9.3.2022 9:31

Pútinstríðið, Ögmundur og NATO

Innan raða vinstri-grænna verða menn að gera upp við sig hvort ekkert hafi breyst frá 1999 í alþjóðamálum sem hrófli við öryggismálastefnu flokksins.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra hefur lagt ríka áherslu á samráð við utanríkismálanefnd alþingis og þingheim allan vegna Úkraínustríðsins. Hún flutti þinginu til dæmis í annað sinn munnlega skýrslu um málið mánudaginn 7. mars.

Þetta er lofsvert og til þess fallið að treysta pólitíska samsöðu sem er mikil á þingi, algjör þegar litið er til stuðnings við málstað Úkraínumanna og andstöðu við Rússa en tekur á sig flokkspólitískari blæ þegar kemur að NATO og Evrópusambandinu. Þá krafðist þingmaður Flokks fólksins, Guðmundur Ingi Kristinsson, þess að sendiherra Rússlands á Íslandi yrði rekinn úr landi.

Ögmundur Jónasson, fyrrv. þingmaður og ráðherra vinstri-grænna, skrifar grein í Fréttablaðið og skammar sinn gamla flokk og segir að með afstöðunni sem hann mótar undir forystu Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra sé „í reynd verið að hverfa frá grundvallar stefnumarkmiði Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs frá stofnun flokksins ... afdráttarlausri andstöðu við veru Íslands í hernaðarbandalaginu NATÓ, hvað þá við hernaðaruppbyggingu á Íslandi, árásarþotur og setulið í landinu“.

Þarna vitnar Ögmundur til þess sem sagt var 1999 og fer raunar miklu lengra aftur þegar hann rifjar upp og gerir að sínu gamla kalda-stríðs-slagorðið: Ísland úr NATO. Herinn burt! og segir það sígilt!

Bigstock-the-national-flags-of-ukraine-194660620-990x556Meðal umdeildustu ákvarðana í 73 ára sögu NATO var tekin snemma árs 2011 þegar Ögmundur var nýorðinn innanríkisráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Í mars 2011 fór NATO fyrir stríði gegn Gaddafi einræðisherra í Líbíu. Ákvörðun um þessar stríðsaðgerðir var tekin með samþykki ríkisstjórnar Íslands þar sem Ögmundur sat sem fastast hvað sem á dundi eftir að hann yfirgaf stjórnina áður um nokkurra mánaða skeið vegna Icesave-málsins.

Í upphafi árs sendi Ögmundur frá sér bókina Rauði þráðurinn. Þar geta lesendur kynnst uppgjöri hans við sjálfan sig vegna umdeildra ákvarðana sem hann studdi á stjórnmálaferli sínum. Hann skautar þó fram hjá aðild sinni og ábyrgð á ákvörðunum um Líbíu-málið, agnúast út í Varðberg eins og það hafi þar átt hlut að máli og segir að það sé vegna áróðurs sem runninn sé „undan rifjum hergagnaiðnaðarins“ sem til stríðsátaka komi. Grein hans í Fréttablaðinu í dag er í þessum sérkennilega dúr þótt allir viti um rök Pútins og að NATO heldur nú að sér höndum og hafnar öllum óskum um að lýsa yfir flugbanni í lofthelgi Úkraínu, slíku banni var lýst í lofthelgi Líbíu á sínum tíma.

Innan raða vinstri-grænna verða menn að gera upp við sig hvort ekkert hafi breyst frá 1999 í alþjóðamálum sem hrófli við öryggismálastefnu flokksins. Nú halda flokkar á borð við Linke, arftaka gamla kommúnistaflokksins í A-Þýskalandi enn fast í kalda-stríðs-andstöðu við NATO.

Vegna ítrekaðra fullyrðinga prófessors í alþjóðastjórnmálum á Akureyri um að Úkraínumenn væru betur settir hefðu þeir einskorðað sig við áhuga á ESB-aðild í stað NATO-aðildar skal minnt á að mótmælin sem hófust í Kíyv fyrir áramót 2013 og leiddu til falls ríkisstjórnar Rússa-vina í Úkraínu snemma árs 2014 mátti rekja til andstöðu Pútins við nánari tengsl Úkraínumanna við ESB. Stjórnarkreppan í Kyív varð átylla fyrir Pútin til að innlima Krím og styðja aðskilnaðarsinna í austurhluta Úkraínu í mars 2014. Stríðið nú hóf Pútin til að fullkomna ódæðið frá 2014.