9.3.2018 10:57

Stjórnarandstaða í blekkingarvef lögmanns

Stjórnarandstaðan hefði átt að gefa sér meiri tíma til eigin rannsókna áður en hún festist í blekkingarvef Vilhjálms H. Vilhjálmssonar lögmanns.

Í umræðunum um tillögu Samfylkingarinnar og Pírata um vantraust á dómsmálaráðherra sem felld var á alþingi þriðjudaginn 6. mars (33:29) sagði Jón Þór Ólafsson (P) að dómsmálaráðherra væri „búin að klessukeyra“ landsrétt „að því leytinu til að það verður réttaróvissa um hann næstu árin. Það verður kært til Mannréttindadómstóls Evrópu. Þó að Hæstiréttur segi að dómararnir séu ekki vanhæfir verður þetta kært til Mannréttindadómstóls Evrópu. Það er einhver sem mun gera það. Það verður gert.“

Þarna er talað af mikilli vissu um eitthvað sem þingmaðurinn fullyrðir að gerist í framtíðinni. Jón Þór upplýsir ekki hver hafi sannfært hann um þá framvindu sem hann segir að verði. Líklega hefur það verið Vilhjálmur H. Vilhjálmsson lögmaður sem krafðist þess að einn dómara í landsrétti viki sæti vegna þess að hann hefði ekki verið að finna í tillögu dómnefndar um 15 landsréttardómara. Vegna þessa skorti dómarann hæfi til að dæma í landsrétti.

Landsréttur hafnaði þessu sjónarmiði lögmannsins sem kærði niðurstöðuna til hæstaréttar sem vísaði henni frá fimmtudaginn 8. mars enda væri kæran ekki studd lagarökum. Í dómi hæstaréttar segir:

 „... [S]núa röksemdir varnaraðila [Vilhjálms H.] í hvívetna að því að ekki hafi verið farið að lögum við skipun þessa dómara. Jafnvel þótt á það yrði fallist gæti það .... aldrei orðið til þess að krafa varnaraðila yrði tekin til greina. Hefur hann því í málatilbúnaði sínum klætt það álitaefni, sem hann í raun leitar úrlausnar um, ranglega í búning kröfu um að dómarinn víki sæti í málinu. Úrskurður Landsréttar 22. febrúar 2018 snýr þannig ekki að réttu lagi að ágreiningi um það efni og getur hann af þeim sökum ekki átt undir kæruheimild til Hæstaréttar samkvæmt b. lið 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008. Máli þessu verður því án kröfu vísað frá Hæstarétti.“

Fimm dómarar hæstaréttar: Þorgeir Örlygsson, Karl Axelsson, Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson felldu þennan dóm. Hann er áfellisdómur yfir málatilbúnaði Vilhjálms H. Vilhjálmssonar sem „klætt hafi“ álitaefni „ranglega í búning kröfu um að dómarinn víki sæti í málinu“. Hann hafi með öðrum orðum beitt blekkingum.

Þótt dómararnir hafi ekki látið blekkjast á það ekki við um Jón Þór Ólafsson (P) eða Loga Einarsson (Sf) sem talaði í vantraustsræðu sinni um „óvissu um heilt dómstig“ og „vandræðagang dómstóla“. Helga Vala Helgadóttir (Sf), formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar alþingis, sagði í þessum sömu umræðum „að fjöldi dómsmála vegna embættisfærslna“ dómsmálaráðherra liðaðist „um allt hið íslenska réttarkerfi, öll dómstigin; héraðsdóm, Landsrétt og Hæstarétt“ þess mætti vænta að málin færu til mannréttindadómstólsins í Strassborg enda snerist „málið fyrst og fremst um sjálfstæði dómstóla samanber stjórnarskrá og samanber 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu“.

Fyrir utan þessa meginmálsástæðu stuðningsmanna vantraustsins hömruðu þeir mjög á því að dómsmálaráðherra hefði hundsað ráð embættismanna og annarra um að hún yrði að gefa sér meiri tíma til rannsókna vegna tillögusmíði um einstaklinga í landsrétt. Ráðherra er ekki skylt að fara að slíkum ráðum þótt af góðum huga séu gefin. Stjórnarandstöðunni er ekki heldur skylt að fara að þeim ráðum sem henni eru gefin. Hún hefði átt að gefa sér meiri tíma til eigin rannsókna áður en hún festist í blekkingarvef Vilhjálms H. Vilhjálmssonar.