1.1.2024 14:40

Nýtt ár - nýir þjóðhöfðingjar

Að segja Danadrottningu hafa varpað sprengju með afsögn sinni er rangt, það á miklu frekar við um orð forseta Íslands.

Gleðilegt nýtt ár!

Tveir norrænir þjóðhöfðingjar tilkynntu afsögn í áramótaávörpum sínum: Margrét II. Danadrottning (83 ára), og Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands (55 ára). Drottningin eftir 52 ár í hásætinu og forsetinn eftir átta ár á sínum stóli.

Í báðum tilvikum komu tilkynningarnar á óvart þótt við þeim hefði mátt búast; drottningarinnar vegna aldurs hennar og forsetans vegna orða við framboð hans.

IMG_9178Að morgni nýársdags 2024.

Danadrottning sagði í ávarpi sínu 31. desember 2023:

„Eftir 14 daga hef ég verið drottning Danmerkur í 52 ár. Svo langur tími skilur eftir sig spor fyrir hverja manneskju – einnig fyrir mig! Tíminn er slítandi og „slæmu dögunum“ fjölgar. Maður kemst ekki lengur yfir það sama sem maður gerði einu sinni.

Í febrúar gekkst ég undir viðamikla hryggaðgerð. Hún gekk vel, þökk sé duglega heilbrigðisstarfsfólkinu sem annaðist mig.

Aðgerðin gaf eðlilega einnig tilefni til að leiða hugann að framtíðinni – hvort ekki væri orðið tímabært að flytja ábyrgðina yfir á næstu kynslóð.

Ég hef ákveðið að nú sé rétti tíminn til þess. Fjórtánda janúar 2024 – 52 árum eftir að ég tók við af elskuðum föður mínum – mun ég draga mig í hlé sem drottning Danmerkur. Ég mun afsala syni mínum, krónprins Friðriki, krúnuna.“

Danir voru sem þrumu lostnir þegar þeir hlýddu á drottningu sína og stjórnmálamenn felldu tár þegar rætt var við þá í beinni útsendingu ríkissjónvarpsins sem gjörbreytti dagskrá sinni til að leggja út af orðum drottningar og sýna myndir úr ævi hennar og krónprinsins.

Guðni Th. Jóhannesson sagði í áramótaávarpi sínu 1. janúar 2024 að vorið 2016 þegar hann bauð sig fram hefði hann boðað að hann vildi ekki „sitja lengur á Bessastöðum en átta til tólf ár“. Hvern einasta dag í embættinu hefði hann fundið hve einstakur heiður væri að gegna því:

„Þess vegna neita ég því ekki að ég íhugaði vandlega að sækjast eftir stuðningi til frekari setu eitt kjörtímabil enn. Aftur á móti komst ég ætíð að þeirri niðurstöðu að betra væri að láta hjartað ráða en fylgja öðrum rökum sem hljóta að teljast veikari þegar allt kemur til alls.“

Minnti hann á að vildi fólk styðja aðra þyrfti það „einnig að gæta að eigin líðan“. Þær stundir sem við ættum ein með sjálfum okkur eða þeim sem okkur þætti vænst um væru jafnvel mikilvægari en okkur grunar. Í öflugu lýðræðissamfélagi kæmi maður líka í manns stað. Engum væri hollt að telja sig ómissandi og skyldurækni á misskildum forsendum mætti „ekki ráða för, því síður eigin hégómi eða sérhagsmunir“.

Af öllum þessum sökum ætlaði hann ekki að „vera í framboði í því forsetakjöri“ sem yrði í sumar.

Það var léttara yfir forseta en oft áður. Orðin sem vísað er til hér að ofan benda einnig til að embættið hafi hvílt þungt á honum. Hjartahlýjan – tilfinningarnar – réð ákvörðun hans að lokum en ekki kuldi heilans.

Að segja Danadrottningu hafa varpað sprengju með afsögn sinni er alrangt það á miklu heldur við um orð forseta Íslands. Stjórnmálamenn og almenningur í Danmörku kveðja drottningu og fagna nýjum konungi með hjartanu.   Stjórnmálamenn og almenningur á Íslandi þurfa nú að leggja höfuðið í bleyti í leit að nýjum þjóðhöfðingja.