18.8.2023 9:28

Þá hló Hillary

Trump notar gleði Hillary vafalaust til að ýta undir eigið píslarvætti. Í baráttunni 2016 var eitt af slagorðum hans: „Lock her up!“ ­– Lokið hana inni! 

Keppinautar Donalds Trumps í prófkjörum repúblíkana gagnrýna ekki ákærurnar fjórar gegn honum af ótta við reiði trumpista innan flokksins. Demókrötum er hins vegar ekki óljúft að repúblíkanar ráðist á saksóknara og dómara í þágu Trumps, það fæli óráðna kjósendur frá þeim.

Joe Biden minnist ekki á ákærurnar gegn Trump. Hann vill ekki verða sakaður um að ætla að slá sér upp á þessum vaxandi vandræðum andstæðings síns. Forsetinn vill að demókratar fylgi fordæmi sínu í þessu efni. Margir eiga erfitt með að hlýða þeim fyrirmælum.

IMG_7802-1-Hillary Clinton hló þegat hún heyrði um fjórðu ákæruna á hendur Trump 14. ágúst 2023.

Mánudagskvöldið 14. ágúst þegar fjórða Trump-ákæran var birt sat Hillary Clinton, mótframbjóðandi demókrata gegn Trump árið 2016, í beinu sjónvarpssamtali við Rachel Maddow hjá vinstrisinnuðu sjónvarpsstöðinni MSNBC. Þegar Maddow sagði frá ákærunni skellti Clinton upp úr og sagði þegar hún náði andanum: „Það er alltaf gott að tala við þig Rachel en ég hefði satt að segja ekki trúað að það yrði við þessar aðstæður. Enn ein ákæran,“ og hún ljómaði af gleði.

Trump notar gleði Hillary vafalaust til að ýta undir eigið píslarvætti. Í baráttunni 2016 var eitt af slagorðum hans: „Lock her up!“ ­– Lokið hana inni! Hann vildi fangelsa Hillary Clinton meðal annars fyrir meðferð á tölvubréfum til hennar sem utanríkisráðherra. Hún hefði vegið að öryggi ríkisins.

TELEMMGLPICT000346018925_16922972617750_trans_NvBQzQNjv4BqcUbKxZ1phgRAvAwQEcqawdtH4BRFgRmLJC2OYRs6sYU

Donald Trump krefst þess af Fox News að hætt verði að birta þessa mynd af sér – hún er kölluð „stóra appelsínan“.

Það þykir fréttnæmt um viðkvæmni Trumps að hann hefur krafist þess af Fox-sjónvarpsstöðinni að hún hætti að birta af honum mynd sem hann telur afskræma sig. Fox studdi Trump eindregið 2020 og þar tóku ýmsir undir lygar hans um kosningasvindl til að halda honum frá Hvíta húsinu. Kvörtunin yfir myndinni sýnir enn einu sinni að Trump nýtur ekki lengur velvildar stjórnenda stöðvarinnar.

Sé litið til almenns fjárstuðnings við kosningabaráttu Trumps má líkja ákærunum við himnasendingu. Í upphafi árs gekk fjáröflun hans treglega en það gjörbreyttist eftir að hann fór fyrir dómara í New York. Þegar hann lýsti sig saklausan 4. apríl af ásökunum klámstjörnunnar um að hann hefði greitt henni þöggunarfé safnaði hann 4 milljónum dollara á netsíðunni WinRed.

Málsvarnarlaun hundruð lögfræðinga Trumps eru hins vegar himinhá. Í einum sjóði hans, Save America PAC, voru 100 milljónir dollara í ársbyrjun 2022. Nú í lok júlí 2023 voru þar aðeins 3,6 milljónir. Lögfræðikostnaðurinn segir til sín.

Meginlínan er sú sama hjá öllum lögfræðingaskaranum að reyna að fresta réttarhöldum fram yfir kosningarnar í nóvember 2024. Þá segja þeir að Trump hafi ekki gerst sekur um lögbrot með því að hvetja til þess að kosningaúrslitin 2020 yrðu að engu höfð, hann hafi nýtt sér tjáningarfrelsið til að „verja þá pólitísku sannfæringu sína að kosningunum hefði verið stolið“.

Nú er gert ráð fyrir fimm réttarhöldum yfir Trump fram í maí 2024. Trump segir að alríkissaksóknarinn Jack Smith sé „klikkaður“ og blökkukonan Fani Willis í Georgíu sé „rasisti“ með tengsl við glæpagengi.

Slagur Trumps við réttarkerfið verður dýrkeyptur fyrir hann og erfiður bandarísku samfélagi. Vegna frekju og ófyrirleitni kallar hann fram illsku.