14.2.2022 9:48

Skáldkonur máta sófaspekinga Pútins

Er viðtalið við skáldkonurnar skyldulesning fyrir alla sem áhuga hafa á að kynna sér viðhorf þeirra sem þekkja nábýlið við Rússland Pútins af eigin raun.

Í fyrri viku birti þýska vikuritið Der Spiegel viðtal Suzanne Beyer við rithöfundana Hertu Müller frá Rúmeníu og Svetlönu Alexievich frá Hvíta-Rússlandi. Þær hafa báðar hlotið Nóbelsverðlaunin í bókmenntum. Illugi Jökulsson snaraði viðtalinu á íslensku og birtist það á vefsíðunni Stundinni eins og sjá má hér . Er viðtalið  við skáldkonurnar skyldulesning fyrir alla sem áhuga hafa á að kynna sér viðhorf þeirra sem þekkja nábýlið við Rússland Pútins af eigin raun.

Sófaspekingar hafa vissulega fulla heimild til að sitja hér í skjóli NATO-aðildar og varnarsamnings við Bandaríkin og láta eins og héðan eða frá öðrum NATO-þjóðum sé Rússum ógnað á þann hátt að réttlæti hernaðarbrölt Pútins. Þessir spekingar hafa einfaldlega rangt fyrir sér. Rökin eru bæði undarleg og haldlaus séu þau brotin til mergjar.

Við hlið Rússagrýlunnar má nú kynnast Rússatröllum, einstaklingum sem birtast á netheimum til að hleypa upp umræðum þegar þeir telja hallað á Pútin og menn hans. Er ekki að efa að þessu áróðursbragði sé beitt í umræðum á íslensku eins og öðrum tungumálum.

_qm8SYwIMD5X_1800x1200_E64nifsQ

Herta Müller og Svetlana Alexievich — Myndina tók Julia Steinigeweg fyrir Der Spiegel.

Í viðtalinu við Der Spiegel segir Herta Müller meðal annars:

„Ég finn til ótta og örvæntingar og bjargarleysis. Verst eru Úkraínumenn leiknir. En Pútin hefur séð um að allir í Austur-Evrópu hafa verið óttaslegnir í mörg ár. Af hverju vildu Rúmenar og Pólverjar og allir aðrir umfram allt ganga í NATO? Ekki til að ráðast inn í Rússland, heldur til að verjast Rússum. [...]

NATO getur ekkert umkringt Rússland. Og ekkert NATO-land hefur nokkru sinni ógnað Rússlandi. Það er þveröfugt. Þessar öryggiskröfur [Pútins] ganga þvert á allar staðreyndir og eru bara pólitískt mikilmennskubrjálæði.“

Spurningunni um hvort Vestrið hafi gert mistök þegar Sovétríkin hrundu svarar Svetlana Alexievich:

„Við biðum alltaf eftir því að Vestrið kæmi og hjálpaði okkur, en það var einfeldningsháttur. Hvernig átti Vestrið að geta lagað svona stórt svæði? Það var bara ekki hægt. En ég sé samt ein mistök: Hvað Vestrið hefur alltaf verið hrætt við Rússland síðan á keisaratímanum. Vestrið vildi ekki sterkt Rússland, þangað til það rann upp fyrir Vestrinu að Rússland yrði að verða lýðræðisríki, annars myndu allir alltaf hafa það svo skítt. Við töpuðum heilum áratug áður en þetta rann upp fyrir okkur og þann tíma hefði verið hægt að nota til að byggja upp lýðræðið.

En á þeim tíma sópuðu ólígarkarnir öllu Rússlandi í rassvasann og héldu svo að þeim yrði tekið með opnum örmum á Vesturlöndum, úr því nú væru þeir orðnir svo ríkir líka. En í Vestrinu hefur verið litið á þá sem þá glæpamenn sem þeir eru. Og það ergir ólígarkana. Leggið bara eyrun vandlega við hvernig Pútin talar: „Vestrið ber ekki virðingu fyrir okkur, það þolir okkur ekki, því finnst við einskis virði.““