23.11.2021 10:48

Stórþingið braut ekki stjórnarskrána

Norðmenn höfðu mikla hagsmuni af því að alþingi samþykkti þriðja orkupakkann til að hann tæki gildi með aðild allra þriggja EES/EFTA-ríkjanna. Deilur um málið í Noregi teygðu sig hingað.

Umræðurnar um þriðja orkupakkann urðu mjög heitar hér á landi vorið 2019 og þar til alþingi samþykkti hann í september 2019. Um var að ræða hluta lagabálks sem lýtur að sameiginlegum orkumarkaði innan Evrópusambandsins (ESB) og evrópska efnahagssvæðisins (EES). Lagasetningunni var ætlað að efla samkeppni, einkum yfir landamæri, á mörkuðum fyrir gas og raforku, og auka sjálfstæði eftirlitsstofnana á orkumarkaði. Þar er einnig fjallað um aðild að ACER, orkustofnun ESB/EES-svæðisins.

Norðmenn höfðu mikla hagsmuni af því að alþingi samþykkti þriðja orkupakkann til að hann tæki gildi með aðild allra þriggja EES/EFTA-ríkjanna. Deilur um málið í Noregi teygðu sig hingað og beittu norsku samtökin Nei til EU sér gegn samþykkt orkupakkans hér í von um að stöðva framgang hans eftir að meirihluti myndaðist um samþykkt hans á norska stórþinginu.

LV65K4ptyN96T_f9uhe9TANeSgAA_6qvEb5DzDL8hf0wFélagar í Nei til EU reyndu að hafa áhrif á dómara með mótælastöðu.

Þá fóru samtökin í mál við norska ríkið (utanríkisráðuneytið) til að fá samþykkt norska stórþingsins hnekkt sem stjórnarskrárbroti. Í undirrétti var málinu vísað frá en í mars 2021 sagði hæstiréttur Noregs að taka ætti málið til efnismeðferðar og féll dómur í því í Tingretten (héraðsdómi) í Osló mánudaginn 22. nóvember 2021. Dómararnir þrír voru einhuga um að sýkna norska ríkið, afgreiðsla stórþingsins hefði verið í samræmi við stjórnarskrána. Hér verða niðurstöður dómaranna reifaðar í lauslegri þýðingu.

Í niðurstöðum dómsins segir að það sé rétt mat að valdframsalið sem felst í samþykkt þriðja orkupakkans sé „lite inngripende“, það er feli í sér lítið inngrip. Það hafi því verið rétt af stórþinginu að samþykkja lögin um þriðja orkupakkann í samræmi við annan lið 26. gr. stjórnarskrárinnar, það er með einföldum meirihluta. Nei til EU vildi að farið yrði að 115. gr. norsku stjórnarskrárinnar þar sem krafist er að tveir þriðju þingmanna sitji þingfund og þrír fjórðu viðstaddra samþykki lög sem fela í sér framsal á dóms- eða löggjafarvaldi með alþjóðasamningi.

Í dóminum segir að framsalið vegna þriðja orkupakkans snúi að stjórnsýsluvaldi en ekki framsal á dóms- eða löggjafarvaldi. Framsalið sé á skilgreindu sviði innan regluverks EES-réttar. Norsk yfirvöld geti ákveðið umfang framsalsins sem í reynd snúi að ríkisfyrirtækinu Statnett.

Þá er bent á að evrópska samstarfið á orkumarkaði sé reist á gagnkvæmni og þar sé á öllum stigum tækifæri til jafnrétthárrar þátttöku. Norsk yfirvöld geti ótvírætt beitt áhrifum sínum gagnvart framkvæmdastjórn ESB og ACER. Þótt Norðmenn hafi ekki atkvæðisrétt innan ACER hafi þeir í raun mikinn áhrifamátt (n. stor påvirkningskraft) í ACER-samstarfinu. Norrænu ríkin hafi átt samstarf á orkumarkaði frá því snemma á tíunda áratugnum og evrópska orkumarkaðssamstarfið sé í stórum dráttum reist á norræna módelinu. Norska orkueftirlitsstofnunin RME (Reguleringsmyndigheten for energi) eigi fulltrúa í ýmsum starfshópum ACER og gæti norskra hagsmuna meðal annars þegar unnið sé að nýjum reglum. Þá eigi Statnett virka aðild að öllu sem snýr að evrópska orkuflutningskerfinu, ENTSO-E.

Þá skipti máli að valdframsalið sé innan „EFTA-stoðarinnar“. Bent er á að hæstiréttur Noregs hafi talið það „lítið inngrip“ að í fjórða járnbrautarpakkanum sé vald framselt beint til ESB-skrifstofu. Að því er orkupakkann varði benda dómararnir í Tingretten á að þar séu ákvarðanir teknar í gegnum ESA, það feli í sér íhlutunarminna valdframsal (n. mindre inngripende myndighetsoverføring).

Bent er á að Nei til EU segi að ACER-ESA-RME-módelið sé „by-pass“- skipan; ESA ljósriti ACER-ákvarðanir, það sé því í reynd ACER sem taki bindandi ákvarðanir gagnvart norskum fyrirtækjum.

Dómurinn segir að þessi staðhæfing standist ekki. EES-samningurinn sé þannig úr garði gerður að ESB-réttur eigi að endurspeglast hjá einstökum þjóðum í gegnum EFTA-stofnanir. Þótt Norðmenn séu skyldaðir til að samþykkja ákvarðanir sem séu samhljóða því sem er innan ESB sé í grundvallaratriðum „afgerandi munur á að vera herra yfir síðasta, úrslitaskrefinu sem er nauðsynlegt til að skapa nýjar skyldur fyrir borgara landsins og gera ekkert með þetta „tækifæri til eftirlits““, hér vitna dómararnir til álits stórþingsins nr. 100 (1991-92) bls. 337.

Þá er bent á að Nei til EU vilji að lagt sé heildarmat á hvaða samfélagsleg áhrif aðild að þriðja orkupakkanum hafi á orkumarkaðinn í Noregi, það er bæði framboð norskrar raforku og orkuverð.

Dómararnir segja að enginn vafi sé að orkumarkaðurinn sé einn af grunnþáttum nútímalegs norsks samfélags og hafi þar ómetanlega þýðingu. Miklir efnahagslegir og stjórnmálalegir hagsmunir tengist honum. Það sé þó ekki unnt að líta svo á að almenn samfélagsleg þýðing orkumarkaðarins eigi að ráða við mat á ákvæðum stjórnarskrárinnar. Það sem þar skipti máli sé raunveruleg samfélagsleg þýðing þess að ákveðið vald sé framselt.

Í því tilviki sem hér um ræðir telja dómararnir að raunveruleg samfélagsleg þýðing þess að ákveðið vald sé framselt sé lítil. Til marks um það megi til dæmis nefna að til þessa hafi ESA ekki tekið neinar ákvarðanir samkvæmt heimild í valdframsalinu.

Þá er bent á að Nei til EU segi að um sé að ræða svo mikið uppsafnað valdframsal að þegar til þess alls sé litið sé ekki unnt að tala um „lítið inngrip“.

Dómararnir segja af þessu tilefni að í fyrri orkupökkum hafi ekki verið um neitt valdframsal að ræða. Það sé því ekki unnt að tala um að neitt hafi safnast upp á þessu sviði með þriðja orkupakkanum.

Í lokaorðum segja dómararnir að sé litið á á málið í heild telji þeir að stórþingið hafi túlkað annað lið 26. gr. stjórnarskrárinnar rétt með því að telja „lítið inngrip“ felast því valdframsali sem hér um ræðir. Samþykktin með venjulegum meirihluta frá 22. mars 2018 hafi því ekki brotið gegn stjórnarskránni.