16.5.2022 10:11

Staða Sjálfstæðisflokksins

„Hann er sem fyrr langstærsti flokkurinn með langflesta sveitarstjórnarfulltrúa, alls 110 talsins, og er stærsti flokkurinn í 21 sveitarfélagi, víða langstærstur.“

Í Morgunblaðinu í dag (16. maí) er birt ítarlegt yfirlit yfir úrslitin í sveitarstjórnarkosningunum laugardaginn 14. maí. Þar er að finna lýsingu á breytingum sem urðu skýringar á ástæðum þeirra, sem almennt eru staðbundnar. Óánægja þeirra sem tapa í prófkjörum verður stundum til þess að þeir snúast til andstöðu við sinn fyrri flokk. Sé þátttaka í prófkjörum aðeins til að þjóna eigin lund frambjóðenda eru þau til skaðræðis en ekki styrks.

Framsóknarmenn náðu bestum árangri. Þar voru frambjóðendur handvaldir og náðu til dæmis í Reykjavík og Mosfellsbæ fylgi flokksins úr núlli í hæstu hæðir. Hvað má af þessu læra?

Innan stjórnar Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, var hver höndin upp á móti annarri þegar rætt var um aðferð við val á frambjóðendum: fyrst var talað um leiðtogaprófkjör, síðan prófkjör með tveggja vikna þröskuldi gagnvart kjósendum og loks, seint og um síðir, var ákveðið að efna til hefðbundins prófkjörs. Auðveldaði þetta frambjóðendunum eftirleikinn?

Hildur Björnsdóttir leiddi lista sjálfstæðismanna í Reykjavík af skörungsskap og lét aldrei deigan síga. Hún segir eftir kosningar að landsmálin hafi þvælst fyrir. Vissulega blésu þingmenn Pírata, Samfylkingar og Viðreisnar til popúlískrar sóknar gegn Sjálfstæðisflokknum, sérstaklega formanni hans, þegar þing sat frá páskum fram að kosningaþinghléi. Þingstörf voru í hers höndum og blásið til áróðursfunda á Austurvelli.

IMG_4905Af orðum Hildar má ráða að hún hafi greint bylgju frá þessu upphlaupi í kosningabaráttunni. Bylgjan hafði þó minni áhrif en fréttamenn og þáttastjórnendur andvígir sjálfstæðismönnum vildu. Í úttekt á kosningunum í dag í Morgunblaðinu segir Andrés Magnússon:

„Sjálfstæðisflokkurinn bauð fram í 35 sveitarfélögum í landinu, en alls var kosið í listakosningu í 51 sveitarfélagi. Hann er sem fyrr langstærsti flokkurinn með langflesta sveitarstjórnarfulltrúa, alls 110 talsins, og er stærsti flokkurinn í 21 sveitarfélagi, víða langstærstur. Sé litið til fylgis hans getur flokkurinn einnig vel við unað, en meðalfylgið er 36,6% atkvæða, sem er u.þ.b. viðmiðunarfylgi flokksins fyrir bankahrun.“

Eftir að Sjálfstæðisflokkurinn fékk hörmulega útreið í skoðanakönnun sem birtist á forsíðu Fréttablaðsins skrifaði Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, vinstrisinnaðrar vefsíðu, fréttaskýringu 11. maí þar sem hann spáði pólitískum jarðskjálfta 14. maí. Sjálfstæðisflokkurinn mundi tapa „feikilega“ sterkri stöðu sinni í sveitarstjórnum sem birtist í 117 sveitarstjórnarfulltrúum hans. Sé þessi skoðun ritstjórans borin saman við niðurstöðuna sést að hann lét stjórnast af eigin óskhyggju. Sjálfstæðisflokkurinn heldur enn „feikilega“ sterkri stöðu í sveitarstjórnum.

Tveir samstarfsflokkar Dags B. Eggertssonar í borgarstjórn Reykjavíkur fengu, fyrir utan hans eigin flokk, dapurlega útreið í kosningunum. VG varð næstum að engu og ætlar að halda sig frá Degi B. á þessu kjörtímabili. Viðreisn tapaði öðrum fulltrúa sínum en sá sem eftir situr bindur trúss sitt enn við Dag B. og pírata. Popúlísku böndin sem urðu til fyrir kosningar tengja þessa flokka enn.