14.11.2017 12:51

Aðdráttaraflið og flóttamannavegurinn

Harpa veitir tækifæri til markvissrar listsköpunar til langs tíma. Við mótun og framkvæmd útlendingastefnu verður að minnka aðdráttafl landins fyrir glæpahópa.

Inn á síðuna hef ég sett tvær greinar frá desember 1979 og janúar 1980 í tilefni að því að VG samþykkti formlega í gær (13. nóvember) að láta á það reyna hvort flokkurinn gæti myndað ríkisstjórn með Framsóknarmönnum og Sjálfstæðismönnum. Greinarnar vöktu nokkra athygli á sínum tíma því að þar var mælt með því að Sjálfstæðismenn og Alþýðubandalagsmenn reyndu með sér við stjórnarmyndun. Greinarnar má lesa hér.

Í Fréttablaðinu í dag (14. nóvember) birtast tvær greina sem vöktu athygli mína.

Fyrri greinin er eftir Gunnar Guðjónsson sem hefur starfað í klassíska geiranum í Vín sl. 6 ár, þar á meðal sem verkefnastjóri í Wiener Konzerthaus við tónleikahald og uppsetningu ISO9001. Hann beinir athygli að hve að mörgu þarf að huga við rekstur húss á borð við Hörpu. Þar sé um að ræða „vandmeðfarna hringrás“ þar sem huga verði að tengslum og sambandi þess við hagsmunaaðila, „allt frá eigendum og aðstandendum til listamanna og áhorfenda“.

Gunnar segir að stofni Harpa til samstarfs íbúa og þeirra sem nýta húsið til listsköpunar meðal annars með klassískum tónleikaröðum sé unnt að takmarka áhættu og tryggja festu í starfseminni. Nefnir hann til fyrirmyndar Fílharmóníu Berlínar og nýlega endurskipulagningu Fílharmóníu Lúxemborgar. Tonhalle Zürich sé einnig að færast út á þessar slóðir. Hvetur hann til þess að stjórnendur Hörpu fari inn á svipaðar brautir og nefnir dæmi frá Tónleikahúsi Vínarborgar (Wiener Konzerthaus).

Hér eru nefnd heimsfræg tónlistarhús í sömu andrá og höfundurinn ræðir framtíð Hörpu og henni til samanburðar. Það segir í sjálfu sér meira en mörg orð en gefur einnig til kynna hve mörg tækifæri felast í þessu einstaka mannvirki sem hefur sjálfstætt aðdráttarafl fyrir annarra þjóða menn svo að ekki sé talað um landsmenn sjálfa.

Að Reykjavíkurborg skuli leggja sig fram um að íþyngja Hörpu með ofurgjöldum er aðeins eitt lítið dæmi um fjármálastjórnina sem stofnar rekstri höfuðborgarinnar í hættu.

Síðari greinin ber fyrirsögnina Flóttamannavegurinn eftir Jón Pétur Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjón hjá lögreglustjóranum á Suðurnesjum. Embætti lögreglustjórans sinnir landamæravörslu í Flugstöð Leifs Eiríksson. Jón Pétur segir meðal annars:

„Þegar mat er lagt á þrýsting á landamærin er hafður til hliðsjónar fjöldi mælikvarða, t.d. tilvik þar sem fölsuðum skilríkjum er framvísað, mál þar sem grunur leikur á smygli á fólki eða mansali, umsóknir um alþjóðlega vernd, fjöldi einstaklinga sem uppfylla ekki skilyrði fyrir komu, heildarfjöldi farþega sem fara um landamærin o.s.frv. Allir mælikvarðarnir sem stuðst er við sýna að aukið álag er á landamærum á Íslandi. Fjölmargir þættir eru til skýringar, t.d. gott efnahagsástand, aukinn áhugi á Íslandi sem ferðamannastaðar og síðast en ekki síst afar gott aðgengi að landinu.

Glæpasamtök nýta sér neyð fólks og hafa af því ávinning af að koma fólki yfir landamæri. Af og til koma upp tilvik hér á landi þar sem grunur vaknar um slíkt. Á það bæði við um tilvik þar sem Ísland er lokaákvörðunarstaðurinn en einnig er Ísland notað sem gegnumferðarland, m.a. til Bretlands og N-Ameríku. Áherslur löggæsluyfirvalda undanfarin ár gagnvart þessari brotastarfsemi er að beita öllum tiltækum úrræðum í því skyni að draga úr aðdráttarafli Íslands sem fýsilegum kosti hvað slíkar ferðir varðar.“

Í þessum orðum er lýst veruleika sem við verður að bregðast til að ná því lokamarkmiði sem höfundur nefnir að „draga úr aðdráttarafli Íslands“ fyrir þá sem ferðast á ólögmætan hátt milli landa á vegum glæpasamtaka sem nýta sér neyð fólks.