6.9.2021 9:57

Ofstopi sósíalista magnast

Ofstopi forystufólks Sósíalistaflokksins færist í aukana eftir því sem kjördagur nálgast.

„En sannleikurinn hefur aldrei vafist mikið fyrir þér,“ sagði Diljá Mist Einarsdóttir, frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík norður, við Gunnar Smára Egilsson, hugmyndafræðing og frambjóðanda Sósíalistaflokksins, í sjónvarpsþættinum Silfrinu sunnudaginn 5. september.

Í Silfrinu nefndi Diljá Mist dæmi um að hugmyndir sósíalista um stóreignaskatt gætu leitt til þess að tekjulítil ekkja þyrfti að selja húsið sitt og eigur.

Síðdegis sama dag sest Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar stéttarfélags og flokkssystir Gunnars Smára, við tölvuna og setur á FB-síðu sína:

„Diljá Mist er ekkert annað en ómerkilegur pólitískur loddari. Ég vona af öllu hjarta að hún og þessi ömurlegi arðráns og spillingarklúbbur sem hún tilheyrir, Sjálfstæðisflokkurinn, missi þau eitruðu völd sem þau hafa í samfélaginu okkar.“

Eftir að þessar formælingar birtust leitaði blaðamaður dv.is eftir viðbrögðum Diljár sem sagði:

„Málflutningur formanns Eflingar, þessa öfgasinnaða sósíalista, hann dæmir sig bara sjálfur, og er dæmigerður fyrir sósíalista: uppfullur af hatri.“

Diljá bætti við að henni þætti óboðlegt fyrir ungan frambjóðanda eins og sig að „sæta svona harkalegum árásum frá einni valdamestu konu landsins fyrir það eitt að viðra skoðanir sínar.“

1127233Diljá Mist Einarsdóttir.

Til marks um lygi Gunnars Smára og til staðfestingar á að sannleikurinn hafi aldrei vafist fyrir honum má birta þetta dæmi af vefsíðunni mannlifi.is laugardaginn 4. september. Gunnar Smári segir:

„Þetta hugtak [Baugspenni] var búið til af Birni Bjarnasyni, áróðursveini Valhallar, stuttu eftir að Fréttablaðið var endurvakið þegar rekstur blaðsins fór í þrot ári eftir stofnun. Björn kastaði þessu uppnefni á blaðamenn á ritstjórn Fréttablaðsins.“

Sé farið i leitarvél á þessari vefsíðu bjorn.is og slegið inn orðið Baugspenni finnst það aðeins einu sinni, sjá hér . Vefsíðan kom til sögunnar áður en Gunnar Smári seldi Baugsmanninum Jóni Ásgeiri Jóhannessyni Fréttablaðið á laun árið 2002, snerist blaðið á sveif með Samfylkingunni í þingkosningunum vorið 2003. Um árabil hélt ég úti vefsíðunni Evrópuvaktinni og þar birtist orðið Baugspennar einu sinni í grein eftir mig.

timarit.is spurt um orðið Baugspenni virðist það fyrst koma fyrir á prenti í grein í DV 18. júlí 2008 þar sem vitnað er í eldri færslu á vefsíðu Matthíasar Johannessens sem skrifaði þar undir fyrirsögninni Á vígvelli siðmenningarinnar og kallaði Hallgrím Helgason rithöfund Baugspenna. Hallgrímur skrifaði sig síðan frá stuðningi sínum við Baugmenn.

Grein Gunnars Smára á mannlifi.is lýkur á þessum orðum:

„Ég rek þessa sögu [um orðið Baugspenni] hér að hluta til að undra mig á hversu margt fólk leggur trúnað á sögusagnir sem vella upp úr jafn ómerkilegum mönnum og Birni Bjarnasyni. Senditíkur Valhallar eru fyrir löngu hugmyndafræðilega gjaldþrota og þótt þær reyni enn að kasta einhverjum fýlubombum þá er stríðið þeim tapað.

Það eru aðeins fáein misseri þangað til við munum breyta Valhöll í almenningssalerni. Og þá munum við ráða Björn Bjarnason sem klósettvörð, ekki til að lítillækka hann heldur þvert á móti til að hækka hann í tign.“

Eitt er að Sólveig Anna og Gunnar Smári sýni sérkennilega takta þegar þau ræða stjórnmál. Hitt er óskiljanlegt að þeir sem telja má vanda að virðingu sinni skuli orðalaust sitja með þeim á framboðslistum Sósíalistaflokksins.