4.1.2017 13:30

Miðvikudagur 04. 01. 17

Í dag ræddi ég við Pétur Einarsson kvikmyndagerðarmann í þætti mínum á ÍNN í tilefni af því að sunnudaginn 8. janúar sýnir sjónvarpið mynd hans Ránsfeng um aðdraganda hrunsins árið 2008 en þó sérstaklega eftirleik þess. Pétur hefur reynslu sem bankamaður og starfsmaður í fjármálaheiminum og nálgast því viðfangsefnið af þekkingu og innsýn í þann heim sem hann lýsir. Samtal okkar verður frumsýnt kl. 20.00 í kvöld.

Uppgjörið við hrunið sjálft hefur verið unnið af kostgæfni af rannsóknarnefndum, saksóknurum og dómurum auk þess sem tekist hefur verið á um það á pólitískum vettvangi. Eftirleikurinn hefur ekki verið skoðaður á sama hátt en í myndinni bregður Pétur ljósi á hlut vogunarsjóðanna og eignarhald þeirra á bönkunum.

Í samtali okkar nefnir hann leyndina sem hvíldi yfir einkavæðingu bankanna til kröfuhafanna í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. Við þá framkvæmd hefði verið brotin meginregla um gegnsætt eignarhald á bönkum, með einni stjórnvaldsákvörðun hefði verið gengið gegn öllu sem hefði átt að vera meginlærdómur af hruninu: að fyrir liggi opnar upplýsingar um eigendur banka.

Rannsóknir sem Víglundur Þorsteinsson lögfræðingur og Vigdís Hauksdóttir alþingismaður hafa unnið undanfarin misseri hafa einmitt lotið að því hvað gerðist í raun við einkavæðingu Steingríms J. Sigfússonar á bönkunum vorið 2009. 

Á þingi og í fjölmiðlum hefur verið takmarkaður áhugi á að segja fréttir af þessu leynimakki öllu og raunar sat Vigdís eins og hálfgerður sakamaður fyrir svörum í Kastljósi þegar hún birti skýrslu sína. Álitsgjöfum (með stuðningi banka eða fjármálastofnana?) tókst að snúa umræðum um niðurstöður Vigdísar í persónulegar árásir á hana. Ákvað hún að bjóða sig ekki að nýju fram til alþingis.

Pétur Einarsson er eindregið þeirrar skoðunar að skilja eigi á milli viðskiptabankaþjónustu og fjárfestingastarfsemi banka. Ágóða banka og ofurlaun starfsmanna þeirra megi rekja til fjárfestinganna innan fjármálaheimsins án þess að aðrir hafi hag af því en þeir sem lifa og hrærast í honum. Hann telur nú einstakt tækifæri til að koma á slíkum aðskilnaði hér á landi þar sem ríkið eigi tvo stóra banka og hafi mjög mikil ítök innan þess þriðja.

Umræður um lærdóma af hruninu eru of litlar. Margt í íslenska fjármálaheiminum stefnir í sama horf og fyrir október 2008. Myndin Ránsfengur ætti vekja til umhugsunar um nauðsynlegar umbætur.