12.3.2022 11:43

Svisslendingar refsa Pútin

Að gera lítið úr eða jafnvel hæðast að framlagi Svisslendinga gegn Pútin og félögum hans vegna innrásarinnar og blóðbaðsins í Úkraínu er rangt.

Ágúst Andrésson, ræðismaður fyrir Rússa á Íslandi, sagði í Morgunblaðinu í 23. febrúar að sem herlaus þjóð ættu Íslendingar ekki að taka afstöðu í stríðsátökum á erlendri grundu. Við ættum að „vera í sömu stöðu og Sviss í því efni“. Að bera NATO-þjóð með varnarsamning við Bandaríkin saman við Sviss er firra.

Í leiðara Morgunblaðsins 11. mars stóð: „Sviss tekur lítinn þátt í refsiaðgerðum [...] Sviss tilkynnti þó að það hefði ákveðið að banna Rússum að fljúga inn í lofthelgi Sviss. Þetta var þó ekki ákveðið fyrr en öll ríki sem liggja að Sviss höfðu tekið slíka ákvörðun!“

Að gera lítið úr eða jafnvel hæðast að framlagi Svisslendinga gegn Pútin og félögum hans vegna innrásarinnar og blóðbaðsins í Úkraínu er rangt.

1f65feb4eeb39456bbbd77d8a362bf2f7bde7cf3ae264a4e9c10eddbc65c293a-628x431Myndin er frá Bern, höfuðborg Sviss,

Tilgangurinn með gálausu tali um Sviss er líklega að réttlæta að Íslendingar sitji hjá við refsiaðgerðir gegn Pútin. Látið er eins og atlaga að þjóðarhag hafi verið gerð með því að standa með ESB-þjóðum og Bandaríkjamönnum við töku ákvarðana um refsiaðgerðir eftir innlimun Krímskaga 2014. Í frásögninni er sleppt að Pútin tók einhliða ákvörðun um að loka á innflutning matvæla til Rússlands til að ýta undir sjálfsþurftarbúskap þar. Í stað þess að selja Rúsum hófu íslensk fyrirtæki að selja þeim fiskvinnslubúnað.

Að Svisslendingar hafi eftir dúk og disk og af sýndarmennsku lokað lofthelgi sinni fyrir Rússum gefur alls ekki rétta mynd af viðbrögðum svissneskra stjórnvalda. Stríðið í Úkraínu varð einfaldlega til þess að svissnesk stjórnvöld endurskilgreindu afstöðuna til fullveldis og þjóðaröryggis og tóku ýmsar ákvarðanir sem eiga sér ekkert fordæmi í sögu landsins.

Mánudaginn 28. febrúar tilkynnti Ignaszio Cassis, forseti Sviss, að tekin hefði verið „einstæð“ ákvörðun um að skipa sér við hlið þeirra sem refsuðu Rússum og innleiða svissneskar refsiaðgerðir.

Ákvörðunin varð til þess að svissneski stjórnmálamaðurinn Cristoph Blocher, stofnandi hægrisinnaða Svissneska þjóðarflokksins (SVP), hvatti 11. mars til þjóðaratkvæðagreiðslu til að verja hlutleysi Sviss. Ríkisstjórn landsins hefði ákveðið að ganga til liðs við ESB með refsiaðgerðum sem hann kallaði í anda Pútins „styrjaldarvopn“. Svisslendingar hefðu ákveðið að hefja stríð við Rússa.

Málflutningi Blochers er mótmælt með þeim orðum að hlutleysi felist ekki í að leggja spil í hendur árásaraðila.

Áhrif Blochers og flokks hans hafa verið gífurlega mikil í svissneskum stjórnmálum. Safna þarf 100.000 undirskriftum til að knýja fram þjóðaratvæðagreiðslu.

Svissneskir sérfræðingar í alþjóðalögum benda á að hlutleysi í hernaði snúi að beitingu hervalds. Aðild að efnahagslegum refsiaðgerðum raski ekki hlutleysi Sviss. Hlutleysi jafngildi ekki því að gera ekki neitt.

Svisslendingar stefna að því að stórefla hernaðarstyrk sinn meðal annars með kaupum á F35-orrustuþotum frá Bandaríkjunum.

Fyrir þá sem vilja ekki refsa Pútin er ekkert skjól í Sviss.