2.12.2022 9:33

Siðlaus meinbægni Pírata

Í reglum um trúnað í þingnefndum er ekki nein undanþága um efni skjala eða annað. Björn Leví hefur þessar reglur einfaldlega að engu og gortar sig af því!

Það sem hér fer á eftir birtist sem athugasemd á Facebook síðu minni nú i vikunni. Textinn er eftir Björn Leví Gunnarsson, þingmann Pírata. Þarna skrifar hann til varnar því að Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, flokkssystir hans, dreifði trúnaðarskjali frá ríkisendurskoðun úr stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins (SEN) til þingflokks Pírata sunnudaginn 13. nóvember og braut þar með reglur um starfshætti þingnefnda. Björn Leví segir:

„Þetta skiptir nákvæmlega engu máli. Ef þetta væri gögn sem vörðuðu persónuupplýsingar eða þjóðaröryggi eða aðrar undanþágur eins og upplýsingalög skilgreina undanþágur fyrir þá myndi þetta kannski skipta einhverju máli en þetta voru gögn sem þingmenn áttu að fá tíma til þess að skoða áður en þau fóru í fjölmiðla. Það var nákvæmlega það sem ég gerði, ég kynnti mér gögnin.

Að auki voru þetta gögn sem áttu hvort eð er að birtast daginn eftir og ég skal sko verja hvaða heimildamann sem sendi þetta til fjölmiðla með kjafti og klóm. Þetta er mál sem varðar almannahag. Að einhver hafi lekið þessu daginn áður (að mínu mati út þingflokki Sjálfstæðisflokksins, sem er bara mín skoðun af því að þau voru þau einu sem hagnast eitthvað af því að búa til smjörklípu úr þessu) er eitthvað sem mér persónulega er slétt sama um. Ég kvarta ekkert út af því. Fjölmiðlar hefðu átt að fá þessa skýrslu með útgáfutakmörkunum til kl 17 daginn eftir eða eitthvað svoleiðis.

Það er nákvæmlega ekkert sem þarf að rannsaka hérna að mínu mati. Þetta er ekkert nema smjörklípa.

En gefum okkur að það eigi að rannsaka eitthvað. Hvað svo? Á að hengja einhvern fyrir að deila skýrslunni degi fyrr? Ég skal amk segja það skýrt að ég myndi aldrei fara fram á nein viðurlög við neinu slíku, ekki einu sinni frá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins.“

25102323896_8abff2a59a_oÍ reglum um trúnað í þingnefndum er ekki nein undanþága um efni skjala eða annað. Björn Leví hefur þessar reglur einfaldlega að engu og gortar sig af því!

Hverjum ögrar hann með þessari framkomu? Fyrst formanni SEN, Þórunni Sveinbjarnardóttur, Samfylkingu, sem ber ábyrgð á því gagnvart þeim sem eiga samskipti við nefndina að þar sé farið að þeim reglum sem alþingi setur um störf nefnda. Í öðru lagi forsætisnefnd alþingis og sérstaklega forseta þess sem á lokaorðið í málum sem þessum.

Í siðareglum alþingismanna segir þeir skuli „ekki kasta rýrð á Alþingi eða skaða ímynd þess með framkomu sinni“. Það sem vitnað er til hér að ofan og ritað er af alþingismanni um framgöngu hans og annars þingmanns Pírata kastar rýrð á alþingi og brýtur þannig í bága við siðareglur þingmanna.

Að nefna þær reglur við Pírata er eins og að stökkva vatni á gæs, forherðing þeirra gegn regluverki sem þeir telja setja sér hömlur er algjör. Á hinn bóginn hafa þeir uppi háværustu og svæsnustu hrópin í garð andstæðinga sinna þegar þeir saka þá um reglubrot, innstæðulaust og til þess eins að hrekkja. Björn Leví sakar til dæmis sjálfstæðismenn um að leka trúnaðarskjalinu til fjölmiðla án þess að hafa annað fyrir sér en eigin meinbægni.