10.6.2022 10:35

Ráðalaus án Europol

Á alþingi er öflugur hópur þingmanna sem leggst markvisst gegn öllum tilraunum dómsmálaráðherra til að skapa almennum borgurum hér á landi sambærilegt öryggi og ríkir í öðrum löndum.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu boðaði til blaðamannafundar í gær (9. júní) og greindi frá niðurstöðum í umfangsmikilli rannsókn á skipulagðri glæpastarfsemi þar sem milljarðar lágu undir í tveimur fíkniefnamálum og peningaþvætti.

Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn sagði að önnur rannsóknin hefði hafist fyrir 18 mánuðum. Fékk lögregla um mitt ár 2020 upplýsingar frá tengslaskrifstofu Íslands hjá Europol sem Frakkar höfðu aflað úr dulkóðuðum glæpasamskiptum.

Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, telur skipulagða glæpastarfsemi einhverja mestu ógn sem nú steðjar að samfélögunum. Europol, evrópska lögreglan, segði þessa starfsemi jafnvel ógna lýðræðinu af miklum fjármunum hennar leiddi mútur og spilling.

Hulda Elsa Björgvinsdóttir, sviðsstjóri ákærusviðs höfuðborgarlögreglunnar, sagði embætti sitt og lögregluna almennt búa við of þröng lagaákvæði til að standa jafnfætis samstarfsaðilum í Evrópu. Á þetta við um meðferð rannsóknargagna, lengd gæsluvarðhalds og rannsóknarheimildir.

Lögregluyfirvöld hafa árum saman talað fyrir daufum eyrum löggjafans þegar vakið er máls á þessum atriðum. Ætla mætti að á sama tíma og lögfestar eru reglur um hert eftirlit með lögreglu yrðu heimildir hennar til rannsókna rýmkaðar til samræmis við það sem gerist í evrópskum samstarfslöndum.

Spoilers_3_1654857310080Glæpamenn hafa her lögmanna sér til stuðnings. Þeir hafa vakandi auga með öllu sem kann að opna glufu til að stunda ólögmæta starfsemi án mikillar áhættu í einhverju landi. Óttist lögregla eða ákæruvald í einu landi að miðlun upplýsinga til annars lands verði til þess að lög þar verði til að efni gagnanna rati inn í glæpahringinn er viðkomandi land einfaldlega strikað út af samstarfslistanum. Þar með er dregið úr öryggi þeirra sem í landinu búa.

Á alþingi er öflugur hópur þingmanna sem leggst markvisst gegn öllum tilraunum dómsmálaráðherra til að skapa almennum borgurum hér á landi sambærilegt öryggi og ríkir í öðrum löndum. Þetta birtist á ótvíræðan hátt í umræðum um útlendingamál en rannsóknir Europol sýna að það sé ef til vill meiri hagnaður af skipulagðri glæpastarfsemi sem snýst um smygl á fólki en fíkniefnum.

Í sáttaskyni við þinglok dró Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra til baka stjórnarfrumvarp um breytingar á útlendingalögunum. Þingmenn Pírata, Samfylkingar og Viðreisnar hafa notað fáheyrð stóryrði um frumvarpið og telja sig tala í nafni mannúðar.

Þeir sem vilja að gæsluvarðhaldstími hér sé styttri en erlendis, að miðlun rannsóknargagna sé meiri hér en erlendis og að rannsóknarheimildir lögreglu séu minni en erlendis segjast tala í nafni mannréttinda ef ekki mannúðar.

Það er löngu tímabært að umræður um samfélagslegt öryggi komist á nýtt stig á alþingi og í fjölmiðlum. Væri íslenska lögreglan ekki í Europol stæði hún ráðalaus gagnvart þeim ósköpum sem upplýst var um í gær.

Tafarlaust á senda tengslafulltrúa ákæruvaldsins til Eurojust, samstarfsvettvangs saksóknara, og færa sakamálalög til samræmis við það sem annars staðar er.