31.7.2020 11:31

Samtal við Hægri hliðina

Ríkiseinokun í fjölmiðlum sætir gagnrýni víða um lönd vegna hættunnar á að skoðana- og málfrelsi skerðist.

Fjölmiðlun tekur miklum breytingum um þessar mundir. Miklu auðveldara er nú en áður að ná til fjölda fólks með lítilli fyrirhöfn og sífellt minni en fullkomnari tæknibúnaði.

Height_250_width_250_HH_PODCAST_VATARSjálfstæðisflokkurinn færir sér þetta í og heldur hann úti hlaðvarpinu Hægri hliðin .  Þar er ég gestur Guðfinns Sigurvinssonar í umræðuþættinum Pólitíkin sem birtist í dag (31. júlí). Um samtal okkar segir í kynningu:

„Björn Bjarnason á langan og farsælan feril að baki í stjórnmálum og skrifar mikið um samfélagsmál og stjórnmál á heimasíðu sína. Björn var gestur Guðfinns Sigurvinssonar í nýjasta þætti af Pólitíkinni á hlaðvarpi Sjálfstæðisflokksins en hlusta má á þáttinn hér.

Í þættinum ræddi Björn margt áhugavert, m.a. um stjórnmálaástandið í dag, stöðu fjölmiðla og alþjóðamál. Auk þess ræddi Björn um föður sinn Bjarna Benediktsson fyrrverandi forsætisráðherra en þess var minnst þann 10. júlí síðastliðinn að hálf öld er liðin frá því að Bjarni fórst ásamt eiginkonu sinni og dóttursyni í bruna á Þingvöllum.

Mest ræddi Björn þó um skýrslu sína um norrænt samtarf hefur vakið verðskuldaða athygli en skýrsla Björns kom út í byrjun mánaðar með tillögum um sameiginleg norræn verkefni á sviði loftslagsmála, fjölþátta ógna og netvarna auk fjölþjóðasamstarfs innan ramma alþjóðalaga. Skýrslan inniheldur 14 tillögur um aukið samstarf og sameiginlega stefnumótun Norðurlandanna og kemur út í framhaldi af skýrslu Thorvalds Stoltenbergs frá 2009.“

Þetta er þriðja samtalið við mig á öldum ljósvakans vegna norrænu skýrslunnar. Hef ég rætt við Kristján Kristjánsson í þætti hans Sprengisandi á Bylgjunni, Magnús Þór Hafsteinsson á Útvarpi Sögu og nú Guðfinn á Hægri hliðinni. Þá birtist fréttaviðtal við mig í Fréttablaðinu sem einnig birti leiðara um skýrsluna. Þórir Guðmundsson, fréttastjóri Vísis, Stöðvar 2 og Bylgjunnar, skrifaði um hana fréttaskýringu.

Undir lok þáttarins ræðum við Guðfinnur stöðu íslenskra fjölmiðla og lýsi ég áhyggjum vegna hennar ekki síst í ljósi þess misvægis sem leiðir af milljarða greiðslum til ríkisútvarpsins. Er augljóst að vegna tæknibreytinga og aukins svigrúms einkaaðila til að miðla upplýsingum, menningarlegu efni og almennum fróðleik er algjör tímaskekkja að ríkið skipi þá stöðu á fjölmiðlamarkaði sem leiðir af skattgreiðslum til ríkisútvarpsins.

Að ekki sé tekið á þessu máli á stjórnmálavettvangi endurspeglar aðeins raunveruleg heljartök ríkisútvarpsins á stjórnmálamönnum og flokkum. Ríkiseinokun í fjölmiðlum sætir gagnrýni víða um lönd vegna hættunnar á að skoðana- og málfrelsi skerðist. Hér á landi er enn látið eins og þessi einokun tryggi þetta frelsi, að því sé haldið fram er aðeins eitt merki um áhrif einokunarinnar.