12.8.2023 10:30

Ríkisstjórnin er ekki á förum

Hvað sem þessu líður standa ráðherrar og stjórnarflokkarnir alltaf frammi fyrir nýjum atvikum og úrlausnarefnum. Þeir standa einnig frammi fyrir fjölmiðlamönnum sem spyrja og tala eins og þeir séu fæddir í gær.

Eftir ríkisstjórnarfund í gær (11. ágúst) er ljóst að ekkert fararsnið er á ráðherrunum. Unnið er að gerð fjárlaga fyrir árið 2024 og lagt er á ráðin um hvernig staðið skuli að mótun stefnu sem auðveldar gerð kjarasamninga sem renna sitt skeið í vetur. Verðbólga lækkar, atvinnuleysi er í lágmarki og ríkissjóður stendur vel. Meginstoðir þjóðarbúskaparins eru styrkar.

Hér var uppákoman fyrr í sumar þegar stór orð féllu um að þreytu gætti í stjórnarherbúðunum kennd við sumarskemmtun stjórnmálamanna. Svandís Svavarsdóttir setti salt í sár innan stjórnarsamstarfsins með gagnrýnisverðri framgöngu við skyndilega frestun hvalveiða (þær kunna að hefjast 1. september).

Hvað sem þessu líður standa ráðherrar og stjórnarflokkarnir alltaf frammi fyrir nýjum atvikum og úrlausnarefnum. Þeir standa einnig frammi fyrir fjölmiðlamönnum sem spyrja og tala eins og þeir séu fæddir í gær.

Screenshot-2023-08-12-at-10.28.26

Nú þegar unnt er að afla sér bakgrunnsupplýsinga um öll málefni líðandi stundar með því að spyrja leitarvélar á netinu er gengið að þeim sem svara á opinberum vettvangi og spurt eins og um nýmæli sé að ræða þegar lengi hefur verið að máli hugað áður en fjölmiðlamaðurinn kveikti á perunni. Þetta á til dæmis við um margt af því sem sagt er um losunargjöld á siglingar svo að skipafélög minnki útblástur og stuðli að minnkun kolefnis í andrúmsloftinu. Að láta eins og ekki hafi verið vitað að hverju stefndi gefur ranga mynd og einnig hitt að íslensk stjórnvöld hafi brugðist rangt við með því að krefjast ekki undanþágu þegar engin sérstök rök voru talin til þess.

Úr þessu verður unnið innan þeirra marka sem fyrir hendi eru. Sömu sögu er að segja um framkvæmd breytinga á útlendingalögunum. Dramatískar fréttir birtast um örlög þriggja kvenna frá Nígeríu eftir að úrskurðað er að þær eigi hvorki rétt á opinberri framfærslu né húsaskjóli vegna þess að þær hafna allri samvinnu við yfirvöld um brottför. Í fréttunum er ósagt að konunum eins og öðrum í þeirra sporum standi til boða styrkur við kaup á flugmiðum og við að koma undir sig fótunum í móttökuríki eftir brottför héðan. Margt bendir til að dramatíkin sé liður í að láta reyna á ný ákvæði í útlendingalögunum með því að kæra ákvörðun lögreglu um að 30 daga umþóttunartími ólöglegra hælisleitenda sé liðinn og því falli opinbera framfærsluskyldan niður.

Þessi mál hafa sinn gang. Alvarlegt er ef ekki tekst að opna farveg fyrir framkvæmdir til að virkja hér enn meira af endurnýjanlegri orku. Vandinn verður ekki leystur til frambúðar með því að fækka í hópi stórra orkukaupenda og banna til dæmis rekstur gagnavera hér eða með því að setja í lög forgangsákvæði í þágu almennra orkunotenda. Tal í þessa veru er aðeins til þess fallið að skjóta sér undan leyfisveitingum til framkvæmda eða fá lengri frest til að sitja yfir vinnu við þær.

Í útlendingamálum og orkumálum hefur of mikið pólitískt vald verið framselt til úrskurðarnefnda sem telja sig hafnar yfir þjóðarhag sem stjórnmálamenn verða að hafa að leiðarljósi. Þetta verður að viðurkenna á pólitískum vettvangi, annars verða ekki stigin nauðsynleg framfaraskref.