14.9.2021 10:37

Sósíalistar og fylkishugmyndin

Hér skal engu spáð um samstarf Gunnar Smára og norskra Rauðra en innan beggja flokka eru nú forystumenn sem þekkja fylkishugmyndina.

Vinstri blokkinn fékk meirihluta á norska stórþinginu í kosningunum í gær (13. september) eins og spáð hafði verið. Johan Gahr Støre, leiðtogi Verkamannaflokksins, getur myndað þriggja flokka stjórn með Miðflokknum og Sósíalískum vinstrimönnum. Hann á erfiðar viðræður fyrir höndum en það auðveldar honum stjórnarmyndunina að þurfa ekki að sækja stuðning til Rauðra (Rødt) sem eru lengst til vinstri.

Meðal þeirra sem setjast á stórþingið fyrir Rauða er Mímir Kristjánsson sem náði kjöri í Rogaland-kjördæmi. Hann er fæddur 1986 í Stavangri, faðir hans er íslenskur og móðirin norsk. Hann hefur starfað sem blaðamaður á Klassekampen samhliða virkri stjórnmálaþátttöku. Hann hefur verið oddviti Rauðra í bæjarstjórn Stavangurs frá 2019. Mímir hefur sent frá sér nokkrar bækur, meðal annars um íslensk þjóðmál og flutning Íslendinga til Noregs. Af því tilefni var rætt við hann í Morgunblaðinu 15. ágúst 2014.

680e6675-b944-43f4-bcb0-1978bcb4ca89Mímir Kristjánsson fagnar sigri á lista Rauðra í Rogalandi í norsku stórþingskosningunum.

Þar segist hann nýlega hafa „uppgötvað“ Fylkisflokkinn sem Gunnar Smári Egilsson, núverandi leiðtogi Sósíalistaflokks Íslands stofnaði. Mímir segist ekki vita hve alvarlega eigi að taka þann flokk. Sumir Norðmenn hafi það „á tilfinningunni að Íslendingar séu norskri en þeir að mörgu leyti því Norðmenn hafi glatað hluta af tungumálinu og menningunni.“

Íslendingar séu vinsælir í Noregi „þótt þeir séu margir“. Annað eigi við um Svía, flytjist þeir til Noregs í leit að vinnu myndist „svolítil ókyrrð í landinu“. Það eigi ekki við um Íslendinga sem þyki harðduglegir.

Mímir telur að yrðu Norðmenn spurðir hvort Íslendingar mættu ganga í ríkið, myndu þeir segja já. Það setji Íslendinga í algjöra sérstöðu, því almenningur í Noregi myndi sennilega ekki samþykkja neitt annað ríki en Ísland.

Eftir að þessi orð féllu fyrir sjö árum hefur Gunnar Smári Egilsson sagt opinberlega skilið við hugmyndina um Ísland sem fylki í Noregi og þess í stað aðhyllist hann alþjóðahyggju undir merkjum sósíalismans. Nú á hann þar samleið við Rauðum í Noregi.

Hér skal engu spáð um samstarf Gunnar Smára og norskra Rauðra en innan beggja flokka eru nú forystumenn sem þekkja fylkishugmyndina og Mímir telur að Norðmenn myndu samþykkja hana yrði hún lögð fyrir þá í atkvæðagreiðslu.

Ef til vill eru Rauðir almennt talsmenn þjóðaratkvæðagreiðslna. Fulltrúar smáflokka og sérsjónarmiða hér á landi ræða nú meira um gildi slíkra atkvæðagreiðslna en áður.

Guðmundur Franklín Jónsson, formaður Frjálslynda lýðræðisflokksins, birtist sem eindreginn talsmaður þjóðaratkvæðagreiðslna í viðtali við ríkissjónvarpsmenn mánudaginn 13. september. Hlypi hann ekki í það skjól að taka undir með spurningum fréttamannanna, yppti hann öxlum og sagðist vera alveg skoðanalaus um mál, hann vildi bara að þjóðin afgreiddi þau í þjóðaratkvæðagreiðslu!

Þetta er auðvitað aðferð út af fyrir sig. Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, birti til dæmis langa úttekt til að hefja úrslit skoðanakannana í búningi þjóðaratkvæðagreiðslna til vegs og virðingar. Afskræming á þessari aðferð er engum til gagns og vinnur í raun gegn því að hún sé talin marktæk.