31.5.2021 10:50

Ógn í háskólasamfélaginu

Stjórnendur Georgetown-háskóla stæðu ekki vörð um prófessorana og við blasti hvað gerðist segðu þeir eitthvað sem ekki þætti við hæfi.

Í lok fjar-kennslustundar í lagadeild Georgetown-háskóla í Washington DC í febrúar 2021 ræddi Sandra Sellers aðstoðarprófessor við starfsbróður sinn, David Batson. Vegna heimsfaraldursins notuðu þau Zoom-fjarfundaforritið til að eiga einkasamtal eftir að nemendur höfðu farið úr tímanum. Sellers segir við Batson: „Mér þykir hörmulegt að segja þetta en í lok hverrar annar er ég mjög kvíðin vegna þess að margir nemendur mínir með lægstu einkunnirnar eru svartir. Þetta gerist á næstum hverri önn. Viðbrögðin eru þó alltaf þau sömu: „Æ, láttu ekki svona.“ Þú veist, sumir þeirra eru einnig mjög góðir. Hvað sem því líður er staðan venjulega þannig að sumir þeirra eru einfaldlega lægstir í bekknum. Þetta gengur mjög nærri mér.“ Batson kinkar vandræðalega kolli á myndbandinu. Enginn var lengur tengdur en kerfið sem hélt áfram að taka upp samtalið. Aðgangur að myndbandinu var takmarkaður við nemendur deildarinnar með aðgangsorð.

Það sem segir hér að ofan er úr langri grein í franska blaðinu Le Figaro í dag (31. maí) um útilokunar- eða útlegðarmenninguna sem nú setur mikinn svip á bandaríska háskóla og veldur Frökkum áhyggjum berist hún til þeirra.

Aaht-healyhall1_48654333031_o-1400x800Georgetown-háskóli í Washnington DC.

Aðeins liðu tvær vikur frá þessu samtali þar til einn nemenda við skólann (hann var ekki í fjar-tímanum) birti það á Twitter. Allt fór á annan endann. Sandra Sellers var tafarlaust rekin. Bill Treanor, forseti lagadeildarinnar, birti yfirlýsingu og sagði orðaskiptin á myndbandinu „viðbjóðsleg“. Batson var vikið tímabundið úr starfi en sagði svo af sér. Deildarforsetinn baðst afsökunar fyrir hönd deildarinnar, Sandra Sellers (62 ára) iðraðist orða sinna í opinberri yfirlýsingu og David Batson baðst fyrirgefningar.

Málinu var þó ekki lokið. Blökkumenn í hópi prófessora hvöttu þá sem ekki væru blökkumenn meðal kennara við skólann til að láta meira að sér kveða vegna málsins. Næstum allir kennarar við lagadeildina rituðu undir yfirlýsingu og lofuðu að láta hvorki eigin fordóma né hvíta yfirburðakennd ráða við störf sín. Lama Abu-Odeh lagaprófessor neitaði að skrifa undir skjalið. Hún er Palestínukona frá Jórdaníu og segist ekki ætla að lúta ofríki aðgerðarsinna and-rasista. Hún vildi ekki svara spurningum nemenda sinna um afstöðu sína í kennslustund vegna þess að þar væri allt hljóðritað. Stjórnendur Georgetown-háskóla stæðu ekki vörð um prófessorana og við blasti hvað gerðist segðu þeir eitthvað sem ekki þætti við hæfi. Fengi einhver á sig rasista-stimpil stæði enginn með honum. Innan háskólasamfélagsins væru allir skelfingu lostnir. Á vefsíðunni Quillette birti hún langa grein til að árétta afstöðu sína.

Gagnrýnendur þessarar þróunar í bandaríska háskólasamfélaginu líkja ástandinu í mörgum skólum við það sem var í kínversku menningarbyltingunni þegar Maó formaður gaf ungum Kínverjum skotleyfi á eldri kynslóðir og kínverskan menningararf. Forystu- og lærdómsmenn voru niðurlægðir opinberlega .

Hér á landi hefur útilokunar- eða útlegðarstefnan skotið rótum ásamt vælu-stjórnmálunum. Þeir sem fylgjast með athugasemdum á Faceobook verða fljótt við það varir, innan stjórnmálaflokka má einkum sjá merkin í Samfylkingunni og hjá Pírötum.