24.6.2021 9:56

Sérhagsmunabrölt í Viðreisn

Átök Benedikts og Þorgerðar Katrínar vegna sérhagsmuna þeirra valda illdeilum innan Viðreisnar. Nýr flokkssproti fæðist.

Stjórnmálaflokkurinn Viðreisn logar í illdeilum. Stofnanda og hugmyndafræðingi flokksins, Benedikt Jóhannessyni, var úthýst þegar hann ætlaði að hasla sér völl með framboði í þéttbýlinu á suðvesturhorninu.

Benedikt bauð sig tvisvar fram í Norðausturkjördæmi, fékk 1.482 atkv. (6,5%) 2016 en 495 atkv. (2,1%) 2017. Sat hann á þingi í eitt ár og var fjármálaráðherra hluta þess tíma. Nú taldi hann að meira fylgi væri að sækja annars staðar: Uppstillingarnefnd flokksins hafnaði honum og flokksforystan móðgaði hann.

Í Suðvesturkjördæmi gerðist það við röðun á lista undir forystu Þorgerðar Katrínar Gunnardóttur flokksformanns að Sara Dögg Svanhildardóttir bæjarfulltrúi Garðabæjarlistans fékk ekki 3. sæti á listanum eftir að hafa gefið kost á sér til þess. Sara Dögg sagði ákvörðun uppstillingarnefndarinnar vonbrigði og rökin fyrir henni kæmu sér á óvart, vera hennar á listanum myndi gera hann of einsleitan og hún væri of gömul.

Sara Dögg var ekki aðeins vonsvikin heldur einnig móðguð.

Web-power-struggle-901621312-1560x1040Ingólfur Hjörleifsson sagði sæti sínu lausu á lista Viðreisnar í Reykjavíkurkjördæmi suður. Hann gaf kost á sér í 3.-5. sæti listans en sagði við mbl.is þriðjudaginn 22. júní að hann sætti sig ekki við klíkuskap og klækjastjórnmál innan Viðreisnar fyrir utan ólýðræðislega aðferð við val á lista flokksins og valdsmannslega framkomu fámenns hóps innan flokksins.

Flokksfrumkvöðullinn Benedikt Jóhannesson tilkynnti í samtali við mbl.is miðvikudaginn 23. júní að hann hefði sagt sig úr framkvæmdastjórn Viðreisnar. Hann gæti „bara ekki hugsað“ sér að sitja þar áfram. Framganga Þorgerðar Katrínar flokksformanns veldur Benedikt mestum vonbrigðum. Hún hafi fyrst viljað karla í efstu sæti landsbyggðarlista flokksins til að geta raðað konum í efstu sætin í þéttbýlinu í nafni kynjajafnréttis. Litill hópur í kringum formanninn hafi öll ráð flokksins í hendi sér. Það rennur Benedikt til rifja að flokkur með slagorðið „almannahagsmunir framar sérhagsmunum“ nái ekki að starfa eftir þeirri línu.

Í samtalinu slær Benedikt ekki út af borðinu að hann stofni nýjan flokk, margir „landlausir“ séu í sambandi við sig. Á visir.is er síðan skýrt frá því að 23. júní að Benedikt og Ingólfur Hjörleifsson íhugi að stofna nýjan flokk. Flokkssproti birtist með Facebook-hópnum C++ frelsi og frjálslynd hugsun!. C sé listabókstafur Viðreisnar „og gæti því einhver skilið nafn flokksins sem Viðreisn 2.0, uppfærða og betri,“ segir í fréttinni.

Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, sem Benedikt lýsir sem peði klækjastjórnmálamanna flokksins, birti 23. júní færslu á Facebook þar sem hann harmar að Benedikt „hafi valið þá leið að gera forystu og stofnanir flokksins tortryggilegar í kjölfar þess að hann fékk ekki vilja sínum framgengt við uppstillingar á lista.“ Segist hann hræddur um „að eigin hagsmunir [Benedikts] blindi honum sýn og hann sjái ekki lengur þá almannahagsmuni sem við ætluðum saman að setja ofar sérhagsmunum“.

Viðreisn var á sínum tíma stofnuð vegna þess að Benedikt og Þorgerður Katrín fengu ekki vilja sínum framgengt í Sjálfstæðisflokknum – sérhagsmunirnir þeirra valda nú vandræðum í Viðreisn.