28.5.2022 8:50

Ráðherra fer að lögum

Þá minnir Jón Steinar á að við lagasetningu um útlendinga hafi orðið samstaða í þinginu um að láta stjórnsýslustofnanir fjalla um óskir um landvist hér en ekki ráðherra.

Það er í raun til marks um hve grunn fjölmiðlun er hér að ekki skuli skýrt skipulega fyrir almenningi hvaða lagaákvæði snúa að dómsmálaráðherra þegar að brottvísun þeirra sem dveljast hér ólöglega kemur. Í stað þess að skoða grundvöllinn sem löggjafinn hefur sett hefjast upphrópanir, hótanir og meira að segja bölbænir frá prestum. Biskupi Íslands var nóg boðið vegna illmælginnar en hún og vígslubiskupinn á Hólum tala þó eins og ekki beri að virða landslög í þessum málaflokki.

Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður og fyrrv. hæstaréttardómari, hefur í tveimur greinum í Morgunblaðinu í gær og í dag (28. maí) minnt á sama og hér var gert að lög frá 2016 mæli fyrir um að sérstakar stjórnsýslustofnanir afgreiði beiðnir útlendinga um landvist og búsetu hér. Þar fari kærunefnd útlendingamála með vald á áfrýjunarstigi. Henni beri auðvitað að starfa eftir íslenskum lögum. Nú hafi hún synjað allmörgum útlendingum um leyfi til að setjast hér að. Ráðist sé á dómsmálaráðherrann sem ekki hafi tekið þessar umdeildu ákvarðanir, heldur segist aðeins vilja fara að lögum landsins og framfylgja þeim ákvörðunum sem rétt stjórnvöld hafi tekið. Hann sæti nú hreinum ofsóknum. Þar gangi m.a. fast fram alþingismenn, sem sumir hverjir tóku þátt í lagasetningunni. Biskup Íslands og a.m.k. einn hempuklæddur orðafeykir taki þátt í árásunum.

DSC05010_original.width-720Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra (mynd Kjarninn).

Þá minnir Jón Steinar á að við lagasetningu um útlendinga hafi orðið samstaða í þinginu um að láta stjórnsýslustofnanir fjalla um óskir um landvist hér en ekki ráðherra. Dómsmálaráðherra hafi ekki vald til að taka yfir ákvarðanir um mál þessa fólks, nema breytt lög komi til. Heimild til að leggja fram lagafrumvörp sé í höndum alþingismanna, meðal annarra þeirra sem hæst láti um þessar mundir.

Þá spyr Jón Steinar Gunnlaugsson:

„Er það ekki dálítið dæmigert að sumir stjórnmálamenn séu fyrst, meðan fjallað er almennt um skipan þessara mála, sammála um að ráðherra skuli ekki hafa þetta vald í höndum, en ráðast síðan á hann við fyrsta tækifæri fyrir að beita ekki því valdi sem hann hefur ekki?“

Þetta er réttmæt spurning hjá lögmanninum. Dæmigert er fyrir upphrópana-umræðuna hér þegar þingmenn í stjórnarandstöðu og hlutdrægir fjölmiðlamenn taka höndum saman að þá ber lykilspurningar sem þessi aldrei hátt. Látið er eins og taka verði á málum í tilfinningaflóði sem magnað er á líðandi stund. Þar á einfaldlega allt undan að láta.

„Það er stundum átakanlegt að fylgjast með menningarstiginu sem birtist í almennum umræðum á Íslandi um málefni þjóðfélagsins,“ segir Jón Steinar Gunnlaugsson í annarri greina sinna. Undir þessi orð skal tekið eins og annað sem hann segir til upplýsinga fyrir lesendur Morgunblaðsins og alla landsmenn um þetta viðkvæma málefni.

Liður í blekkingum vegna útlendingamála er að telja Íslendingum trú um að hér sé meiri hörku beitt á þessu sviði en annars staðar. Það stenst ekki. Nú liggur fyrir þingi frumvarp sem minnkar bilið gagnvart öðrum.