2.1.2018 10:15

Samfélagsbylting frá Hollywood

Eitt var sameiginlegt með nýársræðum Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra, Agnesar Sigurðardóttur biskups og Guðna Jóhannessonar forseta Íslands, öll tóku þau undir málstað #metoo-hreyfingarinnar sem á upptök sín í Hollywood.

Eitt var sameiginlegt með nýársræðum Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra, Agnesar Sigurðardóttur biskups og Guðna Jóhannessonar forseta Íslands, öll tóku þau undir málstað #metoo-hreyfingarinnar sem á upptök sín í Hollywood þar sem frægar leikkonur upplýstu í október 2017 um kynferðislega áreitni valdamanns í kvikmyndaheiminum, Harveys Weinsteins. Konurnar sem tóku þátt í #metoo-hreyfingunni voru manneskjur ársins 2017 að mati hlustenda Rásar 2. Sami hópur var einnig valinn maður ársins á Stöð 2. Bandaríska vikuritið Time valdi the Silence Breakers einnig „mann ársins“ 2017.

Þetta er til marks um að áhrif Hollywood eru ekki aðeins óumdeild í heimi kvikmyndanna heldur eru samfélagsáhrif þaðan ekki minni en menningaráhrifin. Er með ólíkindum á hve skömmum tíma ásakanir um áreitni í Hollywood hafa breyst í alheimshreyfingu.

Óskarsverðlaunahafarnir Natalie Portman, Emma Stone og Cate Blanchett eru meðal þeirra sem standa að verkefninu Time's Up.

Nú er talað um Weinstein-áhrifin, það er að valdamiklir karlmenn verða að víkja til hliðar vegna ásakana um kynferðislega áreitni. Á nýársdag var t.d. Trond Giske, varaformanni Verkamannaflokksins í Noregi, gert að hverfa úr trúnaðarstöðu sinni í flokknum af þessum sökum.

Katrín Jakobsdóttir sagði:

„Þó að mikið hafi áunnist þá hefur nýliðið ár svo sannarlega verið okkur öllum áminning um það ofbeldi sem konur hafa verið beittar og eru enn beittar víða í íslensku samfélagi. Á þessu þarf að verða varanleg breyting og sú breyting er eitt stærsta samfélagslega verkefnið sem framundan er. Það er fyrsta skrefið að vekja athygli á ofbeldinu en síðan verður að spyrja: Og hvað svo?“

Agnes Sigurðardóttir sagði:

„Kynbundið ofbeldi á sér stað eins og margar sögur kvenna bera með sér sem opinberaðar hafa verið í meetoo byltingunni. Það er ekki ofsögum sagt að flestar konur hafi fundið samsömun með þeim reynslusögum sem þar hafa birst. Ég og fleiri konur innan kirkjunnar getum vitnað um kynbundið ofbeldi sem við höfum ekki þorað að orða fyrr en nú þegar við vitum að margar konur hafa sömu sögu að segja.“

Guðni Jóhannesson sagði:

„Kannski verður nýliðins árs einkum minnst fyrir þau tímamót að konur fylktu liði gegn kynferðislegri áreitni og ofbeldi, sögðu hingað og ekki lengra og karlar tóku undir. Við eigum að standa saman um samfélag sem hafnar ráðríki hinna freku, áfergju þeirra sem þykjast geta komist upp með hvað sem er. Í þessum efnum sem öðrum má þó varast alhæfingar, hviksögur og haldlausar ásakanir; þær spilla góðum málstað.“

Forsætisráðherra spurði: Og hvað svo? Svarið birtist í heilsíðu auglýsingu í The New York Times þriðjudaginn 2. janúar. Rúmlega 300 leikkonur, höfundar og leikstjórar hleypa þar af stokkunum verkefni gegn kynferðislegri áreitni innan kvikmyndaiðnaðarins og annarra starfsgreina. Verkefnið heitir Time’s Up  – tíminn er úti.

Birt hefur verið vefsíða verkefnisins með „samstöðubréfi“. Þar segir að tíminn sé úti fyrir „órjúfanlega einokun“ gegn rétti kvenna. Bréfið er stílað til allra sem hafa orðið að takast á við kynferðislega áreitni, hún geti oft haldið áfram vegna þess að „illvirkjar og vinnuveitendur taki aldrei afleiðingunum“.

Ætlunin er að safna að minnsta kosti 15 milljónum dollara til að standa undir málskostnaði þeirra, kvenna og karla, sem leita réttar síns vegna kynferðislegrar áreitni á vinnustað. Verkefnið miðar einkum að stuðningi við þá sem skortir fjárhagslega burði til að standa í málarekstri, þar sé um að ræða þá sem starfa við landbúnað, í verksmiðjum, umönnun og þjónustu. Þá er markmiðið einnig að vinna að jafnlaunastefnu og fjölgun kvenna í áhrifastöðum.