29.8.2023 10:20

Snúist til varnar

Ole Anton Bieldvedt og Arnór Þór Jónsson víkja úr ólíkum áttum að pistlum sem hér hafa birst í mánuðinum - er við að því í dag.

Ole Anton Bieldvedt (OAB) skrifar grein í Morgunblaðið vegna pistils undir fyrirsögninni Pólitískar lygar sem birtist hér 4. ágúst. Arnar Þór Jónsson (AÞJ) skrifar blogg vegna þess sem birtist hér í gær undir fyrirsögninni Fullveldi á flokksráðsfundi. Hér verður stuttlega vikið að báðum greinunum:

OAB

Furðulegast við grein OAB er að hann skuli telja mig gera lítið úr eldri borgurum með því að segja hann og annan greinarhöfund „eldri borgara“. Ekkert var fjær mér en að gera það enda er ég sjálfur í hópi eldri borgara og tek aldrei nærri mér þótt vakið sé máls á því. Hvers vegna í ósköpunum ætti ég að gera það? Er ekki þakkarvert og mikils virði að vera svo vel á sig kominn á efri árum að geta miðlað einhverju til lesenda Morgunblaðsins? Ég geri ekki lítið úr því á nokkurn hátt.

OAB er óþreytandi að mæla með aðild Íslands að ESB enda fái Íslendingar undanþágu vegna alls þess sem þeir telji sér óþægilegt. Ég er honum ósammála um þetta og tel að misheppnaða aðildarbröltið 2009 til 2013 staðfesti það. ESB-umsóknarríkjum eru sett margvísleg skilyrði eins og íslensk stjórnvöld kynntust 2009-2013. ESB-menn skutu loku fyrir frekari viðræður strax 2011 með kröfu í sjávarútvegsmálum. Einstök ESB-ríki geta nú beitt neitunarvaldi sé ekki farið að kröfum þeirra o. s. frv. Staðan er allt önnur en OAB lýsir.

Screenshot-2023-08-29-at-10.18.00

Hann spyr hvort ég hafi ekki verið á landsfundi Sjálfstæðisflokksins 2009 þegar hafnað var að stefna að aðild að ESB nema ósk um umsókn yrði samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Jú, ég var á fundinum og muni ég rétt fluttum við Friðrik Sophusson málamiðlunartillöguna sem varð niðurstaðan.

AÞJ

Í bloggi sínu staðfestir AÞJ að frásögnina hér í gær á framgöngu hans á flokksráðsfundinum 26. ágúst.

Hann segir umræður í EES-hópi hafi borið með sér „yfirbragð lýðræðislegrar umræðu, sem þó var í framkvæmd stranglega stjórnað og séð til þess að ekkert kæmist í gegn sem ekki var fundarstjóra umræðuhópsins og hans fólki þóknanlegt“. Þetta hafi með öðrum orðum ráðið því að tillaga hans var kolfelld í hópnum.

Þá telur hann skipulag fundarins í heild hafa verið sér mjög öndvert, hann hafi þurft að fara í „röð“ til að geta „ávarpað flokksforystuna“ sem hann gerði ekki. „Las“ hann „salinn þannig að menn vildu flýta sér í auglýstan kokteil eða heim“ auk þess sem „þrír áreiðanlegir menn“ hefðu „kælt“ sig niður með því að tjá honum að „frumvarpið um bókun 35 yrði ekki lagt fram að nýju í haust“. Hann hefði þá ákveðið að láta kyrrt liggja og telja sig hafa unnið „ákveðinn varnarsigur“ með málamiðlun um að í stjórnmálaályktun fundarins yrði sett setningin: „Sjálfstæðisflokkurinn mun standa vörð um fullveldi Íslands.“

Í leiðara Morgunblaðsins í dag segir að framgöngu Arnars Þórs á fundinum megi skýra með því að hann hafi viljað sýna Þordísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, varaformanni flokksins og utanríkisráðherra sérstaka tillitsemi. AÞJ víkur hvergi að því í frásögn sinni.