29.8.2020 10:50

Ríkisvald gegn veiru

Meðalhófsreglan er ekki aðeins vörn fyrir borgarana heldur einnig fyrir stjórnvöld vilji þau njóta almenns trausts.

Íslenskum stjórnvöldum ber lögum samkvæmt að gæta meðalhófs við töku ákvarðana. Öllum er augljóst að ríkisvaldið hefur ekki afl til að útiloka að fólk veikist.

Um 86% allra dauðsfalla á Vesturlöndum og 70-80% af heilbrigðiskostnaði er vegna lífsstílstengdra langvinnra sjúkdóma en aðeins 1,6% heilbrigðisútgjalda er varið í forvarnir. Þessar tölur taka að vísu mið af því sem var áður en kapphlaupið hófst um bóluefni til að ná tökum á COVID-19-faraldrinum.

Person-fighting-virus-illustrated_52683-35833Meðalhófsreglan er ekki aðeins vörn fyrir borgarana heldur einnig fyrir stjórnvöld vilji þau njóta almenns trausts.

Í blöðum í dag (29. ágúst) má lesa tvær greinar sem lýsa meðalhófsvandanum. Annars vegar er fjallað um baráttuna gegn faraldrinum af hæstaréttarlögmanni og hins vegar af prófessor í læknisfræði.

Reimar Pétursson hæstaréttarlögmaður segir í Fréttablaðinu :

„Vafasamt hlýtur að teljast að lokun landsins og stórkostlegar takmarkanir á atvinnufrelsi fjölmennra hópa samrýmist stjórnarskrá og lögum. Að minnsta kosti benda viðbrögð annarra Evrópuþjóða, eyríkja sem annarra, sem búa við stjórnskipun og löggjöf sem líkist okkar, til þess að síður íþyngjandi aðgerðir séu nú um stundir taldar nægjanlegar. Engar þeirra virðast álíta það markmið raunhæft eða samrýmast hófsemd að reyna að skapa veirufrítt svæði með því að stöðva allar ferðir yfir landamæri.“

Jón Ívar Einarsson, prófessor við læknadeild Harvard-háskóla segir í Morgunblaðinu:

„Hins vegar var svo ákveðið þann 14. ágúst ekki einungis að halda áfram með tvær skimanir [á íslensku landamærunum] heldur líka að setja fólk í sóttkví í 4-5 daga (sem síðar breyttist í 5-6 daga) á milli fyrri og seinni skimunar. Á þessum tímapunkti var faraldurinn á rólegri ferð hérlendis og einn einstaklingur inniliggjandi á sjúkrahúsi.

Þarna er að mínu mati seilst of langt. Vissulega er réttur fólks til eins eðlilegs lífs innanlands og hægt er mikilvægur en það er vandmeðfarið að þrengja að frelsi borgaranna með þessum hætti og sérstaklega ef það á að vara til langs tíma. Það er jafnframt töluverð hætta á að ef of langt er gengið, þá hætti sumir að fara eftir reglum. [...] Skynsamlegra hefði verið að lágmarka skaðann á báða bóga með því að setja alla í tvöfalda skimun en jafnframt að halda áfram með heimkomusmitgát á milli sýna, sem var að mínu mati vel ígrunduð leið til að lágmarka hættu á smiti eftir að lá fyrir að fyrra sýni var neikvætt. Þetta hefði í för með sér mun minni röskun á komum ferðamanna til landsins og myndi minnka þann gífurlega skaða sem ferðaþjónustan og aðrir aðilar eru nú að verða fyrir. Jafnframt ættu ferðamenn að greiða að fullu skimunarkostnað enda er ríkið nú að safna skuldum upp á einn milljarð á dag og er það sennilega meira en nóg. Það myndi minnka örlítið ferðavilja og þar með minnka líkur á að skimunargeta mettist. Auðvitað má svo slaka á eftirliti eins og við á.“

Vilji sóttvarnayfirvöld og þeir sem fara að ráðum þeirra við töku afdrifaríkra ákvarðana njóta áfram þess trausts sem til þeirra er borið er óhjákvæmilegt að þau bregðist með skýrum rökum við þessari málefnalegu gagnrýni óhlutdrægra greinarhöfunda.