22.3.2022 10:10

Pútin vill ekki semja

Taldi Henry Kissinger sig hafa lausn á Úkraínudeilunni sem þá var. Ekkert var gert með hugmynd hans þá þótt hún sé rædd núna.

Eftir að Emmanuel Macron Frakklandsforseti sat við langa borðið andspænis Vladimir Pútin í Moskvu fyrir innrás Pútins í Úkraínu fór sá orðrómur á kreik að þeir hefðu rætt að Úkraína fengi svipaða stöðu gagnvart Rússlandi og Finnland hafði gagnvart Sovétríkjunum í kalda stríðinu. Þá varð til hugtakið „finnlandiséring“.

Í Der Spiegel var þessi hugmynd borin undir Sauli Niinistö Finnlandsforseta sem sagðist hvers vegna Úkraína væri sett í þetta samhengi. Í eyrum Finna hljómaði finnlandiséring „mjög illa“. Á áttunda áratugnum hefðu margir finnskir stjórnmálamenn talið „sér til framdráttar að sýna Sovétmönnum sérstakan skilning og undirgefni – ef til vill meiri en Sovétmenn sjálfir vildu“. Taldi forsetinn „fullkomlega rangt að nota þetta sem fordæmi fyrir annað land“.

Raunar er ekki mjög frumlegt að setja Úkraínu í þetta samhengi, meira að segja sjálfur Henry Kissinger gerði það í grein eftir að Rússar innlimuðu Krím 2014. Taldi Kissinger sig hafa lausn á deilunni sem þá var. Ekkert var gert með hugmynd hans þá þótt hún sé rædd núna.

Í lesandabréfi til The Financial Times sem birtist 28. febrúar 2022 vitnuðu Owen lávarður, utanríkisráðherra Breta 1977-79, Nina Krústjeva og fleiri í þessa gömlu grein Kissingers. Þau sögðu finnlandiséringu ekki koma til greina en hins vegar ætti að NATO í náinni samvinnu við Úkraínumenn að leggja fram nákvæmar tillögur að samningi við Rússa.

Lesandabréfið og hugurinn á bak við það hefur hljómgrunn víða en þó alls ekki í Kreml þaðan sem fyrirmælin eru gefin um að gjöreyða úkraínsku hafnarborginni Mariupol og breyta henni í minnisvarða um stríðsglæpi og gjöreyðingaræði. Það er raunveruleiki samtímans en ekki gamlar blaðagreinar.

5170b9d766d1e692aa0497b2e041c0c9Fulltrúar Úkraínumanna og Rússa hafa hist á árangurslausum samningafundum. Rússar hafg hvað eftir annað haft fyrirheit um öryggi á flóttaleiðum almennra borgara að engu.

Þegar Kissinger ritaði grein sína vakti ekki aðeins fyrir honum að finna lausn milli Rússa og Úkraínumanna við landamæri þjóðanna heldur einnig innan Úkraínu af ótta við að þar yrði borgarastríð milli fólks af úkraínskum uppruna annars vegar og rússneskum hins vegar.

Margt bendir til að Pútin hafi nú veðjað á að til slíkra átaka kæmi og þau myndu auðvelda honum að leggja Úkraínu undir sig og láta myrða Volodymyr Zelenskíj forseta.

Ekkert slíkt hefur gerst. Það tóku engir í Úkraínu á móti Rússum með blómum. Þvert á móti sameinaðist öll þjóðin gegn innrásarliðinu sem greip til útrýmingaraðgerða. Pútin segist í öðru orðinu vilja semja en í hinu gefur hann fyrirmæli um fjöldamorð.

Vilji Pútins stendur til þess að skipta Evrópu í áhrifasvæði og endurreisa Rússland sem stórveldi á þann hátt. Í þeim tilgangi afflytur hann og rangtúlkar ummæli sem féllu við sameiningu Þýskalands. Þorsteinn Sæmundsson stjörnufræðingur bendir á staðreyndir þess máls í Morgunblaðinu í dag (22. mars).

Áhrifasvæðastefna Pútins gerir ráð fyrir að fullveldi ríkja sé takmarkað af vilja stórveldis. NATO hefur aldrei samþykkt þá stefnu. Bandalagið er opið þjóðum sem æskja aðildar og fullnægja settum skilyrðum.