9.9.2019 10:13

Ríkisútvarp, leifar liðins tíma

Ríkisútvarpið er í raun leifar liðins tíma, einskonar holdtekja pólitískrar fyrirgreiðslu, hafta og verðlagseftirlits, í ætt við viðtækjasölu ríkisins úr því að tækniþróun má ekki hafa nein áhrif á stöðu þess.

Dagblöð hafa lagt upp laupana hér á landi og þau sem enn eru prentuð eru svipur hjá sjón miðað við það sem áður var miðað við útbreiðslu og blaðsíðufjölda. Þetta má einkum rekja til tækniþróunar og nýrrar tækni við miðlun frétta og annars efnis.

Til dæmis um breytingar sem orðið hafa má nefna að nú eru engar bíóauglýsingar í Morgunblaðinu. Fyrir ekki svo löngu voru þessar auglýsingar flennistórar, jafnvel á tveimur opnum. Auk þess var rækilega sagt frá efni kvikmynda og birtar umsagnir um þær.

Skýringin á því að kvikmyndahúsaeigendur hafa hætt að auglýsa í blöðum hlýtur að felast í því að þeir hafi aðrar áhrifamiklar leiðir til að nálgast viðskiptavini sína. Þeim þyki ekki borga sig að eiga viðskipti við blöðin.

Ekkert veður hefur verið gert vegna þessa eða annars sem dregið hefur úr auglýsingamagni í blöðum. Enginn hefur heldur hvatt sér hljóðs opinberlega til að krefjast þess að skattgreiðendur bæti blöðunum tapið vegna þessa.

Í Fréttablaðinu í dag (9. september) segir frá því að Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra stefni að því að „taka ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði“ eins og það er orðað. Orðalagið er klassískt þegar ríkisútvarpið á í hlut. Fyrirtækið er eini fjölmiðillinn sem er á grænni grein fjárhagslega vegna nefskatts á alla landsmenn.

1059457Myndin er af mbl.is

Gulltrygging þessara föstu tekna er ekki nóg, áformin um að ríkisfyrirtækið fari af auglýsingamarkaði stranda jafnan á því að þingmenn vilja auka álögur á almenna borgara til að ekki sjái högg á vatni í tekjuöflun ríkisútvarpsins. Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður VG, hafði ekki fyrr séð að Lilja D. Alfreðsdóttir lægi undir feldi vegna auglýsinganna en hann hóf kröfugerð í nafni ríkisútvarpsins. Á Facebook gaf hann til kynna að líf stjórnar Katrínar Jakobsdóttur væri í húfi yrði hróflað við tekjugrunni ríkisútvarpsins.

Fyrsta skrefið til að knýja ríkisútvarpið til skynsamlegs rekstrar er að svipta það pólitíska skjólinu (sem starfsmenn þess segja, þegar þeim hentar, að sé of íþyngjandi) og setja samkeppnisákvæði í lög þess og valdheimildir til að knýja fyrirtækið til að fara að þeim ákvæðum án afskipta stjórnmálamanna.

Hvað hefði Kolbeinn Óttarsson Proppé gert ef ríkisútvarpið hefði átt jafnmikið undir tekjum af bíóauglýsingum og blöðin? Hefði hann krafist þess að skattgreiðendur bættu ríkisútvarpinu upp tjónið af brotthvarfi bíóauglýsinganna?

Ríkisútvarpið er í raun leifar liðins tíma, einskonar holdtekja pólitískrar fyrirgreiðslu, hafta og verðlagseftirlits, í ætt við viðtækjasölu ríkisins úr því að tækniþróun má ekki hafa nein áhrif á stöðu þess.