31.1.2021 11:36

Skotgöt og „áhættuvísar“

Beiting skotvopna gegn eignum stjórnmálaflokka eða stjórnmálamanna er allt annars konar „áhættuvísir“ en hatursorðræða og krefst sérstakra aðgerða.

Í Morgunblaðinu birtist föstudaginn 29. janúar viðtal við Tryggva Hjaltason í Vestmannaeyjum sem sagði meðal annars:

„Ég skráði mig Bsc-nám í Global Security and Intelligence Studies við Embry Riddle-háskóla í eyðimörkinni í Arizona. Bandaríkjamenn voru á þessum tíma staddir á hápunktinum í stríðinu gegn hryðjuverkum og þá vantaði leyniþjónustufólk, það er einstaklinga sem gátu greint flóknar upplýsingar, séð mynstur, lesið fólk og greint hvar þau tuttugu prósent leynast sem munu hreyfa áttatíu prósentin. [...] Þetta var grunnurinn að þekkingu sem sem ég fékk síðan að reyna meira á þegar ég stýrði yfirheyrslum hjá Embætti sérstaks saksóknara nokkrum árum seinna í kjölfar efnahagshrunsins og sá þá í framkvæmd hversu áreiðanlegt margt af þessu reyndist hjá honum.“

Kvíðvænlegar fréttir leggjast á skömmum tíma þungt á samfélag okkar. Nú um þessar mundir snerta þær eignatjón með skotvopni eða vopnum sem unnið er á húsnæði stjórnmálaflokka og bifreið borgarstjórans í Reykjavík. Tveir menn eru með réttarstöðu sakbornings í tengslum við rannsókn lögreglu vegna árásarinnar á bíl borgarstjóra. Öðrum var sleppt að lokinni yfirheyrslu en hinn, karlmaður á sextugsaldri, hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til mánudags 1. febrúar. Óljóst er hvað býr að baki skemmdarverkinu.

Gallery_xlargeBandaríkjamenn og sérstaklega bandarískir stjórnmálamenn fylltust skelfingu þegat ofbeldismenn ruddust inn í þinghús Bandaríkjanna. Gripið var til mikilla gagnaðgerða. Hvað vilja stjórnmálamenn að hér sé gert vegna þess að tjón er unnið á eigum flokka og stjórnmálamanna með skotvopnum?

Greiningardeild ríkislögreglustjóra birti 28. janúar 2021 skýrslu um hættumat vegna hryðjuverkaógnar þar sem niðurstaðan er þessi:

„Almennt eru taldar litlar líkur á að hryðjuverk verði framið á Íslandi. Niðurstaða skýrslunnar er sú að hættustig sé óbreytt; í meðallagi. Meðal þess sem hefur áhrif á mat á hættustigi, eru takmarkaðar hryðjuverkavarnir hér á landi.

Ísland er friðsælasta land í heimi skv. Global Peace Index og hefur verið það í mörg ár. Í þeirri staðreynd eru fólgin margvísleg verðmæti fyrir íslenskt samfélag. Flesta þá áhættuvísa sem til staðar eru í nágrannalöndum okkar, er ekki að finna hér á landi.“

Þarna má lesa að takmarkaðar hryðjuverkavarnir hér setji mark sitt á mat á hættustigi. Íslenska lögreglan hefur ekki sömu heimildir og löggæslustofnanir erlendis til að safna upplýsingum vegna þessa mats. Í lokasetningunni er getið um „áhættuvísa“.

Nú er upplýst að miðlæg deild lögreglunnar rannsaki hvort skemmdarverk árin 2019 og 20 á húsnæði fjögurra stjórnmálaflokka tengist. Nýlega var skotið á skrifstofu Samfylkingarinnar. Skotið hefur verið á jarðhæð Valhallar, húss Sjálfstæðisflokksins, einnig á skrifstofu Pírata. Kúlnagöt voru líka á gluggum skrifstofu Viðreisnar 2019 og fyrri hluta árs 2020. Hvers vegna hefur þetta ekki verið rannsakað til hlítar fyrr? Var þetta fyrst kært til lögreglu núna?

Ríkislögreglustjóri fundar á næstu dögum með forráðamönnum stjórnmálaflokkanna um þessi mál. Það er gott að vara við hatursorðræðu og vilja stemma stigu við henni. Beiting skotvopna gegn eignum stjórnmálaflokka eða stjórnmálamanna er allt annars konar „áhættuvísir“ en hatursorðræða og krefst sérstakra aðgerða.