13.11.2018 18:06

Sigmundur Davíð vildi sæstreng með Cameron

Andstæðingar málsins nú kjósa að skauta alveg yfir að alþingi samþykkti orkupakkann sem EES-mál. Það ræður þó úrslitum um að málið er enn til meðferðar innan stjórnkerfisins.

Allt ber að sama brunni þegar rætt er um stöðu 3ja orkupakkans gagnvart íslenskum stjórnvöldum. Allar ákvarðanir sem lutu að því að pakkinn var tekinn upp í EES-samninginn voru teknar þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var forsætisráðherra og Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra.

Að tillögu Gunnars Braga fjölluðu þrjár þingnefndir um málið: Utanríkismálanefnd, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og atvinnuveganefnd. Kallað var eftir lögfræðilegum álitum til að kanna stöðuna gagnvart stjórnarskránni. Niðurstaðan varð sú að íslensk stjórnvöld litu orkupakkann þeim augum að hann ætti heima undir EES. Þess vegna er málið á dagskrá núna og verður lagt að nýju fyrir alþingi í febrúar því að í fyrri umfjöllun stjórnvalda um málið kom fram að alþingi yrði að innleiða pakkann, það felst í orðalaginu „stjórnskipulegur fyrirvari“.

Í dag (13. nóvember) sendi atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið frá sér fréttatilkynningu þar sem sagði:

„Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið vill af gefnu tilefni koma því á framfæri, að það er ekki rétt sem sagt er í fréttum í Morgunblaðinu og á vefnum Mbl.is í dag, að fyrirtækið Atlantic SuperConnection hafi verið að skoða möguleika á lagningu sæstrengsins Ice-Link á milli Bretlands og Íslands, sem sé á verkefnalista Evrópusambandsins.

Hið rétta er að athugun á Ice-Link verkefninu er á vegum Landsnets og Landsvirkjunar. Fyrirtækið Atlantic SuperConnection á enga aðild að því verkefni.

Einnig er rétt að árétta að verkefnalisti ESB er opinber og langt er síðan það kom fram opinberlega að Ice-Link verkefnið væri á honum. Þáverandi ríkisstjórn [Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar] gaf í ársbyrjun 2015 leyfi fyrir að sótt yrði um að strengurinn færi á listann, og var leyfið veitt með fyrirvara um að í því fælist engin efnisleg afstaða stjórnvalda til verkefnisins.“

Frosti Sigurjónsson sat á alþingi fyrir Framsóknarflokkinn á þessum árum. Hann segist hafa lýst andstöðu við 3. orkupakkann þegar hann var kynntur. Þau ummæli sýna að málið fór ekki umræðulaust í gegnum þingflokk framsóknarmanna þar sem þeir Sigmundur Davíð og Gunnar Bragi sátu þá. Tekin var ákvörðun í andstöðu við að minnsta kosti einn þingmann Framsóknarflokksins um að orkupakkinn yrði hluti af EES.

22382823989_47ce8fa4f3_o.width-720Þessi mynd birtist á vefsíðunni Kjarnanum 21. mars 2016 og sýnir David Cameron, þáv. forsætisráðherra Breta, og Sigmund Davíð Gunnlaugsson, þáv. forsætisráðherra Íslands, í anddyri Alþingishússins. Fréttin undir myndinni hófst á þessum orðum:

„Það styttist í að vinnuhópur skipaður af Sigmundi Davíði Gunnlaugssyni og David Cameron skili niðurstöðu varðandi hugsanlegt verð og magn á orku sem myndi vera flutt í gegnum sæstreng frá Íslandi til Bretlands.“ Skömmu síðar hrökklaðist Sigmundur Davíð frá völdum.

Andstæðingar málsins nú kjósa að skauta alveg yfir að alþingi samþykkti orkupakkann sem EES-mál. Það ræður þó úrslitum um að málið er enn til meðferðar innan stjórnkerfisins.

Afstaða þingmanna og ráðherra Sjálfstæðisflokksins snýst um að tryggja að málið hljóti enn ítarlegri skoðun. Slegnir eru varnaglar án þess að horfið sé frá þeirri skyldu að leiða málið til lykta á stjórnskipulega réttan hátt miðað við fyrri ákvarðanir þings og ríkisstjórnar. Að saka þá eða aðra um aðför að fullveldinu eða svik við þjóðarhag af undirgefni við ESB er tilefnislaust. Það er óhjákvæmilegt að fá niðurstöðu í málið og tryggja um leið að íslensk stjórnvöld glati hvorki trausti né trúverðugleika. Það er nóg að Sigmundur Davíð og Gunnar Bragi geri það vegna 3. orkupakkans.