22.9.2022 11:25

Pútin sekkur sífellt dýpra

Með friðsamlegri för sinni til Kharkiv færir Birgir Þórarinsson árangur Úkraínumanna í stríðinu nær okkur Íslendingum. Hann er eins og sífellt fleiri hugdjarfir einstaklingar ögrun við Pútin.

Í Morgunblaðinu í dag segir frá því að Birgir Þórarinsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem fór nýlega á eigin vegum til Kharkiv í Úkraínu með 50 spjaldtölvur og færði grunnskólabörnum, hafi líklega verið fyrsti erlendi þingmaðurinn sem heimsótti stríðshrjáðra borginna eftir að Vladimir Pútin sendi her sinn inn í Úkraínu fyrir tæpum sjö mánuðum.

Kharkiv er næststærsta borg Úkraínu og aðeins í 40 km fjarlægð frá Rússlandi eða eins og frá Reykjavík að Kambabrún. Rússneska hernámsliðið tók borgina á fyrstu dögum stríðsins en Úkraínuher hefur nú endurheimt hana. Í borginni bjuggu um tvær milljónir manna en nú er talið að þar séu um 800 þúsund manns.

G6E1801TP.1_1294497Þessi mynd birtist í Morgunblaðinu 22. september 2022 og sýnir Birgir Þórarinsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins, nýlega í Kharkiv í Úkraínu þar sem hann afhenti fátækum skólabörnum spjaldtölvur.

Með stuðningi frá byggingafyrirtækinu Reir í Reykjavík keypti Birgir 50 spjaldtölvur og fór með þær til Kharkiv með aðstoðu Maríu Mezentseva þingkonu í Úkraínu. Dreifðu þau tölvunum til heimila fátækra barna en það þótti of hættulegt að kalla þau saman í skóla til að taka við gjöfinni.

Frásögnin af ferð Birgis er ekki aðeins til marks um hve einstaklingur fær áorkað sem að eigin frumkvæði og dugnaði leggur stríðshrjáðri þjóð lið heldur einnig „áþreifanlegur“ vitnisburður um breytingarnar sem orðið hafa á undanförnum vikum í Úkraínu vegna vel heppnaðrar sóknar hers Úkraínu og markvissrar baráttu fyrir að ná landinu úr greipum Rússa.

Herfræðingum og fréttaskýrendum ber saman um að sjónvarpsávarpið sem Vladimir Pútin Rússlandsforseti flutti í gærmorgun (21. september) hafi ekki sýnt sigurvissan mann heldur herstjóra á barmi örvæntingar. Forsetinn ætlar að kalla út 300.000 varaliða í nafni takmarkaðrar herkvaðningar og skekur kjarnavopn sín með þeim lygum að ráðist sé að Rússum að vestan undir fána NATO í því skyni að hneppa rússnesku þjóðina í þrældóm.

Hvorugt er líklegt til að snúa gangi stríðsins honum í vil.

Alla Pugastjova (73 ára), þekktasta kona Rússlands, goðsöguleg söngkona sem lýst er sem blöndu af Tinu Turner og Edith Piaf bað sunnudaginn 18. september á samfélagssíðunni Instagram um að rússnesk yfirvöld settu sig á lista yfir „erlenda útsendara“ svo að hún fengi þar sæti við hlið ástkærs eiginmanns síns er á listanum m.a. fyrir að hafa tekið þátt í viðburðum til stuðnings Úkraínu. Pugastjova sagði jafnframt að Rússland væri nú á bekk með helstu úrhraksríkjum heims.

Þótt Instagram-síðan sé lokuð í Rússlandi og Pugastjova sé utan Rússlands fer afstaða hennar eins og eldur um sinu í Rússlandi og grefur undan Pútin. Hann slekkur ekki þann eld með kjarnorkuvopnum eða útkalli varaliða.

Hvert sem litið er lokast útgönguleiðir Pútins. Hann er fangi stríðsglæpanna og á framtíð sína undir stuðningi öfgamanna sem njóta enn minni vinsælda á heimavelli eða virðingar út á við.

Rússneskri lögreglu er sigað á þá sem mótmæla herkvaðningunni. Straumur Rússa að landamærum nágrannaríkja magnast.

Með friðsamlegri för sinni til Kharkiv færir Birgir Þórarinsson árangur Úkraínumanna í stríðinu nær okkur Íslendingum. Hann er eins og sífellt fleiri hugdjarfir einstaklingar ögrun við Pútin.