15.4.2019 10:08

Opinn fjarskiptamarkaður gagnast neytendum

Fjölbreytni og samkeppni í síma- og fjarskiptaþjónustu ræðst af því að þar njóta einkaaðilar sín eftir að landssíminn var seldur.

Fyrir nokkrum dögum vék maður sér að mér á förnum vegi og tók að býsnast yfir skoðun minni á þriðja orkupakkanum. Hann sagði eitthvað á þá leið að álíka vitlaust væri að innleiða þennan pakka og það hefði verið á sínum tíma að innleiða símatilskipunina sem leiddi til þess að við urðum hluti af sameiginlegum síma- og gagnaflutningamarkaði.

Data-Roaming-FeaturedÞegar ég maldaði í móinn og sagði það mikla búbót fyrir okkur Íslendinga eins og aðra að allt EES-svæðið væri eitt síma- og gagnaflutningasvæði. Hann hélt nú ekki, hér yrðu símafyrirtæki að stofna til miklu meiri kostnaðar en sambærileg fyrirtæki erlendis vegna dreifbýlis og fámennis. Við ættum ekkert erindi inn á þennan sameiginlega markað, yrðum að hafa algjört sjálfdæmi.

Símafyrirtæki bjóða misdýra þjónustu þótt grunnhindrunum hafi verið ýtt til hliðar í þágu sameiginlega markaðarins og hann kemur ekki í veg fyrir ljósleiðaravæðinguna um land allt með opinberum stuðningi. Við ráðum okkar kerfum sjálf og fjarskiptastrengjum í sjó en án þeirra hefði öll upplýsingatæknivæðing stöðvast á einhverju stigi.

Fjölbreytni og samkeppni í síma- og fjarskiptaþjónustu ræðst af því að þar njóta einkaaðilar sín eftir að landssíminn var seldur. Rekstur ríkisútvarps er hluti fortíðar á þessum markaði. Í stað þess að láta tæpa fimm milljarða af skattfé renna til þess bákns ætti að nota opinbert fé til að styðja efnisveitur við framleiðslu á innlendu efni til miðlunar í nýjum, öflugum dreifikerfum.

Umræðurnar í tilefni af þriðja orkupakkanum taka nú á sig réttan svip. Annars vegar gera menn sér grein fyrir hvað þarf að innleiða til að við stöndum við skuldbindingar íslenska ríkisins vegna EES hins vegar beinist athygli að innlenda orkumarkaðnum, eignarhaldi á orkufyrirtækjum og hvort og hvernig skuli tengjast umheiminum með sæstreng.

Þessi skil í umræðunum birtast til dæmis í grein sem Elías Bjarni Elíasson og Svanur Guðmundsson skrifa í Morgunblaðið í dag (15. apríl). Báðir lögðust þeir gegn innleiðingu þriðja orkupakkans áður en afmörkun milli hans og innlendrar orku- og auðlindastýringar lágu fyrir með samþykkt ríkisstjórnarinnar 22. mars.

Að halda öllu málinu áfram á gráu svæði virðist gert til að hallmæla EES, grafa undan trú á stjórnmálamönnum og hræða með röngum fullyrðingum um ofurvald Brusselmanna yfir íslenskum orkulindum. Í ljós kemur að þörf er á mun víðtækari umræðu um þennan þátt íslenskra auðlinda- og orkumála en fram hafa farið. Til þeirra á að stofna að frumkvæði stjórnvalda án þess að þriðji orkupakkinn sé notaður sem gísl.