16.9.2018 10:08

Þingmenn VG gegn öflugri heilbrigðisþjónustu

Að svo brotakennt frumvarp skuli flutt á alþingi til að lögleiða þessa afturhalds-hugsjón VG er staðfesting á hve vitlaust er að halda í þessa átt nú á tímum.

Óbreyttir þingmenn VG (þ. e. aðrir en ráðherrar og þingforseti) hafa breytt ályktun ungra VG í lagafrumvarp sem á að banna heilbrigðisþjónustu í hagnaðarskyni. Í greinargerð með frumvarpinu segir:

„Markmið þessa frumvarps er að tryggja að ákvæði um heimild ráðherra til að semja aðeins við veitendur heilbrigðisþjónustu sem ekki eru reknir í hagnaðarskyni sé skýrt.[...] Flutningsmenn telja ekki að nota eigi takmarkaða fjármuni ríkisins til að greiða arð út úr fyrirtækjum sem veita heilbrigðisþjónustu. [...] [Á] „markaði“ sem þessum er verulegur markaðsbrestur, þ.e. staða seljenda og kaupenda þjónustu er ójafn, seljendum í hag. Því má telja óeðlilegt að samningar um þjónustukaup byggist að þessu leyti á markaðslegum forsendum eins og væntum arði eða hagnaði söluaðilans. [...] Í frumvarpinu er það ekki gert að fortakslausri skyldu ráðherra að beita ákvæðinu, en ætla verður að með tíð og tíma yrði því beitt í ríkara mæli en þegar hefur verið gert enda tvímæli tekin af um heimild. [...] Jafnframt kann að vera að í upphafi geti verið varhugavert að gera að fortakslausri skyldu að setja inn slík ákvæði, enda kunna að koma upp þarfir vegna þjónustusamninga þar sem ekki er um aðra veitendur að ræða en þá sem reknir eru í hagnaðarskyni, og þörf fyrir þjónustu það brýn að ekki sé hægt að setja slík skilyrði.“

Eins og þessi tilvitnun í greinargerð með frumvarpinu sýnir er þar leitast við að fóta sig á lögleiðingu á sósíalísku hugmyndinni um að betra sé að ríkið reki biðlistastefnu í heilbrigðisþjónustu í stað þess að ráðast gegn henni með því að nota ekki skattfé almennings til að stytta listana og auka þjónustu við skattgreiðendur. Undir lok greinargerðarinnar birtist sú skoðun að þetta sé í raun ekki framkvæmanlegt í einu stökki heldur verði vonandi smátt og smátt unnt að bregða fjötrum ríkisrekstrar á alla þætti heilbrigðisþjónustunnar.

Neuven-solutions-doctors-nurses-tier-2Að svo brotakennt frumvarp skuli flutt á alþingi til að lögleiða þessa afturhalds-hugsjón VG er staðfesting á hve vitlaust er að halda í þessa átt nú á tímum. Alvarlegasti þáttur málsins er þó ekki frumvarpið sem aldrei verður að lögum heldur hitt að í því felast fyrirmæli óbreyttra þingmanna VG til núverandi heilbrigðisráðherra, flokksystur sinnar, Svandísar Svavarsdóttur, um að hafa þetta sem leiðarljós í deilu hennar við sérfræðilækna. Aðför VG að heilbrigðiskerfinu birtist í nýrri mynd í frumvarpinu.