11.8.2020 9:41

Tækifærismennska vandlætarans

Hér er um hefðbundið stjórnarandstöðu glamur að ræða af hálfu flokks sem sjálfur hefur enga stefnu og velur sér aðeins eitt hlutskipti: að sitja á stól vandlætarans.

Tilraunum stjórnarandstöðunnar til að stjórnmálavæða COVID-19-faraldurinn er haldið áfram í Morgunblaðinu í dag (11. ágúst) en þar leyfir Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sér að láta eins og ríkisstjórnin hafi ekki mótað stefnu, hafi ekki greint hagræn áhrif, hafi ekki litið til lýðheilsu landsmanna, hún hafi enga yfirsýn yfir aðgerðir og skorti efnahagslegt mat. Í stuttu máli er engin þessara fullyrðinga rétt. Hér er um hefðbundið stjórnarandstöðu glamur að ræða af hálfu flokks sem sjálfur hefur enga stefnu og velur sér aðeins eitt hlutskipti: að sitja á stól vandlætarans.

Í þjóðhátíðarræðu sinni 17. júní 2020 sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra:

„Meðal annars vegna öflugs menntakerfis og heilbrigðiskerfis, öflugra vísindamanna og rannsókna höfum við náð þeim árangri sem náðist í baráttunni gegn veirunni.[...] Þær sóttvarnaráðstafanir sem við tókum öll þátt í voru ekki síst til að vernda þau sem síst máttu við að fá veiruna, aldraða og sjúka, auk allra þeirra sem þurftu að standa vaktina í framlínunni.“

Undir lok júní 2020 sendi fjármála- og efnahagsráðuneytið frá sér tilkynningu um að nær allar mótvægisaðgerðir vegna COVID-19-heimsfaraldursins væru komnar til framkvæmda. Eftir stæði greiðsla launa á uppsagnarfresti, en stefnt væri að því að fyrsti hluti kæmi til greiðslu fyrir 20. júlí, og stuðningslán en lögð væri lokahönd á umsóknargátt vegna lánanna. Þá liggur fyrir að þrátt fyrir faraldurinn er kaupmáttur hærri hér nú en nokkru sinni.

CoronavirusSkaðvaldurinn.

Nú standa stjórnvöld frammi fyrir ákvörðunum sem reistar eru á annars konar sóttvarnaráðgjöf en gefin var í upphafi þótt í grunninn sé kjarninn í veiruvörninni sá sami og áður – tveggja metra reglan og handþvottur.

Í öllum löndum velta stjórnvöld fyrir sér hvaða aðferð dugir best á þessu stigi faraldursins til að verjast veirunni. Í fyrstu var höfuðmarkmiðið hér að verja heilbrigðiskerfið, að framvarnarlínan brysti ekki samhliða því sem kúrfan yrði jöfnuð. Takmarkið náðist án lokunar landamæra.

Hér var leikskólum og grunnskólum aldrei lokað. Hart er tekist á um það í öðrum löndum hvernig eigi að opna þá þar eftir lokun. Hér vakna nú spurningar um framhaldsskólana – má opna þá? Eða háskóla? Hvað með íþróttakeppni og menningarviðburði? Vegur salt að leyfa þessa starfsemi og hafa landið áfram opið fyrir ferðamönnum? Enginn vill þó skella í lás.

Þess er krafist að stjórnmálamenn fari að ráðum sérfræðinga. Excel-skjal kemur ekki í stað pólitískra ákvarðana vegna veiru frekar en við val á dómurum. Stjórnmálamenn líta á landið allt. Uppgjör við þá fer fram í kosningum en ekki við töflu prófessora.

„Ég furða mig satt best að segja á því ef stjórnmálamenn ætla að notfæra sér faraldurinn og sóttvarnaraðgerðir okkar til pólitískrar tækifærismennsku. Það eru mörg dæmi í heiminum um stjórnmálamenn sem þykjast hafa öll svör um faraldurinn á reiðum höndum. Við erum ekki í þeim hópi,“ segir Katrín Jakobsdóttir réttilega í Morgunblaðinu í dag og svarar furðulegu forsíðuviðtali þess við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, formann Viðreisnar, í gær.