13.8.2019 9:18

Rökþrot kalla á frest

Það er alkunna að verði menn rökþrota heimta þeir frest, það kunni að gerast eitthvað einhvern tíma sem sýni þá hafa rétt fyrir sér.

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi, fer mikinn vegna þriðja orkupakkans. Af orðum hans má helst ráða að það sé fyrst í sumar sem málið komi til umræðu

þótt það hafi verið á borði íslenskra stjórnvalda frá árinu 2010 og rætt og afgreitt af nefndum alþingis áður en það fór fyrir sameiginlegu EES-nefndina í maí 2017 og var tekið upp í EES-samninginn. Hluti orkupakkans var meira að segja lögfestur í maí 2015.

Haft er eftir Elliða að Carl Baudenbacher, fyrrv. forseti EFTA-dómstólsins, segi EES-samninginn brjóta í bága við íslensku stjórnarskrána. Elliði nefnir enga heimild fyrir þessari fullyrðingu sinni en á mbl.is var gefið til kynna að Elliði styddist við grein eftir Baudenbacher í Tímariti lögfræðinga árið 2007. Af því tilefni hafði blaðamaður mbl.is samband við Baudenbacher sem segja má að hafi komið af fjöllum. Þeir sem kynna sér greinina sjá að þar er ekkert rætt um íslensku stjórnarskrána.

Despido-por-tardanzas-continuas-750x733Aktívisminn gegn þriðja orkupakkanum tekur á sig undarlegustu myndir. Sumir koma síðan inn í miðja myndina eins og Elliði og halda að ekkert hafi gerst áður en þeir birtust. Hann sagði í samtali við vefsíðuna Viljann mánudaginn 12. ágúst að rangt væri að túlka sjónarmið andstæðinga þriðja orkupakkans á þann veg að þeir vildu uppsögn á EES-samningnum. „Slík strámennska skilar ekki árangri. Við, eins og aðrar þjóðir, þurfum að eiga í samstarfi en eðlileg krafa er að slíkt samstarf sé tvíhliða og að í því felist ekki framsal á rétti þjóðarinnar til sjálfstæðrar ákvörðunartöku í mikilvægum málum,“ segir Elliði.

Þegar gengið var til EES-samstarfsins fyrir 25 árum var ákveðið að framselja vald til að ná markmiðum samstarfsins. Í 25 ár hafa lögfræðingar rætt eðli þessa framsals og dregið línur til að sýna hvernig það fellur að stjórnarskránni sem hefur engin ákvæði um framsal valds til alþjóðastofnana, hvorki bannar það né heimilar.

Elliði segir ekkert um hvaða framsal hann telur vera í þriðja orkupakkanum umfram það sem var fyrir 25 árum eða árið 2003 þegar EES-orkulöggjöf var innleidd hér á landi. Raunar leggur hann það eitt til mála að afgreiðslu þriðja orkupakkans verði frestað og hann ræddur að nýju í sameiginlegu EES-nefndinni. Hann færir engin efnisleg rök fyrir skoðun sinni, hvað eigi að ræða varðandi þriðja orkupakkann sem ekki hafi þegar verið rætt af Íslands hálfu.

Það er alkunna að verði menn rökþrota heimta þeir frest, það kunni að gerast eitthvað einhvern tíma sem sýni þá hafa rétt fyrir sér. Einn slíkur frestur var veittur á alþingi vegna orkupakkamálsins fyrr í sumar eftir málþóf miðflokksmanna. Þeir hafa ekki lagt neitt nýtt til málsins. Aktivistarnir hvetja þá til að nota málshöfðun framkvæmdastjórnar ESB á hendur Belgum vegna innleiðingar á þriðja orkupakkanum hjá þeim. Framkvæmdastjórn ESB hefur engan málshöfðunarrétt gagnvart íslenskum stjórnvöldum. Belgíska tilvísun aktívistanna er sama marki brennd og fullyrðingin um að Baudenbacher telji EES-samninginn íslenskt stjórnarskrárbrot. Fresturinn er notaður til upplýsingafalsana.