29.9.2020 10:49

SUS andmælir stjórnarskrár-rangfærslum

Tímalínan sýnir vandræðaganginn hjá Jóhönnu og félögum hennar við breytingar á stjórnarskránni á árunum 2009 til 2013 þegar „hreina vinstristjórnin“ sat við völd.

Samband ungra sjálfstæðismanna (SUS) hefur stofnað til umræðu um stjórnarskrármálið eins og sjá má á vefsíðunni . Þá ræddi Guðfinnur Sigurvinsson nýlega við Höllu Sigrúnu Mathiesen, formann SUS, um stjórnarskrármálið í þættinum Pólitíkinni á hlaðvarpi Sjálfstæðisflokksins en hlusta má á þáttinn hér .

Á SUS-vefsíðunni stjornarskra.com er birt tímalína með höfuðdráttum í sögu stjórnarskrármálsins frá 1. febrúar 2009 þegar Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon mynduðu minnihlutastjórn með stuðningi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, nýkjörnum formanni Framsóknarflokksins.

Þá stóð vilji Jóhönnu forsætisráðherra til þess að strax um vorið 2009 fyrir þingkosningar í apríl yrði tillaga hennar um að alþingi afsalaði sér stjórnarskrárvaldinu í hendur stjórnlagaþings samþykkt. Tók Framsóknarflokkurinn að sér formennsku í þingnefnd sem átti að leiða málið til lykta innan veggja alþingis á nokkrum vikum. Þingmönnum Sjálfstæðisflokksins tókst með málþófi að hindra að það óheillaverk yrði unnið.

Tímalínan sýnir vandræðaganginn hjá Jóhönnu og félögum hennar við breytingar á stjórnarskránni á árunum 2009 til 2013 þegar „hreina vinstristjórnin“ sat við völd.

30-minni-1-300x300Guðfinnur Sigurvinsson og Halla Sigrún Mathiesen í hlaðvarpi Sjálfstæðisflokksins.

Lög voru sett um stjórnlagaþing. Ekki var lengur gert ráð fyrir að alþingi framseldi vald sitt til þingsins heldur skyldi það verða ráðgefandi. Þá gekkst stjórnlaganefnd kjörin af alþingi fyrir þjóðfundi um stjórnarskrármálefni í Laugardalshöll 6. nóvember 2010.

Kosið var til stjórnlagaþings 27. nóvember 2010. Hæstiréttur úrskurðaði kosninguna ógilda 28. febrúar 2011. Þá samþykkti alþingi ályktun um skipun stjórnlagaráðs (15. mars 2011) og skyldi fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur þess áður en alþingi hæfi umfjöllun um tillögurnar.

Stjórnlagaráð, afhenti forseta alþingis, Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, frumvarp að nýrri stjórnarskrá í Iðnó 29. júlí 2011. Frumvarpið var samþykkt einróma með atkvæðum allra ráðsfulltrúa á síðasta fundi ráðsins, 27. júlí 2011

Ásta Ragnheiður lagði 24. ágúst 2011 tillögurnar fyrir alþingi í formi skýrslu frá forsætisnefnd þingsins án efnislegrar afstöðu til tillagnanna.

Eftir mikinn vandræðagang á alþingi fór ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um málið fram 20. október 2012. Kjörsókn var 48.9%. Á grundvelli hennar vann þingnefnd tillögur að frumvarpi að nýrri stjórnarskrá en sleppti þar meðal annars eina ákvæðinu sem meirihluti þátttakenda í atkvæðagreiðslunni vildi að yrði í stjórnarskrá, það er ákvæðinu um þjóðkirkju.

Frumvarp þingnefndarinnar komst aldrei nema til 2. umræðu. Eftir kosningar vorið 2013 mynduðu Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur ríkisstjórn. Stjórnarskrármálið tók því nýja stefnu og skal saga þess ekki frekar rakin að sinni.

Frá því að atkvæðagreiðslan fór fram í október 2012 hafa talsmenn Jóhönnusjónarmiðsins í stjórnarskrármálinu haldið því fram að stjórnvöld hafi „svikið“ þjóðina um stjórnarskrá sem samþykkt hafi verið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta er alrangt.

Að Samband ungra sjálfstæðismanna hafi hafið upplýsingaherferð til að vísa þessum rangfærslunum til föðurhúsanna er fagnaðarefni. Stjórnarskrárbreytingar sem unnar eru á fölskum forsendum ná aldrei fram að ganga.