12.6.2019 9:54

Sæstrengur án þriðja orkupakkans

Það er einkennilegt að áhugamanneskja um orkumál sé ekki betur að sér en þetta þegar að að því kemur að ræða kosti og galla sæstrengs frá Íslandi til annarra landa.

Umræður um þriðja orkupakkann koma þeim sífellt á óvart sem telur að öll kurl hljóti að vera komin til grafar. Að ekki sé unnt að velta fleiri steinum vegna málsins í von um að finna eitthvað nýtt.

Þetta er sagt hér og nú vegna greinar sem Sigrún Elsa Smáradóttir, sjálfstæður atvinnurekandi og áhugamanneskja um orkumál, skrifar í Morgunblaðið í dag (miðvikudaginn 12. júní) undir fyrirsögninni: Frestur er á þessu bestur.

Þar ræðir hún um þriðja orkupakkann og sæstreng og segir meðal annars:

„Af hverju tökum við ekki bara umræðuna um sæstrenginn núna? Viljum við hann eða ekki? Þá vitum við allavega betur hvaða áhrif það sem verið er að samþykkja mun hafa.

Mér finnst ekki ljóst hvort samþykkt þriðja orkupakkans mun auka eða minnka líkurnar á því að sæstrengur verði lagður en hitt er ljóst að ef/þegar Alþingi Íslands samþykkir á endanum lagningu sæstrengs þá mun íslenskur raforkumarkaður lúta þeim evrópsku reglum sem nú er verið að samþykkja (verði þær samþykktar) og því eðlilegt að spurt sé; erum við sátt við að þessar reglur gildi á Íslandi?“

Það er einkennilegt að áhugamanneskja um orkumál sé ekki betur að sér en þetta þegar að að því kemur að ræða kosti og galla sæstrengs frá Íslandi til annarra landa. Málið hefur verið til umræðu hér áratugum saman bæði af hálfu stjórnmálaflokka, stjórnvalda og orkufyrirtækja. Hæst komust viðræðurnar í október 2015 þegar þeir hittust á fundi þáverandi forsætisráðherrarnir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og David Cameron.

WEB_Submarine-Cable_Edited_15.10.2017Sæstrengur er sjálfstætt mál og var til umræðu áður en Ísland gerðist aðili að evrópska efnahagssvæðinu (EES). Segja má að EES-regluverkið fylli út í myndina varðandi það hvernig standa beri að málum yrði strengur lagður til EES-ríkis. Þeir sem segja reglurnar fela í sér að skylt sé að leggja strenginn í óþökk íslenskra yfirvalda fara með rangt mál.

Í greininni segir Sigrún Elsa einnig: „...mér finnst ekki tímabært að innleiða lög og reglur á Íslandi um sameiginlegan orkumarkað Evrópu þar sem engin ákvörðun hefur verið tekin um að tengjast þeim markaði“. Lög um þetta efni gengu í gildi hér á landi árið 2003. Þá voru fyrirvarar af Íslands hálfu sem íslensk stjórnvöld gerðu síðar að engu en segja má að núverandi ríkisstjórn sé að innleiða að nýju með þeim ráðstöfunum sem hún hefur gert við innleiðingu þriðja orkupakkans.

Fyrirsögn greinarinnar eftir Sigrúnu Elsu gefur til kynna að hún vilji fresta málinu sem nú er fyrir alþingi til að hún geti kynnt sér það betur. Hvers vegna hafði hún ekki staðreyndir málsins á hreinu þegar hún settist niður og skrifaði greinina sem Morgunblaðið birtir? Ýmsir lesendur telja vafalaust að greinin hafi eitthvað nýtt að geyma. Ekkert nýtt er í greininni: þessi gagnrýni á þriðja orkupakkann er reist á hrapallegum misskilningi eða trú á falsfréttum.

Hér hef ég hreyft þeirri hugmynd að greina eigi á milli þriðja orkupakkans og sæstrengs með því að ákveða að ekki verði veitt heimild til sæstrengs nema þjóðin samþykki það í atkvæðagreiðslu. Þá færu fram umræðurnar um strenginn sem Sigrún Elsa saknar en íslensk stjórnvöld stæðu við skuldbindingar sínar vegna EES-aðildarinnar.