6.1.2022 11:23

Orð vega þungt

Macron notaði dónalega orðið ekki fyrir tilviljun heldur til að koma boðskap sínum rækilega til skila. Allt fór á annan endann.

Í ríkissjónvarpinu miðvikudaginn 5. janúar var fyrsti þáttur af þremur undir heitinu: Stolin list. Í kynningu segir að þetta sé grísk-íslensk heimildarþáttaröð um hverjir séu réttmætir eigendur menningarlegra listmuna. Hornsteinar menningar margra fyrrum nýlenduþjóða séu til sýnis í söfnum fyrrum nýlenduherra og það krefjist í flestum tilvikum langrar baráttu að endurheimta munina. Þorkell S. Harðarson og Örn Marinó Arnarson leikstýra þáttunum.

Þarna er tekið fyrir verðugt en margflókið viðfangsefni. Í fyrsta þættinum var meðal annars rætt við Guðrúnu Nordal, forstjóra Árnastofnunar, sem gerði glögga grein fyrir handritamálinu og þá voru sýndar myndir frá komu handritanna hingað til lands árið 1971. Sá meinlegi galli var á handriti þeirra sem myndina gerðu að Íslandi var lýst sem „nýlendu“ Dana. Hvort það var gert til að fella mætti handritamálið inn undir lýsinguna á þáttaröðinni sem birtist í kynningu hennar eða af vanþekkingu skal ósagt látið. Hitt er staðreynd að hvorki Danir né Íslendingar telja Ísland hafa verið nýlendu Dana, Ísland var biland eða hjálenda.

Notkun orða og hugtaka skiptir miklu þegar sagan er sögð. Vafalaust verður þessi þáttaröð sýnd víða vegna ágætis hennar og áhuga á viðfangsefninu. Er miður að hún gefi ranga mynd af því hver var staða Íslands innan danska ríkisins.

IMG_4472Forsíða Le Figaro fimmtudaginn 6. janúar 2022. Við hliðina á myndinni af Emmanuel Macron stendur: Blásið til átaka.

Í stjórnmálum getur eitt orð ráðamanns valdið uppnámi. Það gerðist í Frakklandi í byrjun vikunnar. Emmanuel Macron Frakklandsforseti er eindreginn talsmaður bólusetninga gegn COVID-19. Með væntanlegar forsetakosningar í huga tók hann meðvitaða áhættu í blaðaviðtali 4. janúar 2022 þegar hann notaði sögnina emmerder um það sem hann vildi gera við þá í Frakklandi sem neita að fara í bólusetningu. Sögnin jaðrar við blótsyrði og má lýsa viðhorfinu sem í henni birtist með íslensku orðunum að gefa skít í einhvern. Í samhengi orða forsetans sagðist hann ætla að nauða í óbólusettum þar til þeir létu sprauta sig.

Macron notaði dónalega orðið ekki fyrir tilviljun heldur til að koma boðskap sínum rækilega til skila. Allt fór á annan endann. Það varð að gera hlé á þingumræðum um frumvarp varðandi varnir gegn veirunni: Forseti Frakklands gæti ekki lagst svona lágt með grófu tali og kaldhæðni. Hann væri fulltrúi allra Frakka og ætti ekki að lítillækka þá sem færu ekki að vilja hans.

Macron veðjar hins vegar á stuðning meirihlutans við sjónarmið sitt og hefur auga á forsetakosningunum í apríl.

Rúmlega 77% Frakka og 92% þeirra sem eru 12 ára og eldri hafa að minnsta kosti verið bólusettir tvisvar gegn COVID. Almennt er litið þannig á að þetta sé óvenjulega góður árangur við bólusetningu meðal þjóðar sem sýndi fyrir einu ári hvað mesta tortryggni þegar bóluefni bar á góma. Macron veit af almennri reiði í garð óbólusettra vegna þess hve hátt hlutfall þeirra þurfa á sjúkrahúsvist að halda vegna veirunnar og taka þar með takmarkað hjúkrunarrými frá öðrum.

Smitvarnirnar verða sífellt pólitískari hvort sem menn vilja auka þær eða minnka. Það er vandasamara að ná sátt um leið út úr sóttarhöftunum en inn í þau sem minnir aðeins á reynslu okkar Íslendinga af gjaldeyrishöftum.