3.8.2023 9:59

Ófyrirleitni Trumps

Bandaríkjamenn standa frammi fyrir fordæmalausum pólitískum vanda vegna framgöngu Trumps.

Ófyrirleitni Donalds Trumps, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, eru engin takmörk sett þegar kemur að sjálfsdýrkun hans.

Þetta hefur komið fram í sakamáli á hendur honum fyrir dómstóli í New York borg þar sem hann er sakaður um að hafa greitt klámstjörnu fyrir að þegja um samskipti þeirra. Þá sætir hann ákæru fyrir alríkisdómstóli fyrir að hafa misfarið með trúnaðarskjöl og tekið þau í eigin vörslu. Hann telur þetta allt ofsóknir óvina sinna.

Honum var birt þriðja ákæran þriðjudaginn 1. ágúst í 45 bls. löngu skjali. Þessi alríkisákæra á hendur honum er alvarlegust. Þar er hann sakaður um að hafa ásamt sex öðrum staðið að samsæri árið 2020 til að ógilda kosningarnar sem hann tapaði fyrir Joe Biden. Stuðningsmenn Trumps grípa nú til þess ráðs að saka ákærendur hans um að starfa í anda nazista!

Í Georgíuríki stendur enn yfir rannsókn á því hvort Trump hafi gerst sekur um refsivert brot þar vegna afskipta af kosningum.

TELEMMGLPICT000233481027_16909900895730_trans_NvBQzQNjv4BqfzOMAl0Xij9hZ3C3ekNETZgojZYlP8f0i9h2tPqCNsMDonald Trump og John Bolton.

Flest af því sem fram kemur í ákæruskjalinu frá 1. ágúst hefur birst áður vegna rannsókna á því sem gerðist fyrir utan og í þinghúsinu í Washington 6. janúar 2021 þegar reynt var að hindra að Mike Pence varaforseti lýsti Biden réttkjörinn forseta Bandaríkjanna. Frásögnin í skjalinu nær allt fram til 6. janúar og þar segir að þeir sem réðust á þinghúsið hafi gert það vegna „lyga“ ákærðra þegar þeir hvöttu fólk til dáða.

Í skjalinu er lögð áhersla á að lýsa því hvernig ráðherrar í stjórn Trumps, flokksmenn hans og kosningastjórar sögðu honum ítrekað að ásakanir hans um kosningasvindl ættu ekki við nein rök að styðjast. Forsetinn hefði hins vegar haldið áfram að ljúga opinberlega gegn betri vitund. Þá bætir það ekki hlut Trumps að fyrir liggja skrifleg gögn frá Mike Pence, varaforseta hans, um hvert tilvik þar sem Trump reyndi að fá hann til að brjóta lög með því að neita að staðfesta niðurstöður forsetakosninganna.

Mike Pence keppir nú við Trump um tilnefningu sem forsetaefni repúblíkana. Hann er eini mótframbjóðandi Trumps innan flokksins sem tekur afstöðu gegn honum, aðrir spila annaðhvort með Trump eða sitja á girðingunni. Eftir að ákæran var birt 1. ágúst sagði Pence að í henni fælist alvarleg áminning: Hver sá sem telur sig hafinn yfir stjórnarskrána ætti aldrei að verða forseti Bandaríkjanna.

Pence hefur þó þann fyrirvara á afstöðu sinni að betra hefði verið að láta kjósendur dæma Trump en stefna honum fyrir dómara með ákæru.

Bandaríkjamenn standa frammi fyrir fordæmalausum pólitískum vanda vegna framgöngu Trumps. John Bolton, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Trumps, segir í grein í The Telegraph í dag (3. ágúst) að eina raunhæfa lausnin felist í að réttarhöld í einu eða fleiri sakamálum á hendur Trump hefjist fyrir kosningarnar í nóvember 2024, það geti enn gerst. Yrði Trump fundinn sekur um einhver brot kynni það að verða nóg til að opna augu kjósenda og reita af honum fylgi, það mundi setja kosningabaráttu hans úr skorðum áður en hann setti allt þjóðfélagið úr skorðum.