12.7.2022 9:57

Nýsköpun, nýliðun til sveita

Allt stuðlar þetta að aukinni fjölbreytni, bændur eru sjálfstæðir atvinnurekendur sem verða að njóta svigrúms og frelsis.

Annars vegar birtast okkur hefðbundnar fréttir af heyskap, kúabúum, afurðastöðvum og aðþrengdum sauðfjárbúskap. Hins vegar er litið í heimsókn til einstaklinga víðs vegar um land sem hver um sig er frumkvöðull, skýtur rótum og fær tækifæri með því að nýta nútíma upplýsingatækni og samfélagsmiðla til að kynna og selja vörur sínar. Hampte, húðkrem kennt við minka eða geitur og margt, margt fleira má kaupa beint frá býli á netinu.

Nauðsynlegt er að setja ný lög og reglur til dæmis vegna hampræktar eða sölu á bjór frá brugghúsum. Þá hafa reglur um heimaslátrun verið rýmkaðar. Allt stuðlar þetta að aukinni fjölbreytni, bændur eru sjálfstæðir atvinnurekendur sem verða að njóta svigrúms og frelsis.

Í gær (11. júlí) kynnti háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið úthlutanir úr Lóu – nýsköpunarstyrkjum fyrir landsbyggðina og hlýtur 21 verkefni styrk í ár. Verkefnin eru fjölbreytt og eru m.a. á sviði nýsköpunar í matvælavinnslu, uppbyggingu í vistkerfi nýsköpunar og STEAM greina og rannsókna á sviði sjávarfallavirkjana. Í tilkynningu ráðuneytisins segir að umsóknir um styrkina hafi sýnt að um land allt sé mikill áhugi hvað varðar nýtingu og sköpun verðmæta úr þörungum.

Í liðinni viku opnaði matvælaráðuneytið fyrir umsóknir um nýliðunarstuðning í landbúnaði. Markmið stuðningsins er að aðstoða nýliða við að hefja búskap og auðvelda ættliðaskipti í landbúnaði.

F88c7936423188d70e738836009e50d2-800xÍtalskar kýr á beit.

Það er grundvallaratriði að skynsamlegar reglur gildi til að auðvelda nýliðun og ættliðaskipti í landbúnaði. Víða um lönd er nú mikil vakning sem miðar að því að efla dreifðar byggðir og sveitahéruð að nýju. Undir lok nítjándu aldar streymdi fólk úr sveitum til byggða og annarra landa ekki aðeins hér og héðan heldur einnig í löndum á suðrænum slóðum eins og Ítalíu.

Talið er að í 40% af sveita- og fjallaþorpum Ítalíu búi færri en 5.000 manns og frá meira en 20.000 bæjum hafi meira en 80% íbúa flutt.

Á Ítalíu sjást þess nú vaxandi merki að ungt fólk flytjist búferlum úr borgum til sveita og er talið að heimsfaraldurinn hafi ýtt undir þessa þróun. Í stað hefðbundinna aðferða er á gömlum grunni leitað nýrra leiða við gerð osta, búfjárrækt og framleiðslu matvæla í fámennum byggðum forfeðranna.

Í nýlegri frétt frá félagi bænda á Ítalíu, Coldiretti, segir að á tíma faraldursins hafi hátæknibýlum undir stjórn ungra bænda undir 35 ára aldri fjölgað um 8% og þróunin haldi áfram.

Stuðningur vegna þessa fæst meðal annars úr ESB-sjóðum sem ætlað er að stuðla að endurreisn atvinnulífs eftir heimsfaraldurinn.

Hér ber að gera stórátak til að kynna tækifæri til sveita. Jafnframt verður að móta skýra landnýtingarstefnu og lögfesta meginreglur sem auðvelda skipulagsyfirvöldum í dreifðum byggðum að taka samræmdar ákvarðanir vegna þrýstings frá fjárfestum t.d. í vindorkuverum eða þeim sem sækjast eftir stórum landsvæðum til skógræktar, nú undir merkjum kolefnisjöfnunar. Þörfin fyrir slíkar meginreglur vex eftir því sem sókn eftir landi eykst, þær stuðla að gegnsæi og setja skorður við upphlaupum þrýstihópa úr hvaða átt sem þeir koma.