2.1.2017 10:45

Mánudagur 02. 01. 17

Greinilegt er af lestri Fréttablaðsins i dag að stuðningsmenn pólitíska tvíhöfðans, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar, hafa lekið í blaðið efni sem þeir telja hagstætt fyrir sig í viðræðunum sem hefjast formlega í dag undir forystu Bjarna Benediktssonar eftir að forseti Íslands fól honum öðru sinni föstudaginn 30. desember að reyna stjórnarmyndun.

Forsíðufyrirsögn blaðsins er: Þjóðaratkvæði um ESB í stjórnarsáttmálanum. Inni í blaðinu, við hlið leiðarans, er það sem hér hefur verið kallað húskarlahorn Fréttablaðsins. Þetta er smálegur fróðleikur sem fellur að skoðun eigenda og ráðamanna blaðsins. Þar segir í dag:

„Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hefur náðst sátt í stjórnarmyndunarviðræðum um að kosið verði um viðræður við ESB, kvóti fari á markað, MS verði sett undir samkeppnislög og tollar á hvítt kjöt lækkaðir í skrefum á kjörtímabilinu. Verður að telja þetta nokkur pólitísk tíðindi og verður landsbyggðararmur Sjálfstæðisflokksins líkast til ekki hoppandi glaður yfir þeim stjórnarsáttmála. Sérstaklega ekki ákvæðinu um ESB-þjóðaratkvæðagreiðslu. Rétt er þó að minna á að fyrir kosningar 2013 lofaði Bjarni Benediktsson þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald viðræðna við ESB.

Svo virðist sem Benedikt Jóhannesson og Óttarr Proppé hafi, með samstilltu átaki sínu um að vinna náið saman eftir kosningar, náð öllum sínum stóru málum áfram í samningaviðræðum við Sjálfstæðisflokkinn.“

Þessi klausa sannar að tilgangur lekans til Fréttablaðsins er að hampa tvíhöfða stjórnmálanna á kostnað Sjálfstæðisflokksins. Á mbl.is í dag lætur síðan Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, eins og þetta komi honum allt á óvart!

Þetta lofar ekki góðu um andrúmsloft í samstarfi flokka með aðeins eins atkvæðis meirihluta á alþingi. Minna æfingarnar dálítið á það sem gerðist fyrir kosningar 1995 og varð til þess að Davíð Oddsson treysti sér ekki til að vinna áfram með Alþýðuflokknum (með eins atkvæðis meirihluta) og hóf farsælt samstarf við Framsóknarflokkinn sem stóð til 2007. Morgunblaðið birtir í dag forsíðufrétt um að Framsóknarflokkurinn og vinstri grænir leggi á ráðin um samstarf við Sjálfstæðisflokkinn.

Að jafnmikil áhersla skuli lögð á ESB-mál í frétt Fréttablaðsins og raun sýnir er ekki til marks um neitt annað en þráhyggju Viðreisnar. Bjarni Benediktsson hefur sagt að alþingi verði að taka ákvörðun um að sækja að nýju um ESB-aðild og verði það gert skuli sú ákvörðun borin undir þjóðina. Fréttablaðs-fréttin segir ekkert um þetta. Hún er með öðrum orðum hálf-sannleikur, fluttur í áróðursskyni og spillir aðeins fyrir þeim sem að baki stendur.