19.2.2024 9:42

Stilla Kristrúnu upp við vegg

Flokksandstæðingar Samfylkingarinnar vega ekki að formanni flokksins heldur þeir sem telja sig gæta samvisku flokksins sem boða að ekki sé að marka orð Kristrúnar um stefnubreytingu í útlendingamálum.

Eftir að Kristrún Frostadóttir kúventi stefnu Samfylkingarinnar í útlendingamálum í hlaðvarpsspjallinu Einni pælingu 10. febrúar og stefnubreytingin komst í hámæli fyrir tæpri viku hafa stórlaxar Samfylkingarinnar birst hver af öðrum til að útþynna orð hennar í von um að geta ruglað svo umræðurnar að splundri ekki flokknum.

Hin hlið málsins er að þeir sem helst gagnrýna stjórnvöld fyrir aðgerðarleysi í útlendingamálum á samfélagsmiðlum telja Kristrúnu hafa gengið í lið með sér. Undarlegt er þó að sjá þá taka undir orð sem Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, lét falla á Facebook-síðu sinni 18. febrúar þegar hann sagðist allsendis „ósammála glöggum prófessor og skarpasta álitsgjafa miðlanna“, það er Eiríki Bergmann, þegar hann sagði Kristrúnu hafa boðað stefnubreytingu Samfylkingarinnar.

Eiríkur svaraði Össuri í athugasemd og sagði stefnubreytinguna augljósa. „Formaður Samfylkingar lýsir nú skilningi á stefnu sem fyrri formaður Samfylkingar fordæmdi. Það er stefnubreyting...“ sagði Eiríkur.

Í kvöldfréttum sjónvarps ríkisins 18. febrúar var Ólafur Þ. Harðarson, fyrrv. prófessor í stjórnmálafræði, kallaður á vettvang. Hann sagði: „Vitlegast að hinkra aðeins og sjá hvaða stefna kemur úr þessu.“ Kristrún hefði enn ekki lagt fram neinar tillögur um breytingar.

Þá væri athyglisvert að hvorki Guðmundur Árni Stefánsson, varaformaður flokksins, né tveir fyrrv. formenn, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Össur Skarphéðinsson, teldu um stefnubreytingu að ræða. Þetta snerist um að gagnrýna ríkisstjórnina og segja að núverandi útlendingakerfi væri á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og afleiðing hennar stefnu. Að mati Ólafs Þ. þyrfti „ekki að koma neinum á óvart“ að stjórnarandstaðan gerði það.

Screenshot-2024-02-19-at-09.41.41

Auðvitað er það rétt hjá Ólafi Þ. Harðarsyni að gagnrýni stjórnarandstöðu á ríkisstjórn kemur engum á óvart. Tilraunir hans, Guðmundar Árna, Össurar og Ingibjargar Sólrúnar til að breiða þennan plástur yfir orð Kristrúnar í von um að græða sár innan Samfylkingarinnar vegna stefnubreytingarinnar eru dæmdar til að mistakast nema Kristrún hætti að hlusta á fólkið í landinu, sem hún segist gera, og ákveði frekar að hlusta á gömlu valdamenn í flokknum og láta sem hún hafi bara verið að leika sér að orðum til að valda ríkisstjórninni óþægindum.

Össur Skarphéðinsson hefur verið óspar á lofsyrðin um Kristrúnu Frostadóttur. Hann kallaði hana „óslípaðan demant“ í viðtali við Morgunblaðið fyrr í vetur og 18. febrúar segir hann á FB að fólk upplifi Kristrúnu „einfaldlega sem ekta metal“. Hún sé kannski eini stjórnmálaleiðtoginn sem sé harla ólíkleg til að víkja frá sannfæringu sinni til að veiða atkvæði.

Nú hafa mál skipast þannig að það eru ekki flokksandstæðingar Samfylkingarinnar sem vega að formanni flokksins heldur þeir sem telja sig gæta samvisku flokksins sem boða að ekki sé að marka orð Kristrúnar um stefnubreytingu í útlendingamálum.

Málið snýst nú um úr hverju „ekta metallinn“ er, bráðnar hann við stofuhitann í heimahúsinu.