3.7.2022 10:46

Nú skal VG útilokað

Stef „slaufunarfólksins“ um að VG gjaldi samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn stenst ekki, það er aðeins hluti af gamalkunna hræðsluáróðrinum.

Forvitnilegt er að fylgjast með hve heiftarlega er ráðist á VG frá vinstri eftir að VG hætti meirihlutasamstarfinu í Reykjavík. Á sama tíma leyfir „slaufunarliðið“ framsóknarmönnum að sigla lygnan sjó. Í bili má hafa gagn af honum á pólitískum vettvangi.

Útilokunaráráttan birtist vel við meirihlutamyndunina í Reykjavík: fyrst tóku Samfylking og Píratar höndum saman um að útiloka Sjálfstæðisflokkinn og á undra skömmum tíma tókst þeim að festa borgarfulltrúa Viðreisnar í útilokunarliðinu. Loks beit Einar Þorsteinsson á agnið, meirihlutanum og Framsóknarflokknum var landað. Vilji kjósenda hans var að engu hafður.

Síðan hefur verið dekrað við Einar, hann „fær“ meira að segja að gegna embætti borgarstjóra í fjarveru Dags B. og „æfa sig“ áður en klækjastjórnmálamaðurinn gengur til þess að leggja undir sig Samfylkinguna og ýta Kristrúnu Frostadóttur í annað sæti. Það hentar honum að láta hana „dekka“ fyrir sig þar til hann telur rétt að láta til skarar skríða með tilheyrandi lúðraþyt.

Áhrif árásanna á VG birtast í minnkandi fylgi flokksins í skoðanakönnunum. Staðfesta Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra og hollusta við stjórnarsáttmálann sem hún gerði og birtur var 28. nóvember 2021 er að engu höfð af „slaufunarliðinu“ eftir að VG er ekki lengur vonarpeningur í borgarstjórn Reykjavíkur. Þeir sem sækja að VG vegna þess ættu að muna að framsóknarmenn áttu engan mann í borgarstjórn frá 2018 til 2022 en klömbruðu saman sigurstranglegum lista í vor og náðu góðum árangri sem verður hæglega að engu.

0x0Í stjórnarsáttmálanum var opnað á leiðina sem varð til þess að losa rammaáætlun úr níu ára viðjum. Að nota það núna til sérstakra árása á Katrínu Jakobsdóttur sýnir aðeins að beitt er áróðursbrögðum án sannfæringar. Gripið er á lofti eitthvað sem talið er skila árangri á líðandi stund. Þetta er þó gjörsamlega misheppnað áróðursvopn þegar það er tengt öfgafullum sjónarmiðum Landverndar sem minna á kenninguna um að betra sé að lifa á fjallagrösum en rafmagni.

Í mikilvægum málaflokkum eins og öryggis- og varnarmálum glímir VG við eigin óheppni. Stefán Pálsson sagnfræðingur er hvað eftir annað kallaður til samtals í fjölmiðlum um stefnu flokksins vegna varna lands og þjóðar. Til hans er leitað þar sem andstæðingar VG vita að hann smyr áróðursvél þeirra með undarlegri afstöðu sinni. Það sem hann segir er á skjön við allt sem skynsamlegt er og stangast algjörlega á við stefnu ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Tvöfeldni VG í öryggis- og varnarmálum er flokknum fjötur um fót sama hvert hann ætlar. Hann verður að hoppa inn í veruleikann og fylgja stefnu sem fellur að honum.

Stef „slaufunarfólksins“ um að VG gjaldi samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn stenst ekki, það er aðeins hluti af gamalkunna hræðsluáróðrinum. VG sagði ekki skilið við meirihlutann í Reykjavík vegna Sjálfstæðisflokksins heldur vegna sambúðarvanda þar og síðan er flokkurinn ofsóttur frá vinstri. Það blasir við öllum.