27.10.2021 9:28

Skýrar norrænar áherslur

Alls telja 86% norrænt samstarf mikilvægt eða mjög mikilvægt árið 2017 voru 92% þessarar skoðunar. Meirihlutinn, 60%, vill enn efla samstarfið.


Dagana 1. til 4. nóvember verður 73. þing Norðurlandaráðs haldið í Kristjánsborgarhöll í Kaupmannahöfn. Það sækja meðal annars tveir formenn stjórnmálaflokka héðan, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Norðurlanda. Þess vegna fyrst tilkynnt um nýtt ráðuneyti undir lok næstu viku.

Fyrir fjórum árum urðu þáttaskil í stjórnmálasögunni með myndun ríkisstjórnar með þátttöku VG og Sjálfstæðisflokksins. Framsóknarflokkurinn var þá í sárum en ekki lengur og vill gera sig meira gildandi.

Flokksformennirnir vita vel eftir fjögurra ára samstarf hvar skilin liggja málefnalega milli flokkanna. Úr sumu verður ekki leyst og því látið liggja annað knýr á um lausnir eins og framkvæmd fyrirheita í loftslagsmálum sem krefst þess að meira sé virkjað af endurnýjanlegri orku og stuðlað sé að nýtingu jarðvegs og gróðurs til að binda kolefni. Hvoru tveggja rekst á við margt af því sem VG krefst í landverndar- og friðlýsingarmálum. Þar verður ekki bæði haldið og sleppt.

Shutterstock_1009158886Loftmynd af Kristjánsborgarhöll í Kaupmannahöfn,

Skrifstofa Norðurlandsráðs birti mánudaginn 25. október niðurstöðu könnunar sem ráðið og norræna ráðherranefndin lét gera meðal norræns almennings á viðhorfi til norræns samstarfs, í maí og júní 2021 með þátttöku 3.400 manns á öllum Norðurlöndunum. Síðast var sambærileg könnun gerð árið 2017.

Alls telja 86% norrænt samstarf mikilvægt eða mjög mikilvægt árið 2017 voru 92% þessarar skoðunar. Meirihlutinn, 60%, vill enn efla samstarfið.

Þegar spurt var hvert væri mikilvægasta pólitíska samstarfsmálefnið á Norðurlöndum töldu flestir að það væri barátta gegn glæpum þvert á landamæri. Þar á eftir komu umhverfis- og loftslagsmál, varnar- og öryggismál og hættustjórnun (til dæmis í covid-19 faraldrinum). Það síðastnefnda er nýtt í könnun þessa árs. Hin samstarfssviðin þrjú voru einnig í efstu sætunum í fyrri könnunum.

Í þessum niðurstöðum felst mikilvæg ábending til norrænna stjórnmálamanna. Augljóst er að óttinn við alþjóðlega glæpastarfsemi án virðingar fyrir landamærum, enda er þau öll opin milli Norðurlandanna, kallar á harðari sameiginleg viðbrögð lögregluliða og endurskipulagningu norrænnar samvinnu í löggæslumálum.

Í loftslagsmálum geta Norðurlandaþjóðirnar lagt verulega mikið af mörkum samhæfi þær krafta sína og bjóði í ljósi eigin þekkingar og reynslu lausnir reistar á endurnýjanlegum orkugjöfum. Tillögur liggja fyrir um þetta og ættu íslenskir ráðherrar og þingmenn að knýja á um framkvæmd þeirra.

Það er tímanna tákn að Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, er gestaræðumaður á Norðurlandaráðsþinginu núna. Það staðfestir aðeins enn frekar að litið er á varnarsamstarf Norðurlandanna, NORDEFCO, sem nátengt NATO-samstarfinu.

Öll ætti þau málefni sem þarna eru nefnd að bera hátt í sáttmála nýrrar ríkisstjórnar hér.