20.5.2021 10:19

Öldur lægðar í Reykjavík

Blinken og Lavrov eru ekki í Reykjavík til að kveikja elda heldur slökkva þá. Þeir búa í haginn fyrir fund Bidens og Pútins.

Það er líklega ekki tilviljun að sama dag og þeir hittust í fyrsta sinn á fundi utanríkisráðherrarnir Antony Blinken og Sergeij Lavrov skuli fréttir berast um að bandaríska utanríkisráðuneytið undir stjórn Blinkens vilji falla frá refsiaðgerðum sem Trump-stjórnin greip til í því skyni að hindra lagningu Nord Stream 2 hafsbotns-gasleiðslunnar frá Rússlandi til Þýskalands.

Að kvöldi miðvikudags 19. maí hittust utanríkisráðherrarnir í Hörpu og fyrr sama dag var sagt frá því að Biden-stjórnin í Bandaríkjunum ætlaði að létta banni af fyrirtækinu sem stefndur að lagningu leiðslunnar og forstjóra þess, Matthias Warning, fyrrverandi njósnaforingja stjórnar kommúnista í Austur-Þýskalandi, þar sem Vladimir Pútin Rússlandsforseti þjónaði fyrir rússnesku öryggislögregluna KGB fram til þess að Berlínarmúrinn féll 1989.

Lagning gasleiðslunnar er Pútin ekki aðeins persónulegt metnaðarmál heldur vill hann einnig nota hana til að styrkja geopólitíska stöðu sína með ítökum í evrópskum orkumálum.

Biden og Blinken blíðkuðu ekki aðeins Pútin og Lavrov með ákvörðun sinni heldur segir Blinken að til þessara ráða hafi verið gripið til að þétta raðir með ríkisstjórn Angelu Merkel í Þýskalandi og styrkja samstöðu NATO-ríkjanna í Evrópu.

_118580012_epaAntony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Sergeij Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, hittast í fyrsta sinn í Hörpu 19. maí 2021.

Ákvörðun eins og þessi er ekki tekin í tómarúmi heldur ber að setja hana í miklu stærra samhengi og þar á meðal við utanríkisráðherrafund Norðurskautsráðsins sem haldinn er hér í Reykjavík í dag (20. maí). Dmitríj Peskov. talsmaður Pútins, sagði að fréttir um að Bandaríkjastjórn ætlaði að aflétta banni á leiðsluna væru „jákvætt merki“.

Daginn fyrir sambærilegan ráðherrafund í Rovaniemi i Finnlandi olli Mike Pompeo, þáv. utanríkisráðherra Bandaríkjanna, töluverðu uppnámi með ræðu þar sem hann sagði Rússa ógna öryggi á norðurslóðum og varaði við sókn Kínverja inn á svæðið, þeir ættu ekkert erindi þangað og yrðu aðeins til hættulegra vandræða.

Andrúmsloftið var svo slæmt í maí 2019 að ekki reyndist unnt að gefa út sameiginlega tilkynningu eftir fundinn í Rovaniemi. Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, gestgjafi og fundarstjóri, boðaði í Kastljósi að kvöldi 19. maí að sátt væri um tilkynningu frá ráðherrafundi Norðurskautsráðsins í Hörpu.

Lagningu Nord Stream 2 leiðslunnar var næstum lokið (95% lokið) þegar Joe Biden bauð sig fram til forseta. Biden hefur lýst andstöðu við framkvæmdina. Það gerði Antony Blinken einnig þegar hann sat fyrir svörum í öldungadeild Bandaríkjaþings áður en hann hlaut embætti utanríkisráðherra. Þá sagðist hann „ákveðinn í að gera allt sem við getum til að ekki verði lokið  við“ Nord Stream 2.

Í upphafi fundar utanríkisráðherranna að kvöldi 19. maí sagði Lavrov „alvarlegur ágreiningur“ væri milli Rússa og Bandaríkjamanna en þeir ættu að vinna saman „þar sem hagsmunir okkar stangast á“. Blinken sagði að Biden vildi „fyrirsegjanleg, stöðug samskipti við Rússa“.

Blinken og Lavrov eru ekki í Reykjavík til að kveikja elda heldur slökkva þá. Þeir búa í haginn fyrir fund Bidens og Pútins.