandi gagnrýni í Írak. Hann beitti sér fyrir mótmælum við bandaríska sendiráðið í Bagdad til að beina athygli frá eigin óvinsældum að Bandaríkjunum. Þetta var banabiti hans.

Friedman segist ekki vita hvort það hafi verið viturlegt að drepa Suleimani eða hvort það hafi langvinn áhrif. Tvennt sé viti hann þó. 1) Íranir búi við stjórnkerfi og stjórnarhætti sem sæmi ekki svo mikilhæfri þjóð. Frægð Suleimanis sé til marks um algjöra auðn innan Íransstjórnar og hvernig hún hafi kastað lífi tveggja kynslóða Írana á glæ með því að reyna að skapa sér virðingu á alröngum stöðum með alröngum aðferðum. 2) Slagorð verði hrópuð á götum úti í Íran en engar fréttir berist af þúsundum hljóðlátra samtala innan Írans um ömurleika eigin ríkisstjórnar og hve illa hún hafi farið með þjóðarauðinn og hæfileika Írana með því að stefna að herraríki og kalla þannig hatur yfir Íran í Mið-Austurlöndum.