9.11.2021 10:18

Stjórnarsáttmáli á lokametrum

Á rúmum sex vikum eftir fjögurra ára stjórnarsamstarf ættu stjórnarflokkarnir, vilji þeir starfa áfram saman í fjögur ár, að geta komið sér saman um einföld og skýr markmið.

Fréttir berast um að unnið sé að ritun stjórnarsáttmála eftir um sex vikna viðræður flokksformannanna og textinn verði ekki langur. Í sjálfu sér er ekkert unnið við langan eða stuttan texta sé hann óskýr og til þess fallinn að breiða yfir ágreining í stað þess að benda á lausnir. Eftir fjögurra ára samstarf vita flokksformennirnir hvar skerst í odda. Verður fundin lausn á ágreiningsmálum eða þeim ýtt áfram á undan sér? Svarið fæst ekki fyrr en sáttmálinn sér dagsins ljós.

Á sínum tíma var haft eftir Ronald Reagan Bandaríkjaforseta að við lausn mála væri yfirleitt best að einfalda þau frekar en flækja. Þetta er góð regla.

09ambriefing-europe-nl-arts-articleLarge-v2Yuval Noah Harari

Í The New York Times er í dag rætt við ísraleska sagnfræðinginn, heimspekinginn og metsöluhöfundinn Yuval Noah Harari, höfund bókanna Sapiens, Homo Deus og 21 lærdómur fyrir 21. öldina. Hann er þeirrar skoðunar að krafturinn í mannlegum samfélögum ráðist einkum af getu mannskepnunnar til að trúa á það sem hann kallar hugsýn og rekja megi til sameiginlegra ímyndana okkar.

Það sé því mjög erfitt fyrir vísindamenn að færa hættuna af loftslagsbreytingum í þann búning að höfði til almennings. Hugarheimur okkar hafi ekki snúist um frásagnir af þessu tagi.

Á veiðimannsstiginu hafi okkur aldrei komið til hugar að við gætum breytt loftslaginu okkur í óhag, þetta viðfangsefni hefði því aldrei vakið áhuga okkar. Hugurinn hefði verið bundinn við að einhverjir innan ættbálksins kynnu að brugga okkur launráð og reyndu að drepa okkur.

Hann segir hins vegar óþarfa að örvænta því að finna megi lausn á loftslagsvandanum. Harari segir:

„Miðað við bestu skýrslur sem ég hef lesið ætti að nægja til að hindra hörmulegar afleiðingar vegna loftslagsbreytinga að ákveða strax að verja 2% af árlegri vergri framleiðslu heimsins til að þróa umhverfisvæna tækni og umhverfisvæna innviði.“

Harari segir að það ætti ekki að reynast meirihluta stjórnmálamanna ofviða að binda 2% vergrar landsframleiðslu á þennan hátt í fjárlögum. Þá sé þeim jafnframt auðvelt að skýra málið fyrir kjósendum sínum. Hann segir:

„Við verðum að forðast heimsslitakenningar um að allt sé orðið um seinan og heimurinn sé á heljarþröm og snúa okkur frekar að því sem er raunhæft: 2% af fjárlögunum. Þetta er ekki mjög mikilfenglegt, í því felst einmitt galdurinn. Það vekur von.“

Á rúmum sex vikum eftir fjögurra ára stjórnarsamstarf ættu stjórnarflokkarnir, vilji þeir starfa áfram saman í fjögur ár, að geta komið sér saman um einföld og skýr markmið, greina skýrt á milli þess sem sameinar þá í þágu sameiginlegra þjóðarhagsmuna og hins sem eru óhjákvæmileg ágreiningsefni vegna ólíkra stjórnmálaskoðana.

Sumt er einfaldlega ekki unnt að framkvæma af þriggja flokka stjórn. Hver flokkur verður að meta skaða sinn af því og vega hann á móti þeim hag sem hann telur af aðild að ríkisstjórn. Þannig er þetta og hefur verið við gerð stjórnarmáttmála. Þeim mun styttri og skýrari sem hann er því betra.