8.8.2017 8:47

Ríkisútvarpið er ekki söluvara

Orð leiðarahöfundar Morgunblaðsins undirstrika enn frekar en ég gerð hve fráleit kenning Jóns Viðars Jónssonar er þegar hann lætur eins og Sjálfstæðisflokkurinn vilji einkavæða ríkisútvarpið. 

Sunnudaginn 6. ágúst birtist hér stutt hugleiðing um ríkisútvarp á útleið í tilefni af rangfærslum Jóns Viðars Jónssonar leiklistargagnrýnanda um afstöðu Sjálfstæðisflokksins til ríkisútvarpsins. Lét hann eins og flokkurinn vildi einkavæða ríkisútvarpið og taldi nýlega könnun sýna að lítill áhugi væri á því. Ég benti á að einu sinni hefði verið samþykkt á landsfundi flokksins að selja rás 2 en síðan ekki söguna meir. Stefán Jón Hafstein sem kom rás 2 til vegs og virðingar á sínum tíma sagði nýlega að ríkisútvarp yrði úr sögunni eftir 20 til 30 ár.

Í Morgunblaðinu í dag er vitnað í hugleiðingu mína í leiðara en áður en að tilvitnuninni kemur segir höfundur leiðarans:

„Hún var óneitanlega skrítin pantaða könnunin sem fjölmiðlar kynntu fyrir skömmu. Hún var um Ríkisútvarpið. Það lá í loftinu að smám saman er að renna upp fyrir þeim, sem með hrokafullri sveiflu hafa blásið á alla gagnrýni á þessa trénuðu ríkisstofnun að sífellt fleirum þykir minna til hennar koma. Reyndar var talið að þau fyrirtæki sem spyrja út úr skoðunum fólks láti ekki hafa sig í hvað sem er. En kannski bresta varnirnar þegar mikið er í húfi.

Þannig var spurt hvort þjóðinni þætti rétt að einkavæða Ríkisútvarpið?! Heil 16% vildu það. Það er mjög merkilegt ef ekki stórundarlegt að svo margir svari slíkri spurningu játandi. Hver myndi kaupa Ríkisútvarpið ef einhver væri svo bilaður að vilja einkavæða það? Þetta er fyrirtæki sem þarf að borga 5.000 milljónir með á hverju einasta ári. Sá sem álpaðist til að kaupa það í einkavæðingu væri kominn á hausinn eftir kortér.

Eða er verið að gefa í skyn að hægt sé að setja Ríkisútvarpið í einkavæðingu, og bjóða til sölu á öllu Evrópska efnahagssvæðinu og segja í auglýsingunni að í kaupunum fylgi sérstök heimild til að skattleggja Íslendinga um 5.000 milljónir á ári næstu öldina? Það væru þá 500 milljarðar í kaupbæti. Þetta er engin smávegis upphæð. Fyrir hana er hægt að leysa allan húsnæðisvanda ungs fólks, byggja ríkisspítala í hverjum fjórðungi og blúnduleggja hringveginn með fjórum akreinum og eiga þó afgang. Þegar „aðeins“ 16% svara því til að vilja „einkavæða“ Ríkisútvarpið er það talið til marks um það hve almenningur sé háður því. Og miklu meira sé að marka það en það að aðeins rétt rúmt 1% landsmanna hlusti á „RÚV“ eftir kl. 18.15!

Ætti Árvakur að fá könnunarfyrirtæki til að spyrja (sem vart nokkurt þeirra fengist til) hvort rétt sé að þjóðnýta fjölmiðla þess? Og ef aðeins 1% svaraði þeirri fáránlegu spurningu játandi væri komin þjóðarákvörðun með 99% fylgi um að fjölmiðlar Árvakurs héldu sínu striki?

Þessi skrítna könnun er gott merki um það að einhver glæta er að opnast í súrrandi sjálfumgleðinni í Efstaleiti. Dettur einhverjum á þeim bæ í hug að Fréttastofa „RÚV“ sé söluvæn vara? Það er lífsspursmál fyrir hana að hafa tekjur snýttar út úr almenningi til að lifa daginn af.

Aðrar greinar rekstursins eru smám saman að gefa eftir í samkeppni við miðla sem engan stuðning fá, en eru þvert á móti skattlagðir af sama ríkisvaldinu og mokar fé í „RÚV“ af gömlum óvana.“

Orð leiðarahöfundar Morgunblaðsins undirstrika enn frekar en ég gerð hve fráleit kenning Jóns Viðars Jónssonar er þegar hann lætur eins og Sjálfstæðisflokkurinn vilji einkavæða ríkisútvarpið. 

Málið snýst um nýtingu á opinberu fé til að framleiða fjölmiðlaefni þótt varðmenn ríkisútvarpsins vilji láta umræðurnar snúast um að halda lífi í stofnun sem ríkið kom á fót vegna tækniþróunar á sínum tíma, stofnun sem er óþörf vegna nýrrar tækni nú á tímum. Nú er meira að segja svo komið að málsvörum stofnunarinnar er misboðið vegna húsbygginga allt í kringum kastala þess á Efstaleiti. Þar eru reist hús án bílastæða vegna kröfu borgaryfirvalda um að allir eigi að hjóla. Í framtíðinni mætti auðveldlega leysa bílastæðavandann með stórum neðanjarðarhvelfingum útvarpshússins.

Vegna þess hve stofnunin er hátimbruð og innhverf nýtast fjármunir þar einstaklega illa til að framleiða gott efni. Forráðamenn skattfjár almennings eiga að nota aðra leið en þessa stofnun til að ná markmiðinu um að fyrir hendi sé frambærilegt, menningarlegt, metnaðarfullt innlent fjölmiðlaefni. Það verður best gert með samkeppnisstyrkjum.