1.8.2023 10:05

Prígósjín ögrar Pútín

Í tengslum við Afríkufundinn birtist svartur senuþjófur í St. Pétursborg, í stuttermabol og gallabuxum, sjálfur Jevgeníj Prígosjín.

Valdabaráttunni sem ógnar Vladimir Pútin Rússlandsforseta er ekki lokið. Jevgeníj Prígósjín og Wagner-málaliðar hans sem gerðu valdaránstilraunina 23. júní grafa enn undan Pútín. Forsetinn stjórnar tæplega atburðarásinni.

Hefði Pútín öll tök á framvindu mála hefði hann ekki veitt Prígósjín og mönnum hans sakaruppgjöf og hæli í Belarús í skjóli síðasta einræðisherra Evrópu, Alexanders Lúkasjenkós. Nú er ljóst að Prígósjín notar hvert tækifæri sem gefst til að árétta hve Pútín stendur höllum fæti.

Þetta gerðist til dæmis í fyrri viku þegar Pútín boðaði leiðtoga Afríkuríkja til fundar við sig í St. Pétursborg. Þegar Pútín hélt sambærilegan fund árið 2019 sóttu hann 43 leiðtogar frá Afríku, nú voru þeir aðeins 17. Þeir sem komu voru ekki allir ánægðir með Pútín, nokkrir hvöttu hann til að hætta Úkraínustríðinu aðrir vildu að hann heimilaði Úkraínumönnum kornsölu.

Vangaveltur eru um hve miklum fjármunum Pútín varði til að halda þennan fund sinn. Engu var til sparað í mat, drykk og skemmtunum.

Roscongress annaðist framkvæmdina og eftir heimildarmanni þar er haft að þriðjungur gesta úr sex sendinefndum hafi aldrei sótt ráðstefnuskírteini sín, þeir hefðu frekar kosið að njóta borgarlífsins, annaðhvort vegna þess að þeir sættu sig ekki við að þurfa að fara í COVID-próf eða vegna þess að þeir völdu skemmtanalífið frekar en fundina.

Pútín bauð ekki aðeins til veislu heldur gaf hann einnig góðar gjafir. Hann lofaði að senda 25.000 til 50.000 tonn af hveiti til Búrkína Fasó, Mið-Afríkulýðveldisins, Eritreu, Malí, Sómalí og Zimbabwe. Hann afskrifaði skuldir Sómalíu og gaf Zimbabwe þyrlu fyrir forseta landsins.

PrigoÁ myndinni heilsar Prígósjín Freddy Mapouka, siðameistara (prótókollstjóra) forseta Mið-Afríkulýðveldisins.

Í tengslum við fundinn birtist svartur senuþjófur í St. Pétursborg, í stuttermabol og gallabuxum, sjálfur Jevgeníj Prígosjín. Hann lét taka mynd af sér í Trezzini Palace-hótelinu sem er hluti af Wagner-samsteypunni. Á myndinni heilsar Prígósjín Freddy Mapouka, siðameistara (prótókollstjóra) forseta Mið-Afríkulýðveldisins. Almannatengill Wagner-samsteypu Prígósjíns sendi myndina um heim allan.

Roscongress segir að Prígósjín hafi ekki verið skráður á ráðstefnuna. Með myndinni hafi verið gefið til kynna að málaliðaforinginn hefði meiri ítök gagnvart Afríkumönnum en raun væri.

Hvað sem því leið efndi herinn í Afríkuríkinu Níger til valdaráns á meðan Pútín hélt ráðstefnu sína. Þar var veifað rússneskum fánum og Z-merki stríðsreksturs Pútíns. Prígósjín lét skína í ítök sín í Níger til að minna Pútín á hver hefði undirtökin þar. Á Telegram-samfélagsmiðlinum birtust myndir sem sýndu stuðningsmenn Níger-valdaræningjanna í Mið-Afríkulýðveldinu og Malí þakka Wagner-málaliðunum fyrir „að berjast gegn hryðjuverkum og koma á öryggi í löndum sínum“.

Gangi Prígósjín lausum hala í St. Pétursborg og Kremlverjar eigi allt undir honum og málaliðum hans í Afríku er styrkur hans meiri en hollt er fyrir virðingu og völd Pútíns. Rússlandsforseti stendur völtum fótum. Drónaárásir á Moskvu minnka enn traust til hans.