25.8.2023 10:22

Ráðherra og Eimskip á sama kúrs

Augljóst er að Eimskip hefur sett sama kúrs og íslensk stjórnvöld í þessu efni. Hvorki utanríkisráðherra né Eimskip hafa hrakist af leið – Parísarskuldbindingarnar eru leiðarljósið.

Í Morgunblaðinu í gær (24. ágúst) birtist grein eftir Stefán S. Guðjónsson, viðskiptafræðing og fyrrv. starfsmann Samtaka inn- og útflytjenda, um að Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra hefði borið af leið við íslenska hagsmunagæslu vegna þess að hún gerði upp á milli millilandaflugs og millilandasiglinga þegar kæmi að fyrirvörum Íslands vegna kvóta á kolefnislosun. Veltir greinarhöfundur fyrir sér hvort afstaða ráðherrans hafi verið rædd í þingflokki sjálfstæðismanna, þetta kerfi losunarheimilda sem eigi að innleiða sé „ekki í anda þeirra gilda sem [Sjálfstæðis]flokkurinn hefur lengst af boðað“. Ráðherrann hafi hrakist af leið og nú þurfi „að rétta kúrsinn“.

Hér er til umræðu angi skuldbindinga sem Íslendingar öxluðu með aðild að Parísarsamkomulaginu um loftslagsmál árið 2015.

Pólitísk samstaða er um að að leita skuli eftir sérlausn vegna loftflutninga til og frá Íslandi en ekki skipaflutninga. Fyrir nokkru taldi Eimskip að þetta jafngilti sex milljarða kr. álögum á skipafélög hér. Talan er enn óstaðfest og óvíst hvernig hún skiptist til dæmis á Eimskip annars vegar og Samskip hins vegar. Ráðherrar hafa margsinnis bent á að um málið verði rætt á þeirra vettvangi og á alþingi þar til endanleg niðurstaða fæst. Þingflokkur sjálfstæðismanna ræðir því málið.

Screenshot-2023-08-25-at-09.36.43Úr uppgjöri Eimskips á öðrum ársfjórðungi 2023. Kynning á aðlögun skipafélagsins að evsrópska viðskiptakerfinu með losunsarheimildir.

Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri Eimskips, fór yfir aðgerðir félagsins til að minnka losun kolefnis í uppgjöri annars ársfjórðungs Eimskips 2023 sem birtist 16. ágúst sl.

Hann segir að skipaflutningar verði hluti af evrópska viðskiptakerfinu með losunarheimildir (e. EU Emissions Trading System, EU ETS) frá og með 2024. Tilgangur og markmið reglugerðarinnar séu „mikilvægur þáttur í því að draga úr losun frá geiranum“. Þá segir forstjórinn:

„Við erum búin að undirbúa okkur fyrir þessa innleiðingu í nokkurn tíma, með það fyrir augum að draga úr losun og tempra þau óhjákvæmilegu áhrif sem reglugerðin mun hafa á flutningskostnað. Á síðustu árum höfum við gripið til ýmissa aðgerða til þess að draga úr losun frá okkar rekstri, svo sem að fjárfesta í nýrri og stærri skipum sem eyða minna eldsneyti en eldri skip, rafvæðingu hafnarkrana, fjárfestingu í landtengingu gámaskipa í Sundahöfn, og aðlaganir í siglingarkerfinu okkar í því skyni að auka skilvirkni í leiðakerfinu og rekstrinum, svo eitthvað sé nefnt. Þær mótvægisaðgerðir sem við erum nú þegar að vinna að innifela m.a. frekari aðlaganir í siglingakerfinu með það að markmiði að draga úr sigldum mílum og eldsneytisnotkun, að draga enn frekar úr siglingarhraða eins og kostur er, að auka skilvirkni í hafnarstarfsemi til þess að stytta viðlegutíma skipa og að halda áfram að skoða möguleika okkar þegar kemur að öðrum orkugjöfum en hefðbundnu jarðefnaeldsneyti. Ef horft er enn lengra fram á veginn, höfum við sett okkur háleit markmið í því að draga enn frekar úr losun með því að fjárfesta í nýjum og enn hagkvæmari skipum, sem vonandi munu ganga fyrir grænum orkugjöfum.”

Augljóst er að Eimskip hefur sett sama kúrs og íslensk stjórnvöld í þessu efni. Hvorki utanríkisráðherra né Eimskip hafa hrakist af leið – Parísarskuldbindingarnar eru leiðarljósið.