28.2.2023 10:21

Skerpt á þjóðaröryggisstefnu

Til að íslensk stefna í öryggismálum sé trúverðug gagnvart öðrum þjóðum verður hún að endurspegla skuldbindingar sem stjórnvöld landsins hafa samþykkt undanfarna mánuði. 

Síðari umræða um þingsályktunartillögur forsætisráðherra um endurskoðun þjóðaröryggisstefnu Íslands fór fram á alþingi í gær og stóð hún frá klukkan 16.40 til 20.14. Útskrift á ræðum er enn óbirt en á ruv.is er stuttlega sagt frá umræðunum.

Nefndarmenn allra flokka í utanríkismálanefnd þingsins sameinuðust um álit á tillögunni og orðalagsbreytingar. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, ritaði undir álit nefndarinnar með fyrirvara.

Eins og fram kemur í áliti nefndarinnar var ég kallaður á fund hennar. Þar lýsti ég yfir undrun yfir því að í tillögu forsætisráðherra skyldi hvergi minnst á neitt sem vísaði til hervarna. Breytingartillaga nefndarinnar fólst í því að bæta ská- og feitletruðu orðunum tveimur inn í upphafsorð ályktunarinnar:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að fylgja eftirfarandi stefnu um þjóðaröryggi sem tryggi sjálfstæði, fullveldi, lýðræðislegt stjórnarfar og friðhelgi landamæra Íslands, öryggi borgaranna, varnir landsins og vernd stjórnkerfis og mikilvægra innviða samfélagsins.“

Segir í áliti nefndarinnar að þessi breyting kallist „á við 3.–6. tölul. þjóðaröryggisstefnunnar sem taka til aðildar að Atlantshafsbandalaginu, varnarsamnings við Bandaríkin, norræns samstarfs á sviði öryggis- og varnarmála, og varnarmannvirkja.“ Nefndin leggi áherslu á grunnstefnu Atlantshafsbandalagsins í þessu sambandi.

Þessi árétting á nauðsyn hervarna til að tryggja öryggi landsins er góðra gjalda verð. Miðað við þær ráðstafanir sem nágrannaþjóðir okkar hafa gert og ætla að gera til að efla eigin varnir í ljósi stríðsins í Úkraínu er þetta þó lítið skref við endurskoðun íslenskrar þjóðaröryggisstefnu á fyrsta stríðstíma í Evrópu í 80 ár.

Forsida_-_skarpari_.width-720_1677579676120

Til að íslensk stefna í öryggismálum sé trúverðug gagnvart öðrum þjóðum verður hún að endurspegla skuldbindingar sem stjórnvöld landsins hafa samþykkt undanfarna mánuði. Þar má til dæmis nefna þrjú skjöl sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur undirritað á innan við einu ári: Grunnstefnu NATO í júní 2022, yfirlýsingu forsætisráðherra Norðurlandanna í ágúst 2022 og yfirlýsingu svonefndra JEF-ríkja í desember 2022. Í öllum þessum skjölum taka ríki á sig ákveðnar skuldbindingar sem þeim ber að sjálfsögðu að virða.

Ég lagði skriflega umsögn fyrir utanríkismálanefndina. Þar minni ég á að fyrir rúmu ári tók stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd alþingis undir þá skoðun ríkisendurskoðunar að ekki dygði lengur að skilgreina hlutverk landhelgisgæslunnar vegna varnartengdra verkefna með þjónustusamningi.

Ég tel að lögfesta beri þetta hlutverk gæslunnar. Fyrir utan verkefni á Keflavíkurflugvelli snýr það að þátttöku í flotaæfingum og þátttöku í fjölþjóðlegu samstarfi flota við eftirlit og varnir Norður-Atlantshafs. Skipulag og starfsemi gæslunnar svipar til þess sem er meðal helstu samstarfsþjóða auk þess sem meginhlutverk gæslunnar, eftirlit ásamt leit og björgun, er á verksviði hermálayfirvalda nágrannalandanna. Ekkert kemur hér í stað landhelgisgæslunnar.

Því miður tekur utanríkismálanefndin ekki undir þetta sjónarmið í áliti sínu.