19.2.2023 10:51

Sáttasemjari á ýmsa kosti

Sáttasemjari getur ákveðið að atkvæðagreiðsla um miðlunartillöguna fari fram á ábyrgð aðila hennar eða skotið deilunni um kjörskrána til hæstaréttar.

Í Morgunblaðinu 18. febrúar vitna ég í ræðu félagsmálaráðherra frá 1978 um að í lögum frá 1925 hafi sáttasemjari fyrst komið til sögunnar og árið 1926 hafi dr. Björn Þórðarson síðar forsætisráðherra orðið fyrsti sáttasemjarinn.

Vissulega voru lögin sett 1925 en Georg Ólafsson landsbankastjóri varð fyrstur til að gegna stöðu sáttasemjara. Fulltrúar verkalýðs og vinnuveitenda skipuðu 11 manna samstarfsnefnd sem mælti með Georg. Nú skipar félagsmálaráðherra ríkissáttasemjara eða staðgengil hans eins og nú er í deilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins (SA).

Vegna yfirvofandi verkfalls sjómanna haustið 1925 lagði nýi sáttasemjarinn fram miðlunartillögu 25. október 1925 um mánuði eftir að hann tók við starfinu til þriggja ára. Sjómenn greiddu atkvæði um tillöguna á hafi úti, með fjarskiptum voru tölur sendar til sáttasemjarans. Sjómenn felldu tillöguna, útgerðarmenn samþykktu hana. Kjaradeilan leystist með samningi 3. desember og tók Ólafur Thors, síðar formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, þátt í gerð samninganna. Vorið 1926 ákvað Georg að segja af sér og síðsumars tók dr. Björn við af honum.

Þegar greidd voru atkvæði um fyrstu miðlunartillöguna 1925 treysti sáttasemjari aðilum sjálfum fyrir framkvæmd atkvæðagreiðslunnar. Augljóst er að alþingismaðurinn Eðvarð Sigurðsson, formaður Dagsbrúnar, leit þannig á í þingræðu 2. maí 1978 að deiluaðilar ættu að framkvæma atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu sáttasemjara undir eftirliti hans.

1396987Ástráður Haraldsson, sáttasemjari í deilu Eflingar og SA, (mynd: mbl.is/Kristinn Magnússon).

Þannig var einnig staðið að málum þegar greidd voru atkvæði um miðlunartillögu í deilu ljósmæðra og ríksins í júlí 2018. Þá birti ríkissáttasemjari tilkynningu sem hófst á þessum orðum:

„Samkomulag er um að Ljósmæðrafélag Íslands sjái um atkvæðagreiðslu félagsmanna sinna undir eftirliti ríkissáttasemjara.“

Ef til vill er vantraustið svo mikið í garð stjórnar Eflingar henni er ekki treyst fyrir framkvæmd atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu ríkissáttasemjara. Hann ákvað nú að atkvæði yrðu greidd rafrænt og fól þriðja aðila, Advania, að standa að framkvæmdinni. Braut þannig, að því er virðist einhliða, gegn öllu sem áður var. Þar með var fjandinn laus með tilheyrandi málaferlum. Þeim lauk með dómi landsréttar. Um hann sagði laugardaginn 18. febrúar í leiðara Morgunblaðsins:

„Það má gagnrýna Landsrétt fyrir að hafa aukið óvissuna fremur en að eyða henni og stórlaskað embætti ríkissáttasemjara.“

Deilan snerist um að ríkissáttasemjari vildi kjörskrá frá Eflingu vegna rafrænu kosningarinnar hjá Advania. Landsréttur sagði að hann fengi skrána ekki.

Við fyrstu sýn má telja full rök fyrir niðurstöðu landsréttar, efasemdir vaxa þó eftir því sem málið er betur skoðað. Lokaniðurstaða dómstóla fæst aðeins í hæstarétti.

Ástráður Haraldsson, staðgengill ríkissáttasemjara, var svartsýnn um framhald viðræðna að kvöldi laugardags 18. febrúar. Hann getur ákveðið að atkvæðagreiðsla um miðlunartillöguna fari fram á ábyrgð aðila hennar eða skotið deilunni um kjörskrána til hæstaréttar.