19.5.2019 10:59

Rússamakk sprengir stjórn Austurríkis

Hneykslið er afhjúpað á viðkvæmum punkti í evrópskum stjórnmálum, lokadagana fyrir fyrri umferð kosninga til ESB-þingsins.

Eftir að Sebastian Kurz, kanslari Austurríkis, sleit stjórnarsamstarfi við Frelsisflokkinn (FPÖ) laugardaginn 18. maí hefur athygli beinst að tengslum FPÖ og evrópskra jaðarflokka til hægri við Rússa og Vladimir Pútín Rússlandsforseta.

Heinz-Christian Strache, vara-kanslari og leiðtogi FPÖ, var á Ibiza árið 2017 þegar með leynd var tekið á myndband samtal hans við frænku rússnesks auðvaldsmanns, eins og konan er kynnt.. Lofaði Strache að auðmaðurinn fengi ábatasama samninga við austurríska ríkið styddi hann FPÖ fjárhagslega.

Putin-austria1Þessi samsetta mynd af Strache og Pútiin birtist árið 2016 þegar flokkar þeirra gerðu með sér formlegan samstarfssamning.

Hneykslið er afhjúpað á viðkvæmum punkti í evrópskum stjórnmálum, lokadagana fyrir fyrri umferð kosninga til ESB-þingsins. Jaðarflokkunum til hægri hefur verið spáð fylgisaukningu í kosningunum.

Í The New York Times er haft eftir Peter Pilz, óháðum austurrískum þingmanni: „Vínarborg gegnir lykilhlutverki fyrir Pútín og þá flokka sem eru lengst til hægri. Um alla Evrópu hafa þessir flokkar orðið að einskonar fimmtu herdeild Rússa. Í Austurríki hefur þessi fimmta herdeild átt menn í ríkisstjórninni.“

Blaðið segir að erlendar leyniþjónustur hafi hætt að deila viðkvæmum upplýsingum með Austurríkismönnum af ótta við leka þeirra til Moskvu.

Strache hitti Pútin fyrst í maí 2007. Á árinu 2014 tóku að minnsta kosti tveir fulltrúar Frelsisflokksins að sér kosningaeftirlit þegar Krímverjar greiddu atkvæði um innlimun Rússa á Krímskaga. Á árinu 2016 fór Strache til Moskvu og ritaði undir formlegan samstarfssamning við flokk Pútins. Í ágúst í fyrra bauð Karin Kneissl, utanríkisráðherra Austurríkis með stuðningi FPÖ, Pútin í brúðkaup sitt og þáði hann boðið.

Á myndbandinu líkir Strache fjölmiðlamönnum við vændiskonur. Hann segist vilja ná sömu tökum á fjölmiðlum í Austurríki og Viktor Orban hafi tekist í Ungverjalandi. Vill hann að rússneski auðmaðurinn kaupi eitt helsta götublað Austurríkis, Krone,og láti það styðja sig í aðdraganda kosninga.

Eins og áður sagði hafa evrópskir jaðarflokkar víðar en í Austurríki daðrað við Pútin og fengið fjárhagsstuðning frá Rússlandi. Þetta er hluti evrópsks stjórnmálalífs sem er og verður ofarlega á dagskrá.