17.3.2024 10:25

Óvissan um næsta forseta

Það er ekki síður vandasamt að velja réttu stundina til að hætta sem forseti en til að bjóða sig fram til embættisins.

Halla Tómasdóttir tilkynnir væntanlega á blaðamannafundi í dag (17. mars) að hún ætli að bjóða sig fram til forseta Íslands. Varla er boðaður blaðamannafundur til að lýsa yfir að maður sé ekki í framboði nema eftirspurnin sé þeim mun meiri og ástæða sé til að slá rösklega á hana í eitt skipti fyrir öll.

Halla valdi þennan sama dag, 17. mars, til að tilkynna framboð sitt árið 2016 þegar hún fékk næstflest atkvæði á eftir Guðna Th. Jóhannessyni sem bauð sig ekki fram fyrr en 5. maí. Þá var kjördagur 25. júní en hefur nú verið fluttur fram til 1. júní. Árið 2016 var framboðsfrestur til 21. maí en í ár er hann til 26. apríl.

Í nýársávarpi 2016 lýsti Ólafur Ragnar Grímsson yfir að hann byði sig ekki fram að nýju þá um sumarið. Hann tilkynnti hins vegar á blaðamannafundi á Bessastöðum 18. apríl 2016 að hann hefði skipt um skoðun og yrði í framboði í sjötta skiptið. Vísaði hann sérstaklega til óvissuástands í íslenskum stjórnmálum eftir óvænta afsögn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra.

Eins og áður sagði bauð Guðni Th. sig fram 5. maí. Í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni 8. maí lýsti Davíð Oddsson, ritstjóri og fyrrverandi forsætisráðherra, yfir framboði sínu.

Við svo búið skipti Ólafur Ragnar á ný um skoðun 9. maí og hætti við framboð sitt. Sagði hann þjóðina nú eiga kost á að velja frambjóðendur sem hefðu umfangsmikla þekkingu á eðli, sögu og verkefnum forsetaembættisins. Fram væru komnir tveir, sterkir frambjóðendur. Guðni Th. mældist með tæp 60% fylgi í könnun sem birt var sama dag en Ólafur með rúm 25%.

Í kosningunum 25. júní 2016 hlaut Guðni Th. 39,1% og Halla Tómasdóttir var í öðru sæti með 27,9%. Alls fengu níu frambjóðendur atkvæði í kosningunum árið 2016.

1053821Sautjándi júní á Austurvelli, Guðni Th. Jóhannesson og Katrín Jakobsdóttir (mynd: mbl/Kristinn Magnússon).

Í ferlinu núna við val á forsetaframbjóðendum var nafn Ólafs Jóhanns Ólafssonar, athafnamanns og rithöfundar, nefnt og hann hugsaði málið en gaf framboð frá sér.

Baldur Þórhallsson prófessor ætlar á næstu dögum að tilkynna ákvörðun sína. Þá segist Jón Gnarr, skemmtikrafur og fyrrv. borgarstjóri, íhuga málið. Sömu sögu er að segja um Salvöru Nordal, umboðsmann barna.

Ólíklegt er að nokkrum hafi þótt mikill sannfæringarkraftur í svari Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra á alþingi 4. mars. Hún sagðist þá ekki hafa „leitt hugann að slíku framboði“ þegar hún var spurð um forsetaframboð.

Miðað við sveiflurnar í afstöðu Ólafs Ragnars til framboðs vorið 2016 gæti Guðni Th. enn hætt við að hætta. Þá bar Ólafur Ragnar fyrir sig óvissu vegna afsagnar Sigmundar Davíðs forsætisráðherra nú kynni Guðni Th. að telja sig valda óvissu með því að ýta undir afsögn forsætisráðherra með brotthvarfi sínu á Bessastöðum. Yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar lýsir stuðningi við sitjandi forseta nú öfugt við það sem var í maí 2016.

Það er ekki síður vandasamt að velja réttu stundina til að hætta sem forseti en til að bjóða sig fram til embættisins.